Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Einstaklingar erfðu samtals tæplega 47 milljarða króna á síðasta ári samkvæmt skattframtölum fyrir árið 2018. Alls töldu 5.552 framteljendur fram arf á árinu vegna tekna á síðasta ári.

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Einstaklingar erfðu samtals tæplega 47 milljarða króna á síðasta ári samkvæmt skattframtölum fyrir árið 2018. Alls töldu 5.552 framteljendur fram arf á árinu vegna tekna á síðasta ári. Af þessari fjárhæð renna tæplega 4,5 milljarðar til ríkisins í erfðafjárskatt.

Þessar upplýsingar fengust hjá embætti Ríkisskattstjóra. Upphæð fengins arfs hækkaði á milli ára en til samanburðar þá töldu 5.367 framteljendur fram arf í fyrra sem þeir fengu á árinu 2017, samtals rúmlega 38,4 milljarða á verðlagi þess árs.

Á fimm ára tímabili, þ.e.a.s. á árunum 2014 til 2018, fengu landsmenn samanlagt tæplega 165 milljarða kr. í arf að því er fram kemur í skattframtölum og voru erfingjar á þessu tímabili um 24.350 talsins. Tekjur ríkisins af erfðafjárskatti á þessum árum voru rúmir 15,8 milljarðar.

Á síðasta ári létu 1.604 eftir sig arf. Fjöldi þeirra sem telja fram arf hefur sveiflast í gegnum árin. Á síðustu 14 árum náði fjöldi þeirra hámarki 2010 þegar 6.611 töldu fram arf. Þeir voru 3.550 ári síðar en síðan þá hefur erfingjum fjölgað ár frá ári.

Erfðir og skattur
» Sýslumenn sjá um að leggja erfðafjárskatt á dánarbú og eru skattleysismörkin ein og hálf milljón
» Á síðustu tíu árum hafa 47.270 einstaklingar talið fram fenginn arf á skattframtölum