Um borð í Vigra Sjómenn virðast almennt ekki meðvitaðir um réttindi sín.
Um borð í Vigra Sjómenn virðast almennt ekki meðvitaðir um réttindi sín. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Aðeins 29 sjómenn á aldrinum 60-67 ára nýta rétt sinn til töku lífeyris hjá Tryggingastofnun eins og þeir eiga rétt á samkvæmt lögum um almannatryggingar.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Aðeins 29 sjómenn á aldrinum 60-67 ára nýta rétt sinn til töku lífeyris hjá Tryggingastofnun eins og þeir eiga rétt á samkvæmt lögum um almannatryggingar. Fram kom á Alþingi í vikunni að fjöldi sjómanna sem ættu þessi réttindi væri án efa meiri en 29 og þörf væri á að kynna sjómönnum þennan rétt. Fyrir fimm árum nýttu 52 sjómenn þessi réttindi.

Hólmgeir Jónsson, framkvæmdastjóri Sjómannasambands Íslands, segir að almennt virðist sjómenn ekki vita af þessum réttindum. Hann segir að talsvert sé spurt um þau og segir líklegt að félög sjómanna kynni réttindin betur heldur en gert hefur verið. Hólmgeir tekur fram að gagnaöflun geti verið erfið þar sem meðal skilyrða fyrir töku sjómannalífeyris frá og með 60 ára aldri sé að menn geti sýnt fram á að hafa stundað sjómennsku í 25 ár eða lengur. Talsverð vinna geti farið í að finna hvenær og hvernig menn voru lögskráðir jafnvel nokkra áratugi aftur í tímann.

Upplýsingar í skjalasöfnum

Það var Sigurður Páll Jónsson, Miðflokknum, sem spurði Ásmund Einar Daðason félagsmálaráðherra á Alþingi um fjölda sjómanna sem nýttu sér rétt til töku ellilífeyris á aldrinum 60-67 ára og hversu hátt hlutfallið væri meðal þeirra sem ættu slík réttindi. Hann lýsti áhyggjum af því að einhver hluti sjómanna nýtti sér ekki þennan rétt og sagði að erfiðlega gæti gengið að fá upplýsingar um lögskráningu fyrir þann tíma er Samgöngustofa tók að halda utan um lögskráningar. Dæmi væru um að kalla þyrfti eftir upplýsingum í skjalasöfnum, en slíkt gæti verið tímafrekt og einhverjir gæfust upp við þá vinnu.

Ásmundur Einar sagði að samkvæmt upplýsingum Tryggingastofnunar ríkisins fengju nú einungis 29 einstaklingar greiddan sjómannalífeyri og hefði fækkað stöðugt, en þeir voru 52 árið 2014. Hann sagði að leiða mætti líkur að því að margir sjómenn væru ekki meðvitaðir um þennan rétt og ætla mætti að þeir væru mun fleiri. Hann sagði að heildarfjöldi þeirra sem ættu réttinn lægi ekki fyrir.

Ráðherra sagði að full ástæða væri til að fara í kynningu á þessum réttindum sjómanna.