Rannveig Ísfjörð fæddist 29. september 1935. Hún lést 27. október 2019.

Útför Rannveigar fór fram 11. nóvember 2019.

Það var fyrir 24 árum sem ég kynntist tengdamóður minni Rannveigu Ísfjörð. Hún hafði góða nærveru, ljúft og rólegt viðmót en jafnframt var stutt í húmorinn. Það var alltaf notalegt að koma í heimsókn til hennar í litlu sætu íbúðina sem hún bjó í síðustu árin og fá kaffi og gott spjall. Við fórum oft um víðan völl í umræðum og alltaf var hún laus við fordóma og dæmdi engan. Hún hugsaði ávallt vel um alla og var mikil prjónakona og margir í fjölskyldunni áttu lopapeysu með mynstrinu hennar.

Mikil natni var lögð í afmæliskort til barnanna minna þar sem hún skrifaði fallega kveðju til þeirra og heilræði. Ferðir okkar lágu víða innanlands jafnt sem utan og eitt sumarið fórum við til Spánar og síðar fórum við til Kanaríeyja um vetur þar sem hún naut sín með okkur og barnabörnunum sínum. Rannveig var mikil bókakona og las mikið og áttum við margar góðar stundir saman að ræða um bækur og þau voru ófá skiptin sem ég fór frá henni með bók í hönd en þannig var okkar síðasti fundur. Nú er komið að kveðjustund og eftir standa hugljúfar minningar um yndislega tengdamömmu, ömmu og vinkonu sem mér þótti svo óskaplega vænt um. Ég er viss um að þér líður vel núna með góða bók í hönd og prjónarnir ekki langt undan. Takk fyrir allt og hvíl í friði, ljúf minning um þig lifir.

Athvarf hlýtt við áttum hjá þér

ástrík skildir bros og tár.

Í samleik björt, sem sólskinsdagur

samfylgd þín um horfin ár.

Fyrir allt sem okkur varstu

ástarþakkir færum þér.

Gæði og tryggð er gafstu

í verki góðri konu vitni ber.

Aðalsmerkið: elska og fórna

yfir þínum sporum skín.

Hlý og björt í hugum okkar

hjartkær lifir minning þín.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Magnea Svava

Guðmundsdóttir.

Elsku besta amma Lilla. Það er ennþá svo óraunverulegt að þú sért ekki með okkur lengur en að missa þig er það erfiðasta sem ég hef þurft að upplifa. Þú varst besta vinkona mín. Þú varst alltaf til staðar fyrir mig þegar ég þurfti á þér að halda og sérstaklega fyrr á árinu þegar ég gekk í gegnum erfitt tímabil þá varst það þú sem stóðst mér næst. Það varst þú sem hjálpaðir mér í gegnum þetta tímabil. Ég og þú gátum talað saman um allt, þú varst þannig amma.

Þú varst svo mikill töffari og ég elskaði það við þig. Þegar ég var yngri fannst mér svo gaman að koma og gista hjá þér. Þú áttir alltaf til kjötbollur í brúnni sósu og kartöflur handa mér, en það var uppáhalds maturinn minn sem þú gerðir. Okkur fannst alltaf svo notalegt að leggjast í rúmið þitt eftir að við borðuðum kvöldmat saman og spjalla um lífið og tilveruna og bara leggja okkur í smástund en þú sagðir alltaf: „Eigum við ekki bara að leggja okkur aðeins?“ Í hvert skipti sem maður kom til þín í heimsókn tókstu á móti manni með hlýjum örmum, knúsum og kossum. Ég og Dagmar vorum duglegar að kíkja til þín bara tvær og eyða heilum degi með þér en það var klárlega með bestu stundum sem ég upplifði með þér. Við keyrðum til þín á Selfoss og keyptum í matinn og elduðum saman heima hjá þér á meðan þú hafðir það notalegt. Í júlí komum við og þá borðuðum við saman og höfðum það ótrúlega gott bara við stöllurnar þrjár. Síðustu skiptin okkar saman eru mér virkilega dýrmæt en annað þeirra var á frænkukvöldinu og svo afmælisdagurinn þinn í september. Ég, mamma og pabbi fórum í Smáralindina áður en við lögðum af stað til þín og ég valdi hálsmen handa þér sem mér fannst vera svo mikið þú og þú varst svo ánægð með það. Við eyddum heilum degi með þér á afmælisdaginn þinn, elduðum kvöldmat handa þér og borðuðum öll saman og höfðum það notalegt. Þetta er dagur sem ég mun aldrei gleyma. Við kvöddumst svo um kvöldið þegar við vorum að fara og ég kyssti þig, knúsaði og sagðist elska þig. Á þessum tímapunkti hefði mér aldrei dottið það í hug að þetta yrði í síðasta skiptið sem ég væri að knúsa þig. Ef ég hefði vitað það hefði ég sagt þér það milljón sinnum hversu mikið ég elskaði þig. Að halda áfram án þín er mér einstaklega erfitt en það er verkefni sem ég þarf að tækla og ég ætla að gera það fyrir þig. Fyrstu jólin án þín verða erfið og öðruvísi. Að koma ekki á Selfoss til þín rétt fyrir jól með jólapakka handa þér og eyða með þér heilum degi eins og ég, mamma og pabbi vorum vön að gera verður einmanalegt. Að þú fáir ekki að kynnast börnunum mínum þegar að því kemur er líka erfið tilhugsun sem ég á erfitt með að kyngja því þú varst mér svo mikilvæg. Ég mun segja þeim allar sögurnar af þér og þannig fá þau að kynnast ömmu sinni sem allir elskuðu.

Takk fyrir að hafa verið besta amma sem nokkur getur ímyndað sér, fyrir að hafa verið alltaf til staðar fyrir mig og ekki síst verið langbesta vinkona mín. Það kemur engin í staðin fyrir þig og það vantar stóran hluta af mér núna þegar þú ert ekki hér lengur. Ég vissi ekki að það væri hægt að sakna einhvers svona mikið eins og ég sakna þín. Það gefur mér styrk að hugsa um allar yndislegu minningarnar sem við áttum saman.

Takk elsku besta amma Lilla fyrir allt saman, fyrir að vera amma mín og fyrir að vera best í heimi. Ég elska þig um ókomna tíð.

Þín ömmustelpa,

Kristín Gunnþóra Oddsdóttir.

mbl.is/andlat