Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Heildarfjárhæð arfs sem einstaklingar hafa fengið hefur farið hækkandi á umliðnum árum. Á síðasta ári erfðu einstaklingar tæplega 47 milljarða króna samkvæmt skattframtölum fyrir árið 2018. Alls töldu 5.

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Heildarfjárhæð arfs sem einstaklingar hafa fengið hefur farið hækkandi á umliðnum árum. Á síðasta ári erfðu einstaklingar tæplega 47 milljarða króna samkvæmt skattframtölum fyrir árið 2018.

Alls töldu 5.552 framteljendur fram arf á skattframtölum fyrir síðasta ár samkvæmt nýjum tölum sem fengust hjá embætti Ríkisskattstjóra. Af þessari fjárhæð voru greiddir tæplega 4,5 milljarðar til ríkisins í erfðafjárskatt vegna síðasta árs.

Töldu fram 165 milljarða í arf á seinustu fimm árum

Á síðustu fimm árum, þ.e.a.s. á árunum 2014 til 2018 fengu landsmenn samanlagt tæplega 165 milljarða króna í arf samkvæmt skattframtölum og voru erfingjar á þessu tímabili um 24.350 talsins. Tekjur ríkisins af erfðafjárskatti á þessu tímabili voru rúmir 15,8 milljarðar króna.

Fram kemur á yfirlitinu sem fékkst hjá Ríkisskattstjóra, sem sýnir fenginn arf og fjölda þeirra sem töldu fram arf á skattframtölum áranna 2006 til 2019 vegna tekna áranna 2005 til 2018, að alls létu 1.604 eftir sig arf á seinasta ári.

Skattleysismörkin eru ein og hálf milljón á hvert dánarbú

Það eru sýslumenn sem sjá um að leggja erfðafjárskatt á dánarbú. Skattleysismörkin eru ein og hálf milljón á dánarbúið samkvæmt upplýsingum Ríkisskattstjóra.

Ekki kemur fram hversu stór hluti fengins arfs í fyrra var fyrirframgreiddur arfur eða hvernig fjárhæðirnar skiptust á milli erfingja en meðalfjárhæð arfs framteljenda í fyrra var um 8,5 milljónir króna.

Um 8% fékk arf undir tíu milljónum kr. árið 2017

Fram kom í svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn Jóns Steindórs Valdimarssonar, þingmanns Viðreisnar, um arf og fjárhæðir erfðafjárskatts á Alþingi í fyrra, að miðgildi heildarverðmætis dánarbúa á árinu 2017 var 14,5 milljónir kr. og miðgildi arfsfjárhæðar erfingja var 3,5 milljónir króna.

Langstærsti hluti erfingja, eða 98,6%, hlaut arf undir 50 milljónum kr. á því ári og 81,3% fengu arf undir 10 milljónum króna á árinu 2017 en skv. yfirliti Ríkisskattstjóra fengu 5.367 einstaklingar arf á því ári og var samanlagður arfur það ár rúmir 38,4 milljarðar kr.

Í drögum að frumvarpi sem fjármálaráðherra kynnti í haust á samráðsgátt stjórnvalda um breytingar á lögum um erfðafjárskatt, er lagt til að erfðafjárskatturinn verði þrepaskiptur. 5% erfðafjárskattur greiðist af fjárhæð allt að 75 milljónir kr. en 10% af því sem er umfram þá fjárhæð.

Skatttekjur lækka verði áform í frumvarpi lögfest

Þá er lagt til í frumvarpinu að skattur af fyrirframgreiddum arfi verði í efra skattþrepinu þ.e. 10% skattur. Verði frumvarpið lögfest er búist við að tekjur ríkissjóðs af erfðafjárskatti lækki á næsta ári um 2 milljarða kr. og verði í kringum 3,2 milljarðar króna.