Lokametrarnir í bresku kosningunum

Nú eru aðeins tvær vikur til kosninga í Bretlandi. Þeir sem eru í eldlínunni eru samdóma um að þetta séu mikilvægustu kosningar á síðari tímum. Það hefur heyrst áður, enda telja frambjóðendur allar kosningar sem snúast um „sætið þeirra“, persónulega afkomu og stöðu mjög mikilvægar. En það eru æði mörg teikn um að kosningaúrslitin geti nú haft víðtækar afleiðingar í bráð og lengd. Staðan var orðin illbærileg um margt. Þrír forsætisráðherrar sátu á jafnmörgum árum, sem er sérstætt. Sá fyrsti fór er hann varð undir í þjóðaratkvæði, sem hann stofnaði sjálfur til. Cameron sagði réttilega eftir úrslit þess að rétt væri að flokkurinn veldi sér leiðtoga úr röðum þeirra sem börðust fyrir útgöngu.

Svo illa tókst til að bræðrabylta þeirra Johnsons og Gove skolaði Theresu May í forsætisráðuneytið þótt hún væri yfirlýstur andstæðingur útgöngu. May hélt óhönduglega á málinu öllu uns flokkurinn gafst upp á henni. Þá komst Boris Johnson loks inn í númer 10. En nú hafði margt breyst.

May missti meirihluta flokksins í skyndikosningum 2017 þvert á allar kannanir. Að auki hafði kvarnast úr þingmannahópnum, m.a. vegna aukakosninga, og þess utan sátu allmargir ráðherrar og þingmenn á svikráðum, þótt þeir hefðu opinberlega lofað að virða ákvörðun þjóðarinnar. Þingforsetinn Bercow, þrunginn af athyglissýki og einleiksáráttu, spilaði með stjórnarandstöðunni. Hann sagðist algjörlega hlutlaus sem þingforseti en upplýsti daginn eftir að hann fór úr forsetastóli að úrsögn úr ESB væri „vitlausasta ákvörðun allra tíma“.

Jeremy Corbyn hafði krafist þess í tíma og ótíma að þing yrði rofið og blásið til kosninga. Johnson sá strax eftir að hann varð forsætisráðherra að þráteflið var óleysanlegt, ekki síst þar sem hann bjó við minnihluta í þinginu, sem saxaðist úr, og ákvað því að taka Corbyn á orðinu og kalla eftir þingrofi og kosningum. En Corbyn horfði hræddur á síðustu kannanir og hafnaði í tvígang slíkri tillögu. Boris rak „ESB svikarana“ úr Íhaldsflokknum og tilkynnti að þeir myndu ekki fá að bjóða sig fram fyrir flokkinn. Síðar þrengdi hann nokkuð hópinn sem refsivöndurinn tók til.

Þegar orðið var óþægilega pínlegt fyrir Corbyn að neita kosningum sem hann hafði kallað eftir neyddist hann loks til að samþykkja þær. Þá var svo komið að ekki var hægt að kjósa fyrr en um miðjan desember.

Kannanir sýna enn að Johnson hafi verulegt forskot á Corbyn. Þó virðist munurinn hafa minnkað nokkuð. Þeir sem hafa forskot fara með löndum og forðast loforð og yfirlýsingar sem gætu komið flokknum í vörn. Sá sem á undir högg að sækja telur sinn besta kost að lofa stórt og hafa sem mest undir. Boris forðast því að taka áhættur núna, þótt hann hafi áður haft tilhneigingu til glannagangs í kosningaslag. Hann forðast mistök sem gætu snúið kjósendum á lokametrunum.

Umfram allt vilja leiðtogarnir ekki lenda í vondum sjónvarpsviðtölum. Í Bretlandi er nú mjög rætt um nokkur áberandi „stórslysaviðtöl“. Frægt varð þegar að handlangarar Tony Blair sendu tölvupósta sín á milli 11. september 2001 um að nú væri kjörið að keyra óvinsæl mál í gegn. Kannski mátti verja hugsunina um að sópa óvinsælum aðgerðum frá á meðan hörmungar heltóku alla fjölmiðla. En að senda pósta á milli sín um þá hugsun var pólitísk sjálfsmorðstilraun.

Talið er að einhver hafi ráðlagt Andrew prins að tjá sig loks um „Epstein-málið“ í miðri hatrammri kosningabaráttu sem gæti drekkt viðtalinu. Þá væri „það frá“. Það varð fyrsta „stórslysaviðtalið í rununni“. Næsta var einkaviðtal Corbyns á BBC. Það var eins og leiðtoginn hefði leitað í smiðju hins ólánsama prins. Því þegar sótt var að honum vegna meintrar gyðingaandúðar í efstu lögum flokks hans fór Corbyn út af. Spurningin var fyrirsjáanleg vegna fyrri umræðu og þar sem æðsti rabbíni gyðinga hafði nýlega harðlega gagnrýnt áberandi andúð á gyðingum í Verkamannaflokknum. Corbyn tók Andrés á málið. Sýndi fullkomna afneitun og algjöran skort á iðrun. Og fimbulfambaði þokukenndur í anda fyrirmyndarinnar.

Sú þriðja sem lenti í stórslysaviðtali var Nicola Sturgeon, leiðtogi skoskra sjálfstæðissinna, stærsta flokks Skota. Hún sagðist ætla að knýja á um sjálfstæði Skota, halda pundinu sem mynt, þótt hún gengi í ESB og væri það ekki hægt þá myndi hún stofna skoskan seðlabanka og taka upp sjálfstæða skoska mynt sem henni var þá bent á að væri ekki lengur heimilt gengju þjóðir í ESB. – ÚBS.