Það er mikill sjónarsviptir að Margréti Láru Viðarsdóttur af knattspyrnuvellinum. Við eigum ekki svo margt íþróttafólk sem bókstaflega allir landsmenn þekkja, hversu lítið sem þeir fylgjast með íþróttum, en Eyjamærin er ein þeirra.
Það er mikill sjónarsviptir að Margréti Láru Viðarsdóttur af knattspyrnuvellinum. Við eigum ekki svo margt íþróttafólk sem bókstaflega allir landsmenn þekkja, hversu lítið sem þeir fylgjast með íþróttum, en Eyjamærin er ein þeirra. Hún hafði sína einstöku hæfileika – allir titlarnir og mörkin tala sínu máli – og bætti enn við fyrir íþrótt sína með því að gefa mikið af sér utan vallar.

Ég gældi við að Margrét kæmist með íslenska landsliðinu á EM í Englandi 2021, í ljósi þess flugs sem hún náði eftir krossbandsslit og barneignir. Það er mjög sárt að hugsa til þess hvernig Margrét sleit krossband í hné mánuði áður en hún hefði verið á leiðinni á EM í Hollandi 2017, með Elísu systur sinni sem einnig sleit krossband sama ár. „Systurnar saman á stórmóti“ gekk ekki upp en þær urðu Íslandsmeistarar saman í haust.

Þetta var reyndar síður en svo í eina skiptið sem meiðsli settu strik í reikninginn hjá Margréti og maður veltir því fyrir sér hve langt hún hefði náð á heimsvísu ef flókin meiðsli í lærum hefðu ekki haldið aftur af henni.

Það fór vel á því að Margrét skyldi skora úr síðustu snertingu sinni í búningi íslenska landsliðsins, frá hárréttum stað í vítateignum gegn Lettlandi í síðasta mánuði, rétt eins og hún skoraði úr fyrstu snertingu sinni fyrir landsliðið sumarið 2003.

„Ég breytist samt ekkert og verð ekkert betri þó að ég hafi skorað mark og verð áfram að leggja mig fram. Þetta er bara eitt mark,“ sagði Margrét við Moggann eftir fyrsta markið. Mörkin urðu á endanum 79 og það Íslandsmet verður sjálfsagt aldrei slegið.