Anna Hjaltested fæddist 23. maí 1932 á Vatnsenda við Elliðavatn. Hún lést á Hömrum í Mosfellsbæ 8. nóvember 2019.

Foreldrar Önnu voru Lárus Hjaltested, 22. febrúar 1892, dáinn 8. júní 1956, og Sigríður Guðný Jónsdóttir, 6. janúar 1896, dáin 12. febrúar 1980. Systkini hennar eru Sigurður Kristján, f. 11. júní 1916, d. 13.nóvember 1966, Georg Pétur, f. 11. apríl 1918, d. 26. september 1996, Katrín, f. 21. maí 1920, d. 22. nóvember 2008, Sigurveig, f. 10. júní 1923, d. 20. júlí 2009, Jón Einar, f. 27. ágúst 1925, d. 22. apríl 2002, og Ingveldur, f. 22. maí 1934.

Anna giftist 30. nóvember 1951 Þórði B. Sigurðssyni, f. 9. júlí 1929, fv. forstjóra Reiknistofu bankanna. Foreldrar hans voru Sigurður Þórðarson, f. 2. apríl 1903, d. 24. desember 1965, og Ólafía Hjaltested, f. 9. júní 1898, d. 14. júlí 1954. Fósturforeldrar Björn Vigfússon, f. 5. júlí 1899, d. 28. desember 1989, og Anna Hjaltested, f. 7. mars 1895, d. 6. janúar 1958. Börn Önnu og Þórðar eru:

1) Magnús Þrándur, f. 2. maí 1952, d. 19. mars 2019, k. Helga Þorvarðardóttir, f. 16. júlí 1949. Börn: a) Ragnhildur, f. 13. október 1974, dóttir Stella Lúna. b) Illugi, f. 23. mars 1976, k. Michele K. Magnússon. c) Pétur Gautur, f. 31. mars 1980.

2) Björn Þráinn, f. 30. október 1954, k. Sigurveig Sigurðardóttir, f. 22. september 1952. Börn: a) Sigurður Sævarsson, f. 24. desember 1971, k. Ásdís Líndal, börn Snædís Björk, Daníel Þór og Ísak Már. Maki Snædísar er Per S. Lund, sonur Nóa. b) Viðar Másson, f. 18. júní 1974, k. Sigurlaug Jóna Hannesdóttir, dætur Sigurlín og Sólveig. c) Héðinn, f. 20. júní 1981. Móðir Guðbjörg Pálsdóttir. K. Susanne Lilja Buchardt, dætur Elín og Astrid. d) Þórður, f. 30. desember 1989. e) Sigríður Lóa, f. 13. mars 1993. Uppeldissonur: f) Róbert Logi Benediktsson, f. 31. mars 1973. Dóttir Rebekka Ósk. Fósturbörn Björns: g) Vaka Antonsdóttir, f. 1. febrúar 1978, m. Björn Lindberg, dætur Ása, Saga og Hulda. h) Sigurður Þórðarson, f. 11. janúar 1974, börn Alvin og Blædís.

3) Sigurður Þengill, f. 6. ágúst 1956, k. Anna Lísa Sigurjónsdóttir, f. 30. mars 1958. Börn: a) Þórður Björn, f. 29. desember 1976, k. Aðalheiður Guðjónsdóttir, börn Þula Katrín og Esja Sigurdís, móðir Helga Dís Sigurðardóttir, Benedikt og María Rósalind, faðir Richard Fazakerley og Pétur Steinn. b) Sveinlaug, f. 6. janúar 1982, m. Stefán Þór Bjarnason, synir Bjarni Dagur og Bragi Leó, móðir Birna Ásgeirsdóttir.

4) Anna Sigríður, f. 3. febrúar 1964, m. Gunnar Þorsteinsson, f. 13. september 1964. Börn Önnu og Magnúsar Guðlaugssonar: a) Erla, f. 20. júní 1984, d. 24. júní 1984, b) Guðlaug Erla, f. 14. júní 1985, m. Sveinn Akerlie, dætur Erla María og Arna Katrín. c) Sigrún, f. 5. júlí 1989, m. Nicholas Herring, dóttir Freyja Sif. d) Þóra Kristín Hjaltested, f. 17. júní 1993, m. Karl Stefánsson. e) Lárus, f. 28. mars 1995, k. Emilía Helgadóttir. Dóttir Gunnars er Birgitta Jóna Fanndal, f. 27. desember 1984, börn Sandra Ýr, Róbert Snær, Indíana Rós og Ágúst Leó.

5) Ingveldur Lára, f. 5. september 1965, m. Jan Murtomaa, f. 12. ágúst 1965. Sonur Adam, f. 15. desember 1994, k. Dagný Lóa Kristjánsdóttir.

6) Ólafur Þórður, f. 24. desember 1967, k. Margrét Sigríður Sævarsdóttir, f. 13. júlí 1966. Börn: a) Sævar Orri, f. 22. október 1988. b) Anna Kristjana Hjaltested, f. 19. desember 1992, m. Björn Gunnarsson, börn Ólafía Arndís og Björn Orri.

7) Katrín Þ., f. 6. febrúar 1973, m. Peter Hjorth Olsen, f. 29. nóvember 1970. Börn: a) Baldur Sebastian, f. 17. apríl 2006. b) Gudrun Úlfhildur, f. 26. desember 2009.

Anna og Þórður tóku einnig að sér frændur sína Lárus, Halldór og Sigurstein Hjaltested, og Þorvald Geir Sveinsson, sem allir bjuggu hjá þeim um hríð.

Útför Önnu fór fram í kyrrþey. mbl.is/andlat

Hún er horfin yfir móðuna miklu, móðirin góða. Farin til fundar við elskaðan frumburðinn sinn. Eftir sitja lífsförunauturinn og við hin, afkomendur og ættingjar, venslafólk og vinir, og syrgjum og söknum, full af þakklæti fyrir samfylgdina og allt það sem þessi mikla kona var okkur.

Móðir mín, Anna Lárusdóttir Hjaltested, ólst upp í foreldrahúsum á Vatnsenda við Elliðavatn, í stórum systkinahópi, umvafin kærleik og gleðskap. Systkini mömmu voru henni afar mikilvæg alla tíð og samband þeirra náið. Hún var næstyngst, yngst var Ingveldur sem nú er ein eftirlifandi þeirra systkina.

Mamma átti ástríka foreldra sem hún dáði og tók sér til fyrirmyndar. Á Vatnsenda bjó einnig afabróðir hennar, Magnús, sem var henni skjól þegar lífið var hávært. Sem barn gekk hún í Austurbæjarskóla og Mýrarhúsaskóla. Það var ekki auðvelt fyrir heimakært barn. Mömmu leið best heima á Vatnsenda, í náttúrunni við vatnið sitt, að lesa í skýin með sína nánustu innan seilingar. Síðar eignaðist hún sitt eigið litla skjól við vatnið.

Mamma nam við Húsmæðraskólann í Reykjavík þegar þau pabbi voru að hefja búskap. Þau eignuðust þrjá drengi á fyrstu fimm árunum. Fljótlega bættust fjórir frændur í hópinn, fóstursynirnir þeirra. Svo kom Sjana frænka, föðursystir mömmu, sem bjó hjá okkur árum saman. Seinna barnahollið bættist við á árunum 1964-1967 og örverpið 1973.

Þura frænka bjó hjá okkur um tíma og amma Sigga flutti líka reglulega inn. Mamma var alltaf með nóg pláss, í húsi og hjarta, fyrir þá sem á þurftu að halda.

Mamma lærði til sjúkraliða komin á fimmtugsaldur og orðin sjö barna móðir. Hún hóf starfsferil sinn á Borgarspítalanum en lengst af vann hún á sjúkrahúsi SÁÁ á Vogi. Foreldrar mínir hófu búskap í Vogahverfinu í Reykjavík og bjuggu þar nánast samfleytt í hálfa öld, þar af í rúma þrjá áratugi á Langholtsvegi 179. Nokkrum árum eftir aldamót, þegar bæði voru sest í helgan stein, fluttu þau í Klapparhlíð 3 í Mosfellsbæ. Síðustu þrjú árin bjó mamma á hjúkrunarheimilinu Hömrum, þar sem hún naut einstakrar umönnunar og átti gott heimili. Fjölskyldan er þakklát starfsfólkinu á Hömrum fyrir hina miklu góðvild og alúð sem mömmu hefur verið sýnd þar.

Mamma var listræn og listhneigð. Hún spilaði á píanó eins og engill og tónlist var stór hluti af uppeldi okkar. Óperur og bókmenntir voru hennar helsta skemmtun sem hún naut með fulltingi pabba fram á síðasta dag, en hann heimsótti hana daglega á Hamra og las fyrir hana og spilaði eftirlætisverkin. Ástarsamband þeirra, sem hófst fyrir um sjö áratugum, er fegursta minningin um mömmu.

Minningarnar eru margar og dýrmætar og mamma mun fylgja mér alla tíð í huga mér og hegðun. Hún hafði sterkar skoðanir og lá ekki á þeim, var umhugað um menn og málefni og mátti ekkert aumt sjá. Hún hafði stærsta faðminn og hlýjasta hjartað, var móðirin og amman sem hlustaði, huggaði og siðaði og leiddi okkur áfram á lífsins braut. Hún krafðist þess að við höguðum okkur eins og manneskjur en fyrirgaf öll okkar feilspor. Hún skildi allt og umbar allt. Hún var kærleikurinn holdi klæddur.

Elsku pabbi minn og fjölskyldan öll sem minnist og saknar svo sárt. Það er huggun harmi gegn að þrautagöngu mömmu er lokið. Nú liggur hún í mjúkum mosa með Magga bróður hinum megin regnbogans og les fyrir hann sögur úr skýjunum.

Ingveldur Lára Þórðardóttir. mbl.is/andlat