Spilasalur Björn segir spilafíkn vera alvarlegustu fíkn sem hann hafi kynnst og er þeirrar skoðunar að takmarka eigi aðgengi að spilakössum.
Spilasalur Björn segir spilafíkn vera alvarlegustu fíkn sem hann hafi kynnst og er þeirrar skoðunar að takmarka eigi aðgengi að spilakössum. — Morgunblaðið/Eggert
Anna Lilja Þórisdóttir annalilja@mbl.is „Spilafíkn er alvarlegasta fíkn sem ég hef kynnst.“ Þetta segir Björn, rúmlega fertugur karlmaður, sem hefur glímt við spilafíkn í yfir 20 ár.

Anna Lilja Þórisdóttir

annalilja@mbl.is

„Spilafíkn er alvarlegasta fíkn sem ég hef kynnst.“ Þetta segir Björn, rúmlega fertugur karlmaður, sem hefur glímt við spilafíkn í yfir 20 ár. Hann hefur reynt ýmis meðferðarúrræði, ýmist vegna hennar einnar og sér, eða vegna áfengis- og fíkniefnaneyslu og segir spilafíknina vera þá fíkn sem erfiðast sé að vinna með.

Hann heitir reyndar ekki Björn, en vill ekki koma fram undir nafni af tillitssemi við fjölskyldu sína, en einnig vegna þess að hann er með eigin atvinnustarfsemi og óttast að það muni koma niður á viðskiptum hans.

Björn segist fyrst hafa áttað sig á því árið 1997 að það, sem hann taldi vera saklausa skemmtun, hafi verið alvarlegur vandi. Hann fór þá í meðferð hjá SÁÁ fyrir fólk með spilafíkn og fannst að hann ætti að geta stjórnað spilahegðun sinni eftir það.

Það gekk ekki eftir og síðan þá hefur hann verið virkur spilafíkill, með hléum. Hann hefur spilað á netinu en aðallega í spilakössum, eins og t.d. í Háspennu og í spilakössum í söluturnum. „Það átta sig kannski ekki allir á því, en það er hægt að spila ansi djarft í þeim og ég hef nokkrum sinnum unnið meira en 300.000 á kvöldi. En ég hef miklu oftar tapað jafnmiklu eða meiru á einu kvöldi.“

Spurður hvernig hægt sé að vinna og tapa svona miklum peningum þar sem eingöngu er hægt að spila fyrir í mesta lagi 250 krónur í hvert skipti segir hann það lítið mál. „Það er hægt að ýta á takkann á um tveggja sekúndna fresti. Ef það kemur enginn vinningur sem tefur fyrir, þá fara 7.500 krónur á mínútu. Á klukkutíma er það hátt í hálf milljón.“

Foreldrar skammta honum fé

Núna er hann kominn í þá stöðu í lífinu að hann hefur afhent foreldrum sínum umráð yfir öllum sínum fjármunum og eignum. „Ég er 43 ára og foreldrar mínir skammta mér peninga og ég þarf að gera þeim grein fyrir í hvað þeir fara.

– Veistu hvað þú hefur spilað fyrir mikla peninga á þessum tíma?

„Það gætu verið 50-100 milljónir, kannski minna – kannski meira. Ég gæti örugglega fundið út nákvæmari upphæð, en ég hreinlega vil það ekki.“ Hans skoðun er að takmarka eigi aðgengi að spilakössunum.

„Ég er ekki á því að það eigi að banna spilakassa, það er engin ástæða til þess frekar en að banna margt annað sem sumir verða háðir. En þeir ættu að vera á afmörkuðum stöðum og undir eftirliti.“

*Lengri útgáfa af viðtalinu við Björn og umfjöllun um spilafíkn frá ýmsum sjónarhornum er á mbl.is.