— Morgunblaðið/Árni Sæberg
Klarínettuleikarinn Dimitri Þór Ashkenazy leikur einleik á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Eldborg Hörpu í kvöld kl. 19.30 undir stjórn Evu Ollikainen, verðandi aðalhljómsveitarstjóra sveitarinnar.

Klarínettuleikarinn Dimitri Þór Ashkenazy leikur einleik á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Eldborg Hörpu í kvöld kl. 19.30 undir stjórn Evu Ollikainen, verðandi aðalhljómsveitarstjóra sveitarinnar. Á efnisskránni eru Klarínettkonsert eftir Jean Françaix, Sinfónía í D-dúr eftir Joseph Bologne og Lemminkäinen-svíta eftir Jean Sibelius. Að vanda verða tónleikarnir sendir út í beinni útsendingu á Rás 1.

„Ég hef sjaldan heyrt eins vel spilað á klarínettu,“ sagði gagnrýnandi Morgunblaðins um tónleika Dimitris á Íslandi fyrir rúmum áratug. Samkvæmt upplýsingum frá hljómsveitinni ólst Dimitri upp á Íslandi til níu ára aldurs og hefur leikið með sinfóníuhljómsveitum og í heimsfrægum tónleikasölum víða um heim, m.a. á Proms-tónlistarhátíðinni í Royal Albert Hall. Klarínettkonsert kvöldsins er sjaldheyrður, en Françaix var „kunnur fyrir leikandi létta og skemmtilega tónlist,“ eins og segir í tilkynningu. Þar kemur fram að tónlist Bologne sé „leikandi létt, í ætt við Haydn og Mozart“ og einnig að Lemminkäinen-svítan sé „lykilverk á ferli Sibeliusar, glæsilegt hljómsveitarverk sem raunar átti upphaflega að verða ópera.“