[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Vesturbænum Jóhann Ingi Hafþórsson johanningi@mbl.is KR átti ekki í miklum erfiðleikum með að vinna Breiðablik er liðin mættust í 9. umferð Dominos-deildar kvenna í körfubolta í gærkvöldi í DHL-höllinni.

Í Vesturbænum

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

KR átti ekki í miklum erfiðleikum með að vinna Breiðablik er liðin mættust í 9. umferð Dominos-deildar kvenna í körfubolta í gærkvöldi í DHL-höllinni. KR var 30 stigum yfir hálfleik og gat liðið leyft sér að slaka á í seinni hálfleik, án þess að forskotinu yrði ógnað. Lokatölur urðu 90:60 og sýndi leikurinn muninn á liðunum í efri hlutanum og þeim neðri. KR tapaði fyrir Keflavík í síðustu umferð á meðan Breiðablik hafði unnið tvo í röð.

Bjuggust því einhverjir við spennandi leik, en sú varð ekki raunin. KR spilaði mjög vel var unun að horfa á baráttuna innan liðsins. KR-ingar, sem voru særðir eftir leikinn gegn Keflavík, tóku 52 fráköst gegn 36 hjá Breiðabliki. KR-ingar voru því mikið betri og mikið grimmari.

Danielle Rodriguez, Hildur Björg Kjartansdóttir og Sanja Orazovic spiluðu allar mjög vel að vanda og leikmenn eins og Margrét Kara Sturludóttir og Alexandra Eva Sverrisdóttir komu sterkar af bekknum. Hvergi var veikan blett að finna hjá KR. Þórdís Jóna Kristjánsdóttir hefur spilað vel með Breiðabliki í vetur og hún átti enn og aftur góðan leik.

Örlög Breiðabliks ráðast ekki á leikjum við lið eins og KR, heldur þarf liðið að vinna liðin í kringum sig. Að sama skapi er um algjöran skyldusigur hjá KR að ræða í leikjum sem þessum. Það þarf hins vegar að spila leikinn og KR-ingar gerðu það vel.

Framlenging og æsispenna

Haukar náðu mest 14 stiga forskoti gegn Keflavík á útivelli, en heimakonur neituðu að gefast upp og náðu að jafna leikinn og knýja fram framlengingu. Þar voru Keflavíkingar betri og sigldu í höfn 78:70-sigri. Katla Rún Garðarsdóttir átti virkilega góðan leik fyrir Keflavík og skoraði 22 stig og Emelía Ósk Gunnarsdóttir gerði 20 stig.

Valur er enn með fullt hús stiga eftir þægilegan 93:70-útisigur á Snæfelli. Valskonur voru með 55:34-forystu í hálfleik og var seinni hálfleikurinn formsatriði. Það segir allt sem segja þarf um styrkleika Valsliðsins að Helena Sverrisdóttir byrjaði á bekknum og lék aðeins í tæpar 15 mínútur. Kiana Johnson skoraði 28 stig fyrir Val.

Skallagrímur hafði betur gegn Grindavík, 73:63. Borgnesingar hafa komið skemmtilega á óvart í vetur var sigurinn sá fjórði í síðustu fimm leikjum. Keira Robinson skoraði 29 stig fyrir Skallagrím sem er í þriðja sæti með tólf stig.

KR – BREIÐABLIK 90:60

DHL-höllin, Dominos-deild kvenna, miðvikudag 27. nóvember 2019.

Gangur leiksins : 6:5, 13:7, 24:10, 28:15 , 40:17, 42:22, 50:23, 54:24 , 61:28, 65:32, 70:37, 76:47 , 78:47, 86:52, 87:55, 90:60 .

KR : Danielle Victoria Rodriguez 21/7 stoðsendingar, Hildur Björg Kjartansdóttir 21/6 fráköst, Sanja Orazovic 17/4 fráköst, Margrét Kara Sturludóttir 9/13 fráköst, Alexandra Eva Sverrisdóttir 5/5 fráköst, Sóllilja Bjarnadóttir 5/4 fráköst, Þorbjörg Andrea Friðriksdóttir 5, Perla Jóhannsdóttir 3, Ástrós Lena Ægisdóttir 2/4 fráköst, Margrét Blöndal 1, Þóra Birna Ingvarsdóttir 1.

Fráköst : 30 í vörn, 15 í sókn.

Breiðablik : Danni L Williams 14/5 fráköst, Þórdís Jóna Kristjánsdóttir 12, Paula Anna Tarnachowicz 9/6 fráköst, Telma Lind Ásgeirsdóttir 8, Björk Gunnarsdóttir 6, Bryndís Hanna Hreinsdóttir 6, Melkorka Sól Pétursdóttir 2, Fanney Lind G. Thomas 2/4 fráköst, Hafrún Erna Haraldsdóttir 1.

Fráköst : 20 í vörn, 8 í sókn.