Undirbúningur jólanna er þegar hafinn. Sigmundur Benediktsson birtir á Leir og segir ort yfir laufabrauðsgerð: Enn er listin ekki dauð, ei þó kennd í skólum. Lipurt skorið laufabrauð leggur grunn að jólum.

Undirbúningur jólanna er þegar hafinn. Sigmundur Benediktsson birtir á Leir og segir ort yfir laufabrauðsgerð:

Enn er listin ekki dauð,

ei þó kennd í skólum.

Lipurt skorið laufabrauð

leggur grunn að jólum.

Friðrik Steingrímsson sendi kveðju að norðan:

Fyrrum var hjá vorri þjóð

svo veðra gleymdist nauðið,

í skammdeginu skemmtun góð

að skera' út laufabrauðið.

Davíð Hjálmar í Davíðshaga bætti við:

Fólk var svangt og flestu kalt,

– föl er vetrar skíma –

laufabrauðið ást því allt

upp á klukkutíma.

Nú er laufabrauðaskurður norðlenskur siður en ekki sunnlenskur, – eins og glögglega má heyra á Ólafi Stefánssyni:

Í skammdeginu skemmta sér

skuggabaldrar norðan heiða.

Einn að steikja,annar sker,

etur þriðji, sér til leiða.

Sigmundur Benediktsson yrkir og kallar „Morgunvísu“:

Morgunbirtan mild og skær

merlar himinskinnar.

Sviphýr dagur sæti fær,

sonur næturinnar.

Ingólfur Ómar heldur áfram:

Roðar græði grund og hlíð

glitrar bárukögur,

Morgunsunna björt og blíð

brosir undurfögur.

Fía á Sandi gat ekki orða bundist: „„Bannsettur nútíminn,“ sagði föðurbróðir minn“:

Þó ljómi svell og lindin slétt

og ljósbrot skíni á vikin,

er á skjánum enn ný frétt

um ágirnd, lygi og svikin.

Margir skúrkar mútur fá

mörg er ójöfn glíma.

Þessi vísa ort er á

ömurlegum tíma.

Og Ármann Þorgrímsson talar um að gamlar myndir komi upp í hugann:

Núna þegar nálgast jól

næturmyrkrið völdin tekur

hratt á lofti lækkar sól

ljúfa bernsku mynd það vekur.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is