Helga Sólveig Jensdóttir fæddist í Stærri-Árskógi 7. febrúar 1926. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Lögmannshlíð Akureyri 17. nóvember 2019.

Foreldrar Helgu Sólveigar voru Jens Óli Kristjánsson, f. 23. mars 1881, d. 18. október 1951, og Signý Jónasdóttir, f. 3. ágúst 1890, d. 16. febrúar 1975. Systkini Helgu Sólveigar voru Sigrún, f. 7. febrúar 1915, d. 26. apríl 1993, stúlka (fædd andvana) 1923, og Kristján Halldór, f. 1. janúar 1930, d. 30. október 1977.

Hinn 18. október 1952 giftist Helga Sólveig Sigurði Jóhanni Stefánssyni frá Efstalandi í Öxnadal, f. 27. nóvember 1926, d. 26. ágúst 2013. Foreldrar hans voru Stefán Guðmundsson, f. 15. apríl 1886, d. 5. ágúst 1969, og Anna Margrét Kristjánsdóttir, f. 13. ágúst 1880, d. 4. júlí 1948. Börn Helgu Sólveigar og Sigurðar Jóhanns eru: Anna Lilja, f. 14. janúar 1952, d. 16. desember 2014, maki Erlingur Tryggvason, f. 23. febrúar 1953, Jens Sigþór, f. 14. febrúar 1953, kærasta Ingibjörg H. Kristjánsdóttir, f. 7. október 1961, Margrét, f. 23. júlí 1954, maki Hannes R. Reynisson, f. 11. janúar 1953, Stefán Júlíus, f. 11. ágúst 1958, maki Guðrún Jóna Karlsdóttir, f. 9. október 1959, Signý, f. 16. maí 1960, maki Sigþór Harðarson, f. 28. október 1956, Jónas Ingi, f. 15. nóvember 1963, maki Berglind Sigurpálsdóttir, f. 15. ágúst 1968, Brynja, f. 10. febrúar 1966, maki Jón M. Jónsson, f. 24. janúar 1963. Barnabörnin eru 19 og barnabarnabörnin 24.

Helga Sólveig ólst upp hjá foreldrum sínum í Stærri-Árskógi við almenn bústörf. Hún starfaði meðal annars við símstöðina á Krossum og á Hjalteyri og einnig starfaði hún einn vetur á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Helga Sólveig og Sigurður Jóhann tóku við búi af foreldrum hennar 1953. Hún undi hag sínum vel í sveitinni, var virk í félagsstörfum, var m.a. í kvenfélaginu Hvöt og kirkjukórnum. Stærri-Árskógskirkja var henni mikils virði og hugsaði hún vel um hana. Árið 2000 fluttu þau hjónin til Akureyrar.

Útför Helgu Sólveigar fer fram frá Stærri-Árskógskirkju í dag, 28. nóvember 2019, klukkan 14.

Elsku amma, mikið verður nú skrítið að koma til Akureyrar og ekki koma í heimsókn til þín. Það var oftast mitt fyrsta verk þegar við komum norður að heimsækja þig og afa þegar hann lifði, enda ávallt verið mikil ömmu- og afastelpa.

Hugurinn reikar aftur í tímann og ótal minningar úr æsku koma upp. Oftar en ekki kom ég með flugi, stundum ein og stundum mamma með og það fyrsta sem var gert var að fara á KEA og fá sér að borða áður en haldið var út í sveit. Í sveitinni var gaman að vera sem krakki hjá ykkur afa, þar er alger paradís fyrir börn að vera og blessunarlega erum við svo heppin að fá að koma þangað á hverju sumri og börnin mín fá tækifæri til að upplifa það sem ég upplifði sem barn og meira til, því þau elska sveitina jafn mikið og ég og bíða ávallt spennt eftir því að koma norður í sveitina, og mikið er ég þakklát fyrir það að geta komið á þennan yndislega stað.

Amma, ég man ennþá hvar rjómakúlurnar voru geymdar í efri skápnum í sjónvarpsstofunni, þær fékk ég stundum við góð tækifæri og bleiku vínarbrauðin og happaþrennurúnturinn með afa niður á Hauganes og þú alltaf jafn hissa og slóst á læri þér þegar við afi komum heim með bunka af happaþrennum og skófum í lengri tíma við eldhúsborðið. Það eru litlu hlutirnir sem koma upp í huga mér sem eru mér svo kærir en þeir eru efni í lengri texta heldur en er við hæfi hér. Elsku amma, þú varst alltaf svo stolt af öllu fólkinu þínu og varst dugleg að segja okkur það. Þú varst ánægð með samheldnina og glöð varstu með litla ættarmótið sem við höfum haldið síðustu ár í sveitinni.

Ég lofa því elsku amma að gera mitt besta í að halda í þessa hittinga því þeir gefa okkur öllum svo mikið, því betri stórfjölskyldu er ekki hægt að hugsa sér og er það þér að þakka.

Elsku amma, síðustu ár hafa ekki verið þér auðveld, hvíl í friði, nú trúi ég því að þú sért sameinuð mömmu og afa og það hlýtur að hafa verið einhver veislan á afmælisdegi afa í gær.

Signir sól, sérhvern hól.

Sveitin klæðist geislakjól.

Blómin blíð, björt og fríð

blika fjalls í hlíð.

Nú er fagurt flest í dag.

fuglar syngja gleðibrag.

Sumarljóð, sæl og rjóð,

syngja börnin góð.

(Gunnar M. Magnússon)

Takk fyrir allt, elsku amma, þangað til síðar,

þín

Sólveig Erlingsdóttir.

Þar sem ég næ ekki að komast í tæka tíð til að vera við útför þína, elsku amma, langar mig að senda þér nokkrar línur. Það er nú margt hægt að segja um þessa merku konu hana ömmu mína og margar góðar minningar sem koma upp í hugann núna þegar komið er að því að kveðja ömmu í sveitinni.

Ég var svo lánsamur að fá að koma til þín og afa mjög ungur strákur og dvelja hjá ykkur á sumrin í sveitinni. Minningar frá þessum árum eru ógleymanlegar enda töluðum við oft saman um dagana í sveitinni og rifjuðum upp skemmtilegar minningar og hlógum mikið þegar við hittumst og minnist ég sérstaklega samverustundanna með þér í eldhúsinu í Stærri-Árskógi á kvöldin; þar töluðum við mikið saman um lífið og tilveruna. Svo þegar ég fluttist suður og fór að starfa við að keyra rútu hringduð þið afi oft í mig, sérstaklega ef það var vont veður, og báðuð mig að fara varlega enda vildir þú fá að fylgjast með mér alla tíð. Síðast þegar ég kom til þín vorum við að skoða myndir sem þú hafðir á hillunni hjá þér, þá sagðir þú við mig hvað þú værir rík, ættir svo mikið af góðum börnum og barnabörnum sem öll hefðu komist til manns og þú gætir ekki beðið um meira.

Ég gæti skrifað heila bók til minningar um þig, elsku amma. Ég þakka þér fyrir allar góðu stundirnar sem við eyddum saman. Með tár í augum kveð ég með þessum sálmi:

Jafnvel þótt ég fari um dimman dal,

óttast ég ekkert illt,

því að þú ert hjá mér,

sproti þinn og stafur hugga mig.

(23. Davíðssálmur)

Hvíldu í friði, elsku amma.

Þinn

Reynir.