Kristín Jóhanna Eiríksdóttir (Dídí) fæddist 31. ágúst 1927 í Reykjavík. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Sóltúni 20. nóvember 2019.

Foreldrar hennar voru Friðgerður Sigurðardóttir, f. 25. mars 1900, d. 20. mars 1960 og Eiríkur Magnússon, f. 4. júlí 1899, d. 23. september 1981. Kristín var elst af fjórum systkinum en þau eru: Leifur, f. 31.8. 1929, d. 18.8. 2010, Sigurður Friðgeir, f. 17.6. 1931, d. 30.3. 2001, Anna Soffía, f. 13.2. 1942. Kristín giftist 20.8. 1951 Jens Ríkharði Pálssyni, f. 18.1. 1924 frá Stóru-Völlum í Landsveit, d. 11. desember 2015. Börn þeirra eru:

1) Sigríður Erla, f. 17.11. 1947, d. 22.3. 1980. Börn hennar eru: a) Jens Reynir, f. 28.12. 1966, barnsfaðir James Douglas Kane. Börn hans eru Ívar Örn, Katrín Erla og Kári Freyr, barnsmóðir Guðríður Alda Guðmundsdóttir. b) Orri Freyr, f. 4.1. 1974, barnsfaðir Indriði Jónsson. 2) Gerður, f. 28.11. 1948. Eiginmaður Böðvar G. Baldursson, látinn. Börn þeirra eru: a) Grétar, f. 21.9. 1968. Eiginkona Sigrún Hrefna Sverrisdóttir. Börn þeirra eru Fannar, f. 5.3. 2006 og Lilja, f. 5.10. 2007. b) Signý Marta, f. 29.7. 1970. Eiginmaður Páll Gunnar Pálsson. Börn þeirra eru Oliver, f. 23.8. 1990, eiginkona Arna Björk Óðinsdóttir, barn þeirra Mikael Freyr, barnsfaðir Ómar Ingi Friðleifsson. Arnór, f. 23.6. 1997, barnsfaðir Hörður Theódórsson. Börn Signýjar Mörtu og Páls Gunnars eru Böðvar Bragi, f. 28.5. 2003 og Helga Signý, f.22.6. 2006. Sigurður Páll, f. 24.3. 1992, stjúpsonur Signýjar, sonur Páls Gunnars, c) Haukur, f. 30.4. 1972. Eiginkona Siriporn Kaitawai. Barn þeirra er Anna Kristín, f. 27.3. 2016.

3) Páll Reynir, f. 27.9. 1955, d. 19.10. 2001. 4) Anna Birna, f. 17.12. 1958. Eiginmaður Stefán Svanberg Gunnarsson. Börn þeirra eru: a) Gunnar Páll, f. 27.6. 1980. Eiginkona Hrefna H. Guðlaugardóttir, börn þeirra: Stefán Ari, f. 27.11. 2015 og Helgi Ragnar, f. 30.8. 2017. b) Samúel Orri, f. 29.11. 1982. Eiginkona Jóhanna Fylkisdóttir. Börn þeirra eru: Grétar Smári, f. 23.10. 2006, Heimir Logi, f. 4.1. 2010 og Vigdís Birna, f. 1.3. 2012. c) Stefán Birnir, f. 21.10. 1991. 5) Eiríkur Bragi, f. 31.7. 1960. Eiginkona Aðalheiður Þorsteinsdóttir. Börn þeirra eru: a) Óskar Andri Víðisson, f. 15.4. 1983 stjúpsonur, sonur Aðalheiðar. Eiginkona Inga Rúna Guðjónsdóttir. Börn þeirra eru Þráinn Freyr, f. 16.7. 2014 og Heiðdís Arna, f. 22.12. 2016. b) Kristín Alísa, f. 4.3. 1990. Eiginmaður Andri Freyr Þorsteinsson. c) Ásgeir Þór, f. 24.11. 1993.

Kristín var húsmóðir með stórt heimili og vann samhliða því m.a. í sjoppum og á skemmtistöðum bæjarins. Síðustu starfsárin starfaði hún sem stuðningsfulltrúi í Hlíðaskóla þar sem hún aðstoðaði fjölfötluð börn. Kristín starfaði með kvenfélagi Bústaðasóknar og BSR og hverfafélagi Sjálfstæðisflokksins.

Útför hennar fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 28. nóvember 2019, klukkan 15.

Mamma var lengst af með stórt heimili. Heimili sem stóð öllum opið, fyrst í Sigtúni og síðan í yfir sextíu ár á Sogavegi.

Hún var besta mamma sem hægt er að hugsa sér, alltaf svo hlý, góð og hvetjandi. Hún var glæsileg og glaðlynd og óspör á brosið sem kallaði það besta fram í fólki.

Mamma og pabbi voru náttúrubörn og ferðuðust mikið um landið með okkur systkinin. Einnig ferðuðust þau víða erlendis og þá gjarnan í vinahópi, sem í voru vinnufélagar á BSR og eiginkonur þeirra.

Þau komu sér upp sumarparadís í landi Stóru-Valla í Landsveit og nutu lífsins þar síðustu áratugi með fjölskyldunni við útivist og trjárækt. Í sveitinni var einnig líflegt og gefandi samfélag stórfjölskyldu pabba, þar sem mörg systkina hans eru þar með sumarhús. Mamma var ávallt að rækta og huga að, bæði blómum og öðrum gróðri og ekki síst fólkinu í kringum sig.

Mamma og pabbi voru mikið dansfólk og voru lengi í Dansskóla Hermanns Ragnars. Minnisstæðar eru flottu veislurnar á Sogaveginum, enda mamma afbragðskokkur og þau góð heim að sækja.

Dugnaður og áræði einkenndi mömmu, dæmi um það var þegar pabbi þurfti að fara í mjaðmaraðgerð, þá gerði hún sér lítið fyrir og tók meiraprófið og leysti hann af í leigubílaakstrinum meðan hann var að jafna sig.

Á þeim tíma voru fáar konur að keyra leigubíl. Við mamma fórum tvær saman í eftirminnilega ferð til Vancouver í Kanada að heimsækja Önnu systur hennar í kringum síðustu aldamót.

Þar hittum við líka Ritu mágkonu hennar sem var komin frá Kaliforníu.

Þetta var fagnaðarfundur, en mjög hlýtt var á milli mömmu og þeirra.

Síðustu starfsárin starfaði mamma sem stuðningsfulltrúi í Hlíðaskóla þar sem hún aðstoðaði fjölfötluð börn. Hún hafði einstakt lag á börnum og hafði trú á getu þeirra til að læra og ná árangri í verkefnum sínum og lífinu.

Hún var næm fyrir fólki sem átti við bágindi að stríða og gaf þeim sérstaklega mikla umhyggju og stuðning.

Mamma tók því sem bar að með æðruleysi og jafnaðargeði. Hún var ævinlega þakklát fyrir lífið og það sem það gaf henni og talaði mikið um það hvað það væri gefandi að sjá hvað afkomendum hennar vegnaði vel í lífinu og hvað hún ætti fallegt og gott fólk að.

Síðastliðið eitt og hálft ár dvaldi hún í Sóltúni þar sem hún naut einstakrar þjónustu og umhyggju frá starfsfólkinu.

Anna Birna.