Systir Agnes og systir Melkorka í Karmelklaustrinu í Hafnarfirði.
Systir Agnes og systir Melkorka í Karmelklaustrinu í Hafnarfirði. — Morgunblaðið/Hari
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Systir Agnes er nunna í Karmelklaustri í Hafnarfirði sem búið hefur á Íslandi frá því um miðbik tíunda áratugarins. Hún segir bænina samtal við Jesú og mælir með bók í pakka fyrir jólin. Elínrós Líndal | elinros@mbl.is

Systir Agnes ólst upp hjá fjölskyldu sinni í Póllandi og lifði frekar venjulegu lífi að eigin sögn. Í menntaskóla heillaðist hún af líffræði og hóf hún nám í háskóla í þeim fræðum eftir að hafa lokið stúdentsprófi.

„Ég valdi vistfræði sem sérgrein, þar sem mig langaði að starfa við vernd á umhverfinu okkar. Í framtíðarplönum mínum langaði mig síðan að eignast fjöskyldu; maka og börn.“

Systir Agnes var í háskóla í Kraká og hitti þar fólk sem kom saman að lesa og hugleiða upp úr Biblíunni.

„Við fórum einnig saman í alls konar ferðir og þessi samvera hafði mikil áhrif á mig. Í gegnum þetta kynntist ég Jesú, eins og talað er um hann í Biblíunni. Ég heillaðist af því að lesa um að Guð væri kærleikurinn og reyndi ég að lifa eftir kenningum hans í daglegu lífi. Eins deildi ég áfram þekkingu minni um gleði, frið og hamingju sem eru að mínu mati órjúfanleg heild með náinni vináttu við Jesú í hversdagslegu lífi.“

Þrátt fyrir þetta langaði systur Agnesi áfram að eignast hefðbundið líf með fjölskyldu. Hún segir að Jesús hafi haft annað á prjónunum fyrir hana.

Var spurð hvort hún vildi verða nunna

Hún lýsir tildrögum þess að hún er nú í klaustri sem eins konar kalli.

„Hann kallaði mig í Karmel. Ég upplifði þetta á andlegan hátt svipað og Jesús kallaði lærisveina í guðspjalli. Hann spurði mig hvort ég vildi vera Karmelnunna fyrir hann. Ég var frjáls að svara já eða nei og ég vissi að ef ég segði já þyrfti ég að neita mér um margt. En ég gat ekki sagt nei við kærleika hans.“

Systir Agnes gerðist nunna í Karmelklaustri í Póllandi. Eftir tvö og hálft ár í klaustrinu kom fyrirspurn þess eðlis hvort nunnurnar í klaustrinu gætu farið til Íslands að gæða klaustrið í Hafnarfirði meira lífi.

„Ég var viss um að ég átti að fara. Ég þurfti að skilja við föðurland mitt, fjölskylduna mína og fara í ókunnugt land og kynnast nýrri þjóð og menningu.“

Systir Agnes segir Jesús hafa blásið í hjarta þeirra sem hingað komu kærleika til lands og þjóðar.

„Ég tel að það sé merki um umhyggju og ást Jesú til Íslands að hann kallar ungar konur með hjarta fullt af brennandi kærleika og þær séu tilbúnar að loka sig í klaustri til þess að biðja og lifa eftir kærleikskenningu hans fyrir land okkar.“

Biðja fyrir öllum Íslendingum

Systir Agnes minnist þess að á þessu ári verði 80 ára afmæli klaustursins í Hafnarfirði og nú séu 35 ár frá komu pólsku Karlmelnunnanna. „Byggðasafn Hafnarfjarðar opnaði sýningu um sögu Karmelklausturs frá 1939 til dagsins í dag. Líf okkar er byggt á bæninni, íhugun og samtali og vináttu við Jesú í daglegu lífi. Við trúum að með þessari samvinnu við Jesú vinnum við í þágu hvers íbúa landsins.

Hvernig fólk leitar til ykkar?

„Fólk sendir okkur bænarefni með tölvupósti, hringir í okkur, kemur í kapelluna og klaustrið að biðja okkur um fyrirbænir í ýmsum bænarefnum. Margir biðja um bænir fyrir betri heilsu og eru með bænarefni fyrir sína nánustu sem eru að upplifa áhyggjur og sorg.

Stundum kemur fólk í kapelluna okkar til að segja Jesú frá því sem því liggur á hjarta. Eins kemur fólk líka í messu sem er á hverjum morgni klukkan átta. Fólk kemur líka til að tala við okkur um ýmis mál – meðal annars bænir og andlegt líf sitt.“

Börnin elska skreytingar þeirra fyrir jólin

Þegar kemur að jólunum er eftirvænting hjá unga fólkinu að heimsækja kapelluna, þar sem nunnurnar eru þekktar fyrir að búa til fallega veröld, skreytta ljósum og Jesú í jötunni. Uppsetningin minnir á ævintýri í kvikmynd, þar sem fullt af smáum og stórum hlutum fær sinn stað í þessu listaverki þeirra.

„Jólin er hátíð fæðingar Frelsarans. Við undirbúum okkur á aðventutíma. Reisum kapellu með Jesúbarninu í jötu, Maríu mey, Jósef, hirð og vitringunum eins og fjallað er um sögu fæðingar Jesú í guðspjöllunum.

Um jólin syngjum við mikið við þessa jötu jólalög og hugleiðum um kærleika Guðs, sem gerðist maður okkar vegna, til að vera Immanúel – eða Guð með oss – nálægur okkur, sá sem býr í hjarta hvers okkar. Guð sjálfur er stærsta gjöfin.“ Systir Agnes minnir á að jólin séu tími fyrir gjafir, samveru og góðan mat.

Besta jólagjöfin bók um Teresu

Hver er besta jólagjöfin að þínu mati í dag?

„Ég get mælt með bókinni Sögu sálar, sem er byggð á skrifum Teresu Martin í Karmel í Liesieux. Hún skrifaði æskuminningar sínar að beiðni systra sinna. Bókin var fyrst gefin út ári eftir andlát hennar og voru fáir sem gerðu sér grein fyrir hvað bókin hafði að geyma.“

Systir Agnes segir bókina góða leið til að lesa sér til um andlegt líf og bendir á að hún hafi haft áhrif á milljónir manna víðsvegar um heiminn.

„Bókin er komin út á íslensku í þýðingu Sigurðar Stefáns Helgasonar, en hann tilheyrir leikmannareglu Karmel. Hann þýddi bókina úr frönsku.“

Systir Agnes segir bókina ekki einungis fjalla um ýmsa atburði í lífi Teresu og fjölskyldu hennar, heldur einnig andlegt líf hennar og köllun hennar til að lifa í kærleika á jörðu sem og hlutverk hennar eftir dauðann.

„Margir einstaklingar sem lesið hafa bókina hafa fundið nýja von í lífinu og eignast með Teresu himneska vinkonu. Hægt er að nálgast þessa bók í klaustrinu okkar.“

Systir Agnes segir bókina fyrir alls konar fólk.

„Þá sem vilja stunda andlegt líf, guðfræðinga, páfa, börn, trúleysingja, fólk í fangelsi og í raun alla.“

Sumir upplifa of mikið í lífinu

Að mati systur Agnesar eru sumir sem upplifa hluti í lífinu sem enginn ætti að þurfa að fara í gegnum. Að missa barnið sitt er eitt af því.

„Það skilur stórt ör eftir á sálinni.“

Hvernig getur bók sem þessi aðstoðað fólk í gegnum erfiða reynslu?

„Fjölskylda Teresu upplifði sams konar sorg og gleði og flestar fjölskyldur. Fjögur af börnum þeirra dóu á barnsaldri. Móðir Teresu dó úr krabbameini þegar Teresa var rúmlega fjögurra ára gömul. Teresa varð fyrir einelti í skóla, hún veiktist alvarlega þegar hún var níu ára, pabbi hennar veiktist alvarlega á efri árum sem var mikil sorg líka fyrir Teresu og systur hennar.

Teresa lýsir því hvernig hún vann úr þessum áföllum og varð eins og margir segja brosandi heilög og einskonar regn náðar.“

Hvað geturðu kennt okkur tengt bæninni?

„Bænin er samtal við Jesú. Við getum talað við hann eins og ég tala nú við þig og sagt honum frá öllu. Við getum verið viss um að hann elskar og svarar með kærleika og að hann hlusti á hverja einustu bæn. Teresa skrifaði að í hennar augum væri bænin þrá hjartans, einfalt augnaráð til himins, hróp þakklætis og ástar bæði í blíðu og stríðu. Eitthvað yfirnáttúrulega stórt sem stækkaði sál hennar og sameinaði hana Jesú.“

Höf.: Systir Agnes