Guðmundur Steinn Magnússon fæddist 2. ágúst 1983 í Reykjavík. Hann lést á Gjörgæsludeild LSH 14. nóvember 2019.

Foreldrar hans eru Magnús G. Gunnarsson, f. 1950, og Steinunn G. Ástráðsdóttir, f. 1950. Systkini: Jóhann Þór, f. 1968, hann á þrjú börn, og Þórdís Grímheiður, f. 1973, hún á tvö börn.

Guðmundur Steinn ólst upp í Seljahverfinu og gekk í Seljaskóla og Ölduselsskóla, þar eignaðist hann marga góða vini. Hann byrjaði ungur í karate en fór svo að spila handbolta, þar var ÍR hans félag. Eftir grunnskóla fór hann í Fjölbraut í Breiðholti en lauk ekki námi. Hann fór síðan út á vinnumarkaðinn í nokkur ár. Eftir það tók við skóli lífsins þar til yfir lauk.

Útförin hefur farið fram í kyrrþey.

Öllum mönnum er afmarkað tiltekið æviskeið og þegar því lýkur er unnt að leggja mat á mannslífið með nokkrum mælistikum. Fjöldi lífára er aðeins einn mælikvarði á æviskeið manns. Ævina má líka meta eftir öðrum mælikvörðum, s.s. þeirri gleði, hlýju og kærleika sem maðurinn veitir út frá sér til sinna nánustu og annarra. Nú þegar Guðmundur Steinn, góðvinur minn til rúmlega 30 ára, hefur verið kallaður héðan í ungum blóma lífsins leita minningarnar til áhyggjulausra daga þar sem líf okkar vinanna snérist um leikjatölvur, NBA, handbolta og bannaðar bíómyndir. Umhverfi Guðmundar mótaðist af hvatningu, öryggi og stolti. Sterk fjölskylda og þéttur vinahópur skópu umhverfi kærleika og umhyggju. Allt sem Guðmundur tók sér fyrir hendur í æsku gerði hann betur en aðrir, hann var bæði framúrskarandi námsmaður og handboltamaður. Skömmu fyrir síðustu aldamót urðu breytingar á lífi Guðmundar en þá fór fyrst að bera á hræðilegum sjúkdómi sem átti eftir að stjórna lífi hans allt frá því.

Á þessum tíma hafði Guðmundur hafið framhaldsskólanám og verið valinn í landsliðsúrval unglinga í handbolta. Segja má að líf Guðmundar hafi á stuttum tíma farið af FM-stuttbylgju yfir á LW-langbylgju. Þó að langt sé á milli þeirra sem notfæra sér framangreindar tegundir útvarpsbylgja, áherslur efnis ólíkar á þann hátt að notendur langbylgju eru að mestu lausir við dægurþras og annað sem í reynd skiptir litlu máli, þá komast allra mikilvægustu skilaboðin alltaf til skila óháð því á hverslags bylgju menn hafa kosið að stilla sig inn á. Þannig var einmitt samskiptum okkar vinanna háttað síðastliðin ár þegar við hittumst á öldurhúsum eða í húsasundum miðborgarinnar þá komst það sem raunverulega skipti máli til skila en þá tók Guðmundur gjarnan utan um mig og sagði mér hversu vænt honum þætti um vináttu okkar. Þrátt fyrir að vera orðinn langt leiddur fíkill þá gerðist það nær aldrei að Guðmundur bæði mig um peninga til þess að fjármagna næsta skammt. Þegar hann leitaði til mín eftir aðstoð þá var það alltaf í þágu annarra sem stóðu enn þá hallari fæti en hann sjálfur og þannig sannaðist að gælunafn hans í rökkurheimum lýsti á engan hátt hjarta hans sem var gullslegið og stærra en konungshöll. Á einum af fundum okkar á síðastliðnum árum sagði Guðmundur mér frá því að hann ætti sér þér þann draum að við gömlu vinirnir kæmum saman á heimili foreldra hans og snæddum kjötbollur matreiddar af móður hans. Nú þegar komið er að leiðarlokum í bili þá er átakanlega sárt að hugsa til þess að okkur tókst ekki uppfylla þennan draum hans í þessu jarðlífi. Ég vil hins vegar trúa því að þegar hann mun leiða okkur vinina inn í hina eilífu framtíð þá muni allsnægtaborðið þar svigna undan fötum fullum af kjötbollum. Þangað til mun ég segja sonum mínum og öðrum sögur af öndvegisdrengnum Guðmundi Steini sem hefði svo sannarlega skarað fram úr á enn þá fleiri sviðum ef örlaganornin hefði spunnið lífsvef hans með sanngjarnari hætti.

Þrjá erfingja á hver maður: mennina, moldina og sálarinnar meðtakara.

Ólafur Hvanndal Ólafsson.

Við Guðmundur Steinn kynntumst í Kambaselinu þar sem við ólumst upp sinn í hvoru raðhúsinu.

Strax urðum við óaðskiljanlegir, bestu vinir. Fyrsta skóladaginn gengum við glaðir og spenntir með Scout-skólatöskurnar okkar, fullar af Disney-bókum svo töskurnar væru ekki svona tómlegar.

Vorum saman þar til í 8. bekk, þar sem Gummi flutti úr hverfinu. Eftir eitt ár í Réttarholtsskóla fann Gummi að hann var ekki samur án sinna gömlu vina og kom hann til baka í Seljaskóla í 9. bekk, en þá hafði ýmislegt breyst. Nýr skólastjóri og kennari við skólann sem varð okkar umsjónarkennari. Við strákarnir voru einstaklega iðnir við að gera skólagönguna okkar skrautlega, en öðrum fannst við fyrirferðarmiklir. Fengum við strax um haustið áminningu frá nýja umsjónarkennaranum og skólastjóranum. Gummi fékk að vita að hann væri fyrstur, þar sem hann kom á undanþágu því hann kom úr öðru hverfi. Það kom að því að við fórum yfir strikið og Guðmundur Steinn var látinn fjúka. Eftir brottrekstur úr Seljaskóla fór Guðmundur Steinn í Ölduselsskóla, þar sem hann félla vel inn í hópinn og kláraði hann 9. og 10. bekk í góðum hópi. Við byrjuðum í fótbolta hjá ÍR á yngri árum, en á veturna spiluðum við handbolta sem seinna varð okkar íþrótt. Spiluðum við saman handbolta í um 10 ár og ferðuðumst við saman um landið í okkar keppnisferðalögum. Toppurinn var TheramoCup á Ítalíu 1998. Þar voru saman komnir krakkarnir úr ÍR og kynntumst við öðrum íslenskum liðum, en ekki á sama hátt og við kynntumst liðinu frá Vestmannaeyjum, ÍBV. Eftir þessa ferð vorum við staðráðnir í því að hitta ÍBV-liðið á þeirra hátíð, Þjóðhátíð. Við Gummi fórum saman á Þjóðhátíð 2001, sem reyndist okkar eina Þjóðhátíð saman. Eftir grunnskóla lágu leiðir okkar sitt í hvora áttina. Á þessum árum bættist Bakkus í vinahópinn og höndluðum við vinirnir þennan nýja vin misvel. Við strákarnir fórum hver í sína áttina á þessum árum, en Gummi virtist festast með þessum nýja vini. Árin liðu og aldrei virtist Gummi losna frá Bakkusi, sama hvað hann reyndi. Alltaf héldum við sambandi, þar sem ég trúði að hann myndi einn daginn losna en eftir margar meðferðir þar sem við vinirnir reyndum að finna lausn, fannst hún ekki. Lífið sjálft er oft eins og spil, það sem þú hefur sett út er borðfast. Guðmundur Steinn komst ekki til baka hvað sem hann reyndi. Í hvaða veðri sem var síðustu ár hugsaði ég alltaf hvort hann hefði ekki örugglega skjól. Það var erfitt að vita af mínum æskuvini þarna úti. Eftir símtal á dögunum þar sem ég fékk að vita að þinn dagur væri að kvöldi kominn, þá kom höggið. Að fá að sitja með þér á gjörgæslunni og rifja upp allt sem við gerðum skemmtilegt í lífinu er ómetanlegt.

Óneitanlega runnu árin í gegnum hugann þegar ég sat hjá þér. Ég vissi samt að þegar ég fór þá hefði ég séð þig í síðasta sinn.

Eftir þessa heimsókn tók við erfið bið, full af sorg og minningum. Morguninn eftir var sú staðreynd ljós að þú hefðir kvatt klukkan 2 þessa nótt.

Elsku besti Gummi minn, takk fyrir allt og góða ferð.

Þinn ástkæri vinur,

Ólafur Haukur Hansen.