Hjálmar Magnússon
Hjálmar Magnússon
Eftir Hjálmar Magnússon: "Er kannski hugsanlegt að mikið járn sé í berginu í Færeyjum?"

Fræðingar okkar finna engan veginn út ástæðu þess að stórar hvalavöður synda upp í fjöru og stranda þar oft í stórhópum. Nú síðast voru menn við björgun á stórri hvalavöðu norður af Reykjanesi og enginn skilur hvað það er sem ruglar hvalina svo hastarlega í ríminu en það eru vissir þættir sem menn taka eftir. Af hverju stranda þeir á svona stöðum, af hverju ekki við suðurströnd landsins, sem þó er gríðarlega löng sandströnd og mjúkt undirlag?

Ég undirritaður man ekki eftir strandi við suðurströnd landsins, gaman væri ef fræðingar okkar gætu fundið eitthvað út úr þessum málum þar sem nálgast má einhvern sannleik um þessi furðulegu og skrítnu mál. Við sátum nokkrir félagar við matborðið í eldhúsinu í hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð í Kópavogi og skemmtum okkur við alls konar orðaleiki. Ræddi einn okkar að það væru mörg strönd (þ.e. skipströnd) þarna við Reykjanesið og fann þá annar út að þarna væri jú löng strönd þannig að það væri ekki skrítið þótt þarna yrðu mörg strönd. En gamanlaust þá var einn okkar að skýra frá því að þarna hefðu orðið margir skipskaðar og það hefði verið álit sérfræðinga að svo mikið járn væri í berginu þarna að það hefði hugsanlega ruglað áttavita þannig að þessir mörgu skipskaðar hefðu orðið vegna járns í berginu.

Þá fór ég undirritaður að velta fyrir mér hvort þetta mikla járnmagn sem mun vera þarna í berginu gæti hugsanlega haft áhrif á grindhvalina og ruglað þá í ríminu þannig að þeir missi áttaskyn sitt og strandi þess vegna. Færeyingar fóru jú fyrr á öldum að veiða grindhvalina vegna þess að þeir villtust upp í fjörur og í dag er það orðið hefð hjá þeim að veiða grindhvali vegna þess að allavega fyrr á öldum sóttu þeir svo að landi og þá var tilvalið að reka þá upp í fjöruna og ná sér í góðar kjötbirgðir. Er kannski hugsanlegt að mikið járn sé í berginu í Færeyjum?

Vinsamlega athugið að hjá mér eru þetta einungis spurningar fáfróðs almúgamanns sem akkúrat ekkert vit hefur á svona málum en gaman væri þó ef menn með þekkingu á þessum málum gætu rannsakað og skoðað hvort þetta gæti verið hugsanlegt og gert okkur almúganum ljóst og þá birt þær upplýsingar í fréttamiðlum landsins.

Höfundur er fyrrverandi framkvæmdastjóri.

Höf.: Hjálmar Magnússon