Erlingur Ólafsson fæddist 23. desember 1942. Hann lést 15. nóvember 2019.

Erlingur var jarðsunginn 4. desember 2019.

Við skyndilegt fráfall tengdaföður míns, Erlings Ólafssonar, koma margar góðar minningar upp í huga minn sem ekki verða frá mér teknar. Frá fyrstu kynnum okkar kom hann mér fyrir sjónir sem reynslumikill maður sem hafði sögu að segja. Glaðværð og yfirvegun voru honum í blóð borin og grunnt á skopskyni sem hann bjó yfir til hinsta dags.

Erlingur og eiginkona hans Helga Kristjánsdóttir höfðu rekið saman garðyrkjustöðina Reykjadal í Mosfellsdal af áræðni og eljusemi í tæp 30 ár þegar ég og dóttir þeirra Ólöf Ágústa fórum að draga okkur saman.

Ófáar samverustundirnar áttum við á heimili þeirra hjóna. Blómlegur og vel hirtur skrúðgarður, gróðurhús þar sem rósir, nellikur og aðrar tegundir voru ræktaðar af miklum myndarskap, stór bílskúr/bílaverkstæði og glæsilegir fararskjótar á hlaðinu. Allt bar þetta vott um snyrtimennsku og sóma sem þau hjón höfðu tamið sér.

Erlingur gerði við alla sína bíla sem og annarra en margir leituðu til hans um hjálp og hafði Erlingur ráð undir rifi hverju í bílskúrnum. Erlingur sýndi Mercedes Benz mikla hollustu í gegnum tíðina, átti þá marga, gerði við, endurbætti, endursmíðaði, sprautaði og hirti vel um.

Að kveldi voru um allan bílskúr íhlutir og verkfæri að ógleymdum bílnum sem stóð á gólfinu og ekkert fararsnið var á.

Morguninn eftir voru allir hlutir komnir á sinn stað í bílnum og hann ökufær. Erlingur unni sér ekki hvíldar fyrr en verkefninu var lokið með sóma. Það var ánægjulegt að eiga við hann samtöl um liðna tíma, s.s. um hjálparstarf með Björgunarsveitinni Kyndli í Mosfellssveit sem hann stofnaði ásamt fleirum. Við erfiðar aðstæður í foráttuvitlausu veðri var hann ávallt til þjónustu reiðubúinn til að verða öðrum að liði sem voru í háska.

Um hálendisferðir og um jeppabreytingar ræddum við en hann var einn af þeim fyrstu hérlendis sem breyttu jeppa sérstaklega til að auka akstursgetu þeirra um vegleysur. Ófáir voru greiðar og snúningar Erlings í þágu fjölskyldu minnar sem ég vil þakka fyrir. Einnig fyrir góð ráð og leiðbeiningar um viðgerðir og viðhald.

Við 65 ára aldurinn fór Erlingur að finna fyrir sjúkleika sem var á alvarlegu stigi og varð til þess að hann fór í stóra hjáveituaðgerð sem ekki var hægt að slá á frest.

Hann gerði sér grein fyrir því að brugðið gæti til beggja vona.

Aðgerðin gekk vel sem betur fer, hann komst fljótt til heilsu á ný og náði undraverðum bata að lokinni endurhæfingu á skömmum tíma. Örfáum árum síðar hrakaði heilsu Erlings verulega og stóð líf hans nánast á bláþræði um tíma. Hann komst þó yfir þetta tímabil af æðruleysi og stóð tengdamóðir mín eins og klettur við hlið hans.

Erlingur og Helga hættu starfsemi garðyrkjustöðvar sinnar fyrir um 6 árum eftir tæplega 50 ára rekstur, þá bæði komin á áttræðisaldur. Þau fóru í nokkrar utanlandsferðir, m.a. til Svíþjóðar og til Tenerife á allra síðustu árum og áttu þar góðar stundir með fjölskyldunni.

Við leiðarlok vil ég þakka Erlingi Ólafssyni fyrir tryggð og samfylgdina í gegnum árin.

Hvíl þú í friði, kæri vinur.

Helgi Már Karlsson.