Reynir segir þrýst á flugleiðsöguveitendur að hagræða í rekstrinum.
Reynir segir þrýst á flugleiðsöguveitendur að hagræða í rekstrinum.
Eftir að hafa komið víða við í faginu og starfað við stefnumörkun samtakanna í Brussel undanfarin þrjú ár hefur Reynir Sigurðsson verið ráðinn framkvæmdastjóri Borealis Alliance með aðsetur í Reykjavík.

Eftir að hafa komið víða við í faginu og starfað við stefnumörkun samtakanna í Brussel undanfarin þrjú ár hefur Reynir Sigurðsson verið ráðinn framkvæmdastjóri Borealis Alliance með aðsetur í Reykjavík. Borealis Alliance eru samtök níu flugleiðsöguveitenda í N-Evrópu og er Isavia þeirra á meðal. Krefjandi verkefni eru fram undan.

Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?

Helstu árskoranir flugleiðsöguveitenda er að gerðar eru miklar kröfur til afkastagetu og hagkvæmni. Mikil pressa er frá flugfélögum, almenningi og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og jafnvel kröfur um sameiningu. Í stað þess að hvert fyrirtæki vinni að þessum markmiðum í sínu horni er ákveðin hagkvæmni í því að vinna saman. Það getur hins vegar verið áskorun í sjálfu sér að fá fyrirtækin til að sjá þá lausn og koma sér saman um aðferð eða leiðir til þess. Helsta áskorunin fyrir Borealis Alliance er að reyna að sjá fyrir hvernig umhverfið muni breytast á næstu fimm til fimmtán árum, gera ráðstafanir, hrinda verkefnum í gang og jafnvel leiða þá breytingu.

Hver myndi leika þig í kvikmynd um líf þitt og afrek?

Rowan Atkinson, því við erum nafnar; Rowan þýðir Reynir, og hann er rafmagnsverkfræðingur að uppruna eins og ég.

Hugsarðu vel um líkamann?

Ég reyni það og spila enn körfubolta með félögum í Old-Boys í Ármanni. Undanfarin þrjú ár hef ég verið starfandi í Brussel og komst þar í hóp félaga frá Grikklandi sem spila körfubolta. Það verður hins vegar að segjast eins og er að í umhverfi eins og Brussel getur verið ansi erfitt að hugsa vel um líkamann. Það er mikið um að farið sé út að borða og að skyndibiti sé á boðstólum í hádeginu. Ég segi það stundum að í Brussel þá eru kvöldverðir og kokteilboð atvinnutengd hætta sem getur valdið heilsutjóni. Þetta stendur hins vegar allt til bóta.

Hvað myndirðu læra ef þú fengir að bæta við þig nýrri gráðu?

Ef ég ætti að bæta við mig gráðu myndi ég taka áhættustjórnun. Ég hef verið verkefnastjóri í mörg ár og séð það að of oft er áherslan á að framkvæma verkefnin skv. áætlun og hafa stjórn á kostnaði. En öll verkefni eru breytingum háð, umhverfið breytist og oft á tíðum er hægt að sjá þetta fyrir með einfaldri greiningu. Þannig ætti hugsanlega fókusinn ekki að vera bara á hvað við erum að gera heldur hvað gæti farið úrskeiðis og hvaða ráðstafanir við ætlum að gera til að koma í veg fyrir að það gerist.

Hvað gerirðu til að fá orku og innblástur í starfi?

Mér líður best í faðmi fjölskyldunnar og vil helst hafa alla í kringum mig, sérstaklega ef ég hef verið mikið fjarverandi. Þá er stundum gott að vera saman og gera ekki neitt.

Hin hliðin

Nám: Háskóli Íslands, B.Sc í rafmagnsverkfræði, 1988; Danmarks Tekniske Höjskole, M.Sc. í rafmagnsverkfræði, 1990; Endurmenntun Háskóla Íslands, viðskipta- og rekstrarnám, 2000; Vlerick Business School, stjórnendaþjálfun „Transformation to Leadership“, 2018.

Störf: RARIK, verkfræðingur, 1988-1988; Póstur og sími, verkfræðingur 1990-1991; Flugmálastjórn Íslands, verkefnastjóri, 1991-1999; Kögun hf., verkefnastjóri og ráðgjafi, 2000-001; Integra Consult A/S, ráðgjafi í flugmálum, 2001-2006; Gagnaveita Reykjavíkur, verkefnastjóri, 2006-2008; Flugmálastjórn Íslands, framkvæmdastjóri flugleiðsögu- og flugvallasviðs, 2008-013; Samgöngustofa, framkvæmdastjóri mannvirkja- og leiðsögusviðs, 2013-2016; Borealis Alliance, framkvæmdastjóri stefnumörkunar og regluverks, 2017-2019 og framkvæmdastjóri frá 2019.

Áhugamál: Leiklist, körfubolti og golf.

Fjölskylduhagir: Kvæntur Þórrúnu Sigríði Þorsteinsdóttur kennara og eigum við börnin Þórdísi, Helgu Maríu og Reyni Tómas.