Hæli Mótmæli hælisleitenda.
Hæli Mótmæli hælisleitenda.
Hatursglæpir og -tjáning hefur á undanförnum árum fengið aukna athygli í Evrópu, en haturstjáning er orðræða sem er almennt beint gegn einhverju, t.a.m. trúarbrögðum, kynhneigð eða uppruna.

Hatursglæpir og -tjáning hefur á undanförnum árum fengið aukna athygli í Evrópu, en haturstjáning er orðræða sem er almennt beint gegn einhverju, t.a.m. trúarbrögðum, kynhneigð eða uppruna. Ákveðið fordæmi hefur verið gefið í íslensku samfélagi sem skapar rými fyrir tjáningu neikvæðra viðhorfa gegn minnihlutahópum sem kynda á undir hatri milli hópa og mismunun.

Eru þetta m.a. niðurstöður rannsóknar sem birt er í fræðiritinu Stjórnmál & stjórnsýsla undir heitinu „„Grýta þetta pakk“: Haturstjáning í íslensku samhengi“. Var rannsóknin unnin af Eyrúnu Eyþórsdóttur, lektor við hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri, og Kristínu Loftsdóttur, prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands.

„Þessi orðræða er notuð til að stilla minnihlutahópum upp sem ógn gegn íslenskri menningu, „hvíta kynstofninum“, konum og öryggi samfélagsins. Orðræðan beinist að mestu leyti gegn múslimum. Einstaklingar sem halda úti orðræðu sem þessari hafa í sumum tilfellum beinan aðgang að fjölmiðlum í gegnum eignarhald og stjórnun miðlanna þar sem falsfréttum er meðal annars miðlað,“ segir í rannsókninni.

Sagðir hafa aðgang að Sögu

Rannsakendur halda því einnig fram að sömu orðræðu sé að finna innan stjórnmálanna hér á landi, en stjórnmálaflokkarnir Íslenska þjóðfylkingin og Frelsisflokkurinn eru meðal annars stofnaðir „sérstaklega gegn innflytjendum, múslimum og fólki sem leitar alþjóðlegrar verndar. Jafnvel þótt fylgi þessara flokka hafi ekki náð miklu flugi hingað til hafa þeir góðan aðgang að fjölmiðlinum Útvarpi Sögu til að dreifa hatursáróðri,“ segir í rannsókn, en einnig eru fulltrúar Flokks fólksins og Miðflokksins bendlaðir við haturstjáningu í umræddri rannsókn.

Þá sýnir uppgangur haturshópa á borð við Norðurvígi og Vakur að grundvöllur sé fyrir starfsemi hér.