Pervez Musharraf
Pervez Musharraf
Hershöfðinginn Pervez Musharraf, fyrrverandi forseti Pakistans, var í gær dæmdur til dauða fyrir landráð.

Hershöfðinginn Pervez Musharraf, fyrrverandi forseti Pakistans, var í gær dæmdur til dauða fyrir landráð. Er þetta í fyrsta sinn sem dómstólar í Pakistan dæma fyrrverandi yfirmann pakistanska hersins fyrir landráð og sendu leiðtogar hersins frá sér í gær tilkynningu þar sem úrskurður dómsins var fordæmdur.

Sagði í tilkynningu hersins að glæstur ferill Musharrafs í þágu hers, lands og þjóðar í meira en 40 ár hlyti að tákna að hann gæti ekki verið föðurlandssvikari.

Réttarhöldin yfir hinum 76 ára gamla Musharraf hófust árið 2013, en þau fóru mestmegnis fram að honum fjarverandi. Hann hefur verið í sjálfskipaðri útlegð frá árinu 2016, þegar hann fékk að yfirgefa landið til þess að sækja sér læknismeðferð.

Snerust réttarhöldin einkum um þá ákvörðun hans árið 2007 að setja á herlög eftir umdeildar forsetakosningar þar sem hann var kosinn í þriðja sinn. Lögfræðingur Musharrafs sagði að hann væri veikur og í Dúbaí. Ekki væri ákveðið hvort dómnum yrði áfrýjað.