Slys Léttbáturinn siglir fram af bárunni við Landeyjahöfn.
Slys Léttbáturinn siglir fram af bárunni við Landeyjahöfn. — Ljósmynd/Frá RNS
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Tveir menn slösuðust um borð í hraðskreiðum léttbáti nýja Herjólfs 17. júlí í sumar.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Tveir menn slösuðust um borð í hraðskreiðum léttbáti nýja Herjólfs 17. júlí í sumar. Í skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa, siglingasviðs, segir um atvikið að slysið megi rekja til skorts á viðeigandi þekkingu bátsverja og þjálfunarleysis á bátnum, auk þess sem siglingahraði hafi verið of mikill miðað við aðstæður.

Atvikum er lýst þannig að þegar ferjan var fyrir utan höfnina hafi verið ákveðið að tveir starfsmenn útgerðarinnar, sem erindi áttu í land, yrðu fluttir þangað með hraðskreiðum léttbáti skipsins sem einnig var verið að framkvæma prófanir á. Á leiðinni í land fór báturinn, sem var með þrýstidrifi, fram af báru með þeim afleiðingum að starfsmennirnir tveir slösuðust.

Annar enn frá vinnu

Annar mannanna fékk brot í hryggjarlið og samfallna tvo hryggjarliði, en hinn fékk samfallsbrot, brjósklos og rófubein brotnaði.

Samkvæmt upplýsingum frá Guðbjarti Ellert Jónssyni, framkvæmdastjóra Herjólfs, er annar mannanna enn að glíma við eftirköst slyssins og hefur ekki snúið aftur til starfa. Hinn maðurinn meiddist minna og missti ekkert úr vinnu.

Skýrsla RNS var afgreidd á fundi síðasta föstudag og segir í henni að við rannsókn hafi komið fram að skipverjar Herjólfs hafi verið að prófa bátinn og sjósetja hann í fyrsta skipti. Fjórir skipverjar af Herjólfi og tveir starfsmenn útgerðarinnar voru fremst í léttbátnum og skall annar þeirra sem slösuðust með höfuðið í málmstykki fremst á léttbátnum og féll síðan í botninn á honum. Hinn sat á botninum þegar báturinn sigldi fram af bárunni.

Enginn af áhöfn léttbátsins hafði hlotið sérstaka þjálfun í notkun á hraðskreiðum léttbátum en Slysavarnaskóli sjómanna býður upp á námskeið í notkun þeirra. Í skýrslunni er bent á að samkvæmt SOLAS-samþykkt um öryggi mannslífa á hafinu eigi að lágmarki tveir skipverjar að vera í áhöfn sem hafa hlotið þjálfun í meðferð hraðskreiðra léttbáta og stunda reglulegar æfingar á þannig bátum. Vindur var 4-5 metrar af austnorðaustri og ölduhæð einn metri þegar óhappið varð.

Fram kemur í skýrslunni að samkvæmt upplýsingum frá skipstjóra hefur hluti áhafnar lokið námskeiði bæði fyrir líf- og léttbáta og hraðskreiða léttbáta eftir atvikið en til stendur að senda fleiri. Í áhöfn Herjólfs voru 10 skipverjar í þessari ferð en aðeins fjórir þeirra voru lögskráðir. Skýringar fengust ekki á því.

Siglingar hafa gengið vel

Aðspurður segir Guðbjartur að siglingar Herjólfs í Landeyjahöfn hafi gengið mjög vel í vetur. Í heildina hafi veður og sjólag verið hagstætt frá því að nýja ferjan var tekin í notkun 25. júlí og dýpið við höfnina ekki takmarkað siglingar. Á þessu tímabili segir Guðbjartur að ferðir í Landeyjahöfn hafi fallið niður í 20 daga, fyrst og fremst vegna lagfæringa á nýju ferjunni og uppsetningar á rafbúnaði og tengingum. Hluta þess tíma hafi gamli Herjólfur ekki getað siglt í Landeyjahöfn vegna veðurs.