Hefðu þau fengið að ráða hefði Ljósafossstöðin ekki verið reist 1937. Heldur ekki Laxár- og Írafossstöð 1953. Mjólkárvirkjun hefði þótt víðáttuvitlaus og ekki komist á koppinn 1956.

Hefðu þau fengið að ráða hefði Ljósafossstöðin ekki verið reist 1937. Heldur ekki Laxár- og Írafossstöð 1953. Mjólkárvirkjun hefði þótt víðáttuvitlaus og ekki komist á koppinn 1956. Aldrei hefði verið fallist á Steingrímsstöð 1959 né heldur Laxárstöð III árið 1973. Virkjunin í Kröflu hefði aldrei komist á hugmyndastig, hvað þá orðið að veruleika 1977 og hið sama hefði átt við Sigöldustöð 1978. Dettur einhverjum í hug að Blöndustöð hefði verið gangsett 1991 eða Fljótsdalsstöð 2007 ef sami hópur hefði fengið sitt fram?

Ljósi punkturinn í dellunni allri er sá að ef framtakssamt fólk með heilbrigða framtíðarsýn hefði ekki keyrt raforkuuppbygginguna áfram á síðustu 70 árum hefðum við aldrei horft upp á þau vandamál sem fylgdu fárviðrinu í liðinni viku. Það hefði ekkert rafmagni verið að miðla til heimila og fyrirtækja í landinu. En sá böggull fylgir hins vegar skammrifi þessa viðhorfs að ef það hefði orðið ofan á hefðu lífsgæði í landinu orðið miklum mun verri en þau eru í dag. Sennilega fylltu Íslendingar þá flokk fátækari þjóða í Evrópu í stað þess að skipa þar efstu sætin ásamt öðrum ríkustu velmegunarþjóðum heimsins.

Hamfarirnar sem gengu yfir og ollu mikilli röskun á raforkuflutningi mættu verða okkur áminning um hversu mikilvægt rafmagnið er fyrir löngu orðið í samfélagi okkar. Það er hin ósýnilega undirstaða velmegunar og við megum þakka fyrir þá miklu gjöf sem felst í fallvötnum og jarðvarma. Enn frekar má þakka því fólki sem hafði djörfung til þess að beisla þessa orku og breyta henni í verðmæti, þjóð og landi til heilla.

Þessi áminning virðist raunar hafa náð í gegn. Þeir sem hvað hatrammast hafa barist gegn uppbyggingu raforkukerfisins hafa haft sig lítið í frammi síðustu vikuna, jafnvel þeir sem í dag verma æðstu sessur íslensks stjórnkerfis. Ekki er víst að staðreyndirnar telji þeim hughvarf til lengri tíma litið en þá er mikilvægt að minnast þess að veður, lík því sem gekk á land nú í desember, munu án efa sækja okkur heim að nýju. Þá er eins gott að búið verði að gera átak í uppbyggingu raforkuinnviða landsins.