Umhverfi Vindmyllur eins og þessar við Búrfell hafa m.a. áhrif á upplifun fólks af landslagi. Taka þarf tillit til þess við staðsetningu þeirra.
Umhverfi Vindmyllur eins og þessar við Búrfell hafa m.a. áhrif á upplifun fólks af landslagi. Taka þarf tillit til þess við staðsetningu þeirra.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Guðmundur Magnússon gudmundur@mbl.is Skipulagsstofnun vinnur um þessar mundir að viðauka við gildandi landsskipulagsstefnu þar sem m.a. verða mótuð viðmið fyrir staðsetningu vindorkuvera með tilliti til landslags. Hefur Matthildur Kr.

Sviðsljós

Guðmundur Magnússon

gudmundur@mbl.is

Skipulagsstofnun vinnur um þessar mundir að viðauka við gildandi landsskipulagsstefnu þar sem m.a. verða mótuð viðmið fyrir staðsetningu vindorkuvera með tilliti til landslags. Hefur Matthildur Kr. Elmarsdóttir, skipulagsfræðingur hjá Alta, nýlega tekið saman skýrslu um hvernig staðið er að slíkri stefnumótun í Noregi og Skotlandi og aðra þætti sem tengjast skipulagi og hönnun vindorkuvera með tilliti til landslags. Er samantekt hennar aðgengileg á heimasíðu Skipulagsstofnunar.

Fram kemur að bæði í Noregi og Skotlandi er talið mikilvægt að marka heildstæða stefnu á landsvísu um það hvar best er að koma fyrir vindorkuverum, en það heiti er notað yfir svæði þar sem margar vindmyllur eru á þéttum reitum. Markmið stefnumótunarinnar er að stuðla að því að bestu svæðin séu nýtt með tilliti til tæknilegra, fjárhagslegra, samfélagslegra og umhverfislegra sjónarmiða.

Landfræðileg greining

Við mótun tillögu um rammaáætlun um vindorku í Noregi var beitt landfræðilegri greiningu stig af stigi, fyrst til að útiloka svæði sem ekki þóttu henta fyrir vindorkunýtingu út frá allmörgum viðmiðunum og síðan til að tilgreina svæði sem best þykja henta. Niðurstaðan var kort með tilteknum svæðum sem lagt var til að væru forgangssvæði þegar kæmi að leyfisveitingum stjórnvalda fyrir vindorkuver.

Í Skotlandi hefur svæðum verið skipt í þrjá flokka. Tekur einn til tveggja gerða svæða sem eru alveg útilokuð frá vindorkunýtingu. Þetta eru þjóðgarðar og sérstök verndarsvæði. Í öðrum flokki eru þrjár gerðir svæða og er þar um að ræða svæði sem njóta verndar á landsvísu eða alþjóðlega, önnur mikilvæg svæði, svo sem víðerni og kolefnisrík svæði, og loks svæði nærri þéttbýli. Eigi að nota þau undir vindorkuver er þess krafist að sýnt sé fram á að draga megi með afgerandi hætti úr neikvæðum áhrifum með staðsetningu, hönnun mannvirkja eða öðrum mótvægisaðgerðum. Í þriðja flokknum í Skotlandi eru svo svæði þar sem líklegt er að vindorkuver séu almennt ásættanleg út frá skilgreindum viðmiðunum.

Í skýrslunni kemur fram að þættir úr bæði norsku og skosku viðmiðunum við val á staðsetningu vindorkuvera geti nýst hér á landi. Meðal svæða sem þá kæmu ekki til greina væru þjóðgarðar, friðlýst svæði á skrá UNESCO, Ramsar-svæði (þ.e. alþjóðlega mikilvæg votlendissvæði) og alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði, óbyggð víðerni, verndarsvæði í byggð og svæði sem eru innan við tvo km frá þéttbýli.

Vindmyllur voru á 19. öld

Vindmyllur eru engin nýlunda á Íslandi. Á 19. öld voru reistar tvær vindmyllur í Reykjavík, önnur við Hólavelli á Suðurgötu, árið 1830 og hin á horni Bankastrætis og Þingholtsstrætis 1847, kölluð hollenska myllan. Voru þær báðar nýttar við mölun á rúgi. Vindmyllurnar settu svip á Reykjavík uns þær voru rifnar, Hólavallamyllan um 1880 og hollenska myllan 1902. Vindmylla var byggð í Vigur 1860 og stendur enn. Einnig voru fleiri vindmyllur á þessum tíma en auðvitað voru þessar myllur ekki tengdar neinu raforkukerfi.