Á krossgötum Nútíminn eftir Braga Pál Sigurðarson segir af bældum hagfræðingi sem stendur á krossgötum eftir að honum er sagt upp störfum.
Á krossgötum Nútíminn eftir Braga Pál Sigurðarson segir af bældum hagfræðingi sem stendur á krossgötum eftir að honum er sagt upp störfum. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Braga Pál Sigurðarson. Sögur útgáfa, 2019. Kilja, 212 bls.

Nútíminn er nærri í Austri , fyrstu skáldsögu Braga Páls Sigurðarsonar blaðamanns. Bókin segir af bældum hagfræðingi, Eyvindi, þjökuðum af félagsfælni, sem stendur á krossgötum eftir að honum er sagt upp í vinnunni.

Umfjöllunarefnið er alþýðlegt, laust við alla tilgerð og stíllinn í samræmi við það, með ógrynni samtímavísana. Eyvindur hagnast á bitcoin, leitar að konu á Tinder, horfir á Útsvar og iðrast þess að hafa keypt disk með Jóni Jónssyni, svo enginn velkist í vafa um að sagan gerist nú örugglega á Íslandi ársins 2019. Slíkar vísanir geta verið hressandi og verða sagnfræðingum framtíðarinnar vafalaust ómetanleg samtímaheimild, en fyrir lesandann verða þær þreytandi til lengdar. Dálítið eins og að vera staddur á instagramsíðu áhrifavalds og renna í gegnum kostaðar umfjallanir hans, svo ég leiki sama leik. Má veitingastaðurinn ekki stundum bara heita veitingastaður?

Því verður þó ekki neitað að lesturinn er skemmtilegur. Í hverju ölæðinu á fætur öðru kemur söguhetjan sér í lygilegar aðstæður og vílar ekki fyrir sér að skipta um starfsvettvang, hvort sem er á sjó eða í sveit, þrátt fyrir að vera að eigin sögn með „líkamlega dyslexíu“, sjúkdóm sem ég hef nú sjálfgreint mig með. Vanhugsuð ákvarðanatakan minnir að vissu leyti á hinn aldna Allan Karlsson, hundrað ára elliheimilisbúann í sögu Jonas Jonasson, sem ákvað að strjúka að heiman því hann hafði ekkert betra að gera þann daginn. Helsti munurinn er sá að Eyvindur er alltaf í glasi.

Innan um grínið leynist þó alvara, og auðvelt er að greina sterkar skoðanir samfélagsrýnisins Braga sem lauma sér inn í frásögnina og gæða hana lífi.

Meginstraumsstjórnmálaflokkum, kvótakerfinu, tilgerðarlegum lögfræðinemum og Morgunblaðinu sjálfu bregður fyrir á hressandi hátt í samræmi við sannfæringu höfundar, og þótt einhverjum kunni að þykja sumar vísanirnar fullþvingaðar skyggja þær ekki á hispurslausa frásögnina, hrakfallasögu fyrrverandi hagfræðingsins Eyvindar.

Bókin er léttmeti, á köflum sprenghlægileg, og tilvalin handa þeim sem vilja gefa raunveruleikasjónvarpi eða íslenskum grínþáttum kærkomið frí og reyna sig við ígildi þess í bókarformi.

Alexander Gunnar Kristjánsson

Höf.: Alexander Gunnar Kristjánsson