Gunnhildur Björnsdóttir fæddist 5. janúar 1928 á Kleppjárnsstöðum í Hróarstungu. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Dyngju á Egilsstöðum 8. desember 2019.

Foreldrar Gunnhildar voru Björn Árnason, f. 14.5. 1888, d. 8.5. 1962, og Anna Þuríður Hallsdóttir, f. 25.4. 1895, d. 16.7. 1989. Alsystkini Gunnhildar voru átta. Guðrún María, f. 1917, dó barnung. Hallfríður, f. 1920, d. 1993; Guðlaug, f. 1922, d. 2008; Oddur, f. 1926, d. 2001; Sveinn, f. 1930, d. 2011; Óskírður drengur, f. 1931, dó sama ár.; Gísli, f. 1933, og Soffía, f. 1936, d. 2000.

Gunnhildur giftist Gunnlaugi Gunnlaugssyni Oddsen, f. 2.11. 1915, d. 11.3. 1991. Gunnhildur og Gunnlaugur eignuðust saman átta börn. Þau eru: 1) Guðrún, f. 1948, gift Sigurði Ingvarssyni. 2) Gunnlaugur, f. 1949, kvæntur Þuríði Arnórsdóttur. 3) Björg Sigrún, f. 1951, gift Þóri Bjarnasyni 4) Anna Guðbjörg, f. 1953, gift Agnari Eiríkssyni. 5) Björn Guttormur, f. 1954, kvæntist Guðfinnu Auðunsdóttur, þau slitu samvistir. 6) Reynir Sigurður, f. 1956, kvæntur Sigurlaugu Gísladóttur. 7) Helga Sigríður, f. 1962, giftist Ingjaldi Ragnarssyni, þau slitu samvistir. 8) Kári Sigmar, f. 1965, kvæntur Sólveigu Pálsdóttur. Einnig ólu þau upp dótturdóttur sína Huldu Dagbjörtu, f. 1968, hún er gift Árna Steinþórssyni.

Barnabörnin eru 21, barnabarnabörnin 28 og barnabarnabarnabörn eru 2.

Gunnhildur bjó fyrstu æviárin á Kleppjárnsstöðum í Hróarstungu, en þegar hún var á fimmta aldursári fór hún í fóstur í Heiðarsel í sömu sveit. Í Heiðarseli kynntist Gunnhildur eiginmanni sínum og hófu þau búskap þar árið 1947 og bjuggu þar saman þar til Gunnlaugur lést árið 1991. Björn sonur þeirra tók þá alfarið við búskapnum. Árið 1996 flutti Gunnhildur í Egilsstaði og bjó þar til dauðadags. Gunnhildur tók virkan þátt í félagsstarfi í sveitinni. Hún var stofnfélagi í Kvenfélagi Hróarstungu, hún tók þátt í sveitastjórnarmálum og söng í Kirkjukór Kirkjubæjarkirkju um áratugaskeið. Eftir að Gunnhildur flutti í Egilsstaði tók hún þátt í starfi eldri borgara og nýtti sér þjónustuúrræði í Hlymsdölum, félagsmiðstöð eldri borgara. Síðustu æviárin bjó Gunnhildur á Hjúkrunarheimilinu Dyngju á Egilsstöðum.

Útförin fer fram frá Egilsstaðakirkju í dag, 18. desember 2019, klukkan 14.

Elsku amma. Þú ert mín fyrirmynd í lífinu. Þú hefur verið stoð mín og stytta frá því ég man eftir mér. Þú tókst mig smábarnið að þér og varst í raun móðir mín. Ekki hefur það verið auðvelt að bæta við níunda barninu á stórt heimilið, en þig virtist nú ekki muna um eitt í viðbót. Ég lét þig þó alveg hafa fyrir því. Var oft óþæg og erfið, hefði eflaust verið greind í dag með ADHD. En þú hjálpaðir mér að takast á við lífið, kenndir mér að beisla eirðarleysið, til dæmis með handavinnu.

Þú varst hreinskilin, lést okkur heyra hvað þér fannst. Félagslynd, tókst þátt í kvenfélaginu, kirkjustarfi og sveitarstjórn svo fátt eitt sé talið.

Dugnaður var þér í blóð borinn, hjálpsöm og greiðvikin, en stjórnsöm á stundum.

Þú hafðir mikla hæfileika og sköpunargáfu. Það lék allt í höndunum á þér.

Hafðir mikinn áhuga fyrir handverki, fatasaumi sem þú varst snillingur í, prjóni, útsaumi, bókbandi og fleira. Hvað þú varst búin að sauma af fatnaði og prjóna á fjölskyldu og vini. Gafst okkur dýrindis útsaum, rúmföt og útprjónaða vettlinga. Fyrsta hugsunin þegar ég klára handavinnu er að þetta þurfi ég að sýna ömmu.

Alveg fram á síðasta dag hafðirðu áhuga á nýjungum. Þér fannst sniðugt þegar ég var að basla við í sumar að læra að prjóna tvo vettlinga á einum hringprjóni. Ef þú hefðir verið yngri hefðirðu gleymt þér á youtube að læra eitthvað nýtt. Man þó eftir því hvað þér þótti matseld og þessi endurteknu heimilisverk leiðinleg. En þú leystir þetta allt saman með prýði. Töfraðir fram dýrindis máltíðir og bakkelsi oft úr litlu. Þú varst fróð og kunnir hafsjó af vísum og kvæðum. Hafðir gaman af því að ferðast og fórst til allnokkurra landa.

Þú tókst Árna manninn minn að þér eins og hann væri sonur þinn. Það var svo yndislegt að þú skyldir treysta þér til að vera viðstödd þegar við loksins giftum okkur í fyrra.

Aðdáunarvert var hvernig þú tókst á við veikindin sem hófust fyrir sex árum þegar þú misstir málið. Þú tókst á því með ró þó svo að þetta hefði verið erfiðasta fötlunin fyrir þig, sem hafðir svo gaman af söng og að vera innan um fólk.

Þótt ég samgleðjist þér að komast í langþráð sumarlandið til afa þá er hjarta mitt fullt af söknuði og trega. Kveð með ljóði eftir Jón Inga Arngrímsson:

Langur dagur að kvöldi kominn er

kærar minningar ylja okkur hér.

Okkur kenndir það lífsins leyndarmál

að lífsgleðin er sótt í eigin sál.

Þá stóru brimskafla og boðaföll

sem buldu á, þú tókst á við þau öll.

Á æviskeiðinu lagðir mörgum lið

nú loks þú hvílist, öðlast ró og frið.

Þitt Sólarlag, svo er komin nótt

Þitt Sólarlag, þú hvílir vært og rótt

Þitt Sumarland, bjart nú bíður þín

Þitt Sumarland, bæna þinna sýn.

Senn vaknar þú á björtum betri stað

sem bíður þín, þú sagðir okkur það.

Þar læknast allt sem áður þjáði þig

þú ert komin á nýtt tilverustig.

Við söknum þín en vitum það víst öll

að vegurinn í þína draumahöll

liggur beinn, þar brosir allt þér við

brátt þar finnur vini þér við hlið.

Þitt Sólarlag, svo rís sólin hlý

Þitt Sólarlag, við tekur veröld ný

Þitt Sumarland, sem að þráðir þú

Þitt Sumarland, sem þig faðmar nú

Kveðja

Hulda Dagbjört.

Ég var fjölmörg sumur í sveit hjá ömmu. Það voru forréttindi að fá að kynnast sveitinni og náttúrunni, hlaupa áhyggjulaus um holt og hæðir, það var alltaf hægt að finna sér eitthvað að gera og ímyndunaraflið nýtt til hins ýtrasta því lítið var um leikföng. Ég var sérlegur hænsnahirðir, þekkti allar hænurnar og gaf þeim nöfn. Einnig átti ég forystukind.

Ég fór oft á hestbak og í reiðtúra og það fannst mér frábært. Einnig hafði ég mikið dálæti á hundunum. Það voru margir í heimili og alltaf eitthvað um að vera. Gestagangur var mikill og amma var höfðingi heim að sækja.

Amma söng oft við verkin sem hún vann og hún söng mjög vel og virkilega gaman að heyra hana syngja. Amma var alla tíð vel inni í öllu því sem gerðist í umheiminum og gat tekið þátt í samræðum um allt mögulegt. Hún hafði mjög gaman af því að ferðast og ferðaðist um mörg lönd og gaman að heyra frásagnir hennar af þeim ferðalögum. Amma var mikil hannyrðakona og eftir hana liggja ófá listaverk. Amma var mjög gjafmild og fór maður yfirleitt ekki frá henni án prjónaðra listaverka.

Amma var einhver magnaðasta og sterkasta kona sem ég hef kynnst. Hún þurfti að glíma við mikla erfiðleika sem ung kona en varð aldrei bitur, var alltaf jákvæð, sterk og sjálfstæð. Hún var mögnuð fyrirmynd sem ég mun ávallt reyna að fylgja.

Dagmar Sigurðardóttir.