[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Ég vona að þessir atburðir auki skilning á því að úrbóta er þörf,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Enn sér ekki fyrir endann á afleiðingum ofsaveðursins sem gekk yfir landið í síðustu viku. Landsmenn þurfa enn að búa við rafmagnsleysi og truflanir á rafmagni. Allt kerfið er sagt vera viðkvæmt.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Ég vona að þessir atburðir auki skilning á því að úrbóta er þörf,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Enn sér ekki fyrir endann á afleiðingum ofsaveðursins sem gekk yfir landið í síðustu viku. Landsmenn þurfa enn að búa við rafmagnsleysi og truflanir á rafmagni. Allt kerfið er sagt vera viðkvæmt.

Innviðir brugðust

„Ég efast um að nokkur hafi talið að við ættum yfir höfði okkar verstu rafmagnstruflanir í 25-30 ár og jafnvel lengur. Að því leyti stóðu innviðirnir auðvitað ekki undir væntingum, þó að ýmsir veikleikar í því hafi verið þekktir, til að mynda gamlar línur og berskjölduð tengivirki,“ segir Þórdís Kolbrún þegar hún er spurð hvort ástand raforkukerfisins hafi verið verra en talið var í upphafi þessara áfalla. „Sem betur fer hefur samt mikið verið lagt í jörð, mikið yfirbyggt, mikið endurnýjað og mikið varaafl sett upp á undanförnum árum eins og á Vestfjörðum. Annars hefði farið enn þá verr. En engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn og þeir eru of margir, það er ljóst.“

Draga þarf úr tvíverknaði

Þórdís Kolbrún lagði fram minnisblað í ríkisstjórn í september síðastliðnum um flutningskerfi raforku. Þar er rifjað upp að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar komi fram að flutnings- og dreifikerfi raforku verði að mæta betur þörfum atvinnulífs og almennings alls staðar á landinu.

Í stjórnarsáttmálanum segir til að mynda: „Forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar verður að nýta með sem hagkvæmustum hætti þá orku sem þegar hefur verið virkjuð. Í þeim tilgangi þarf að treysta betur flutnings- og dreifikerfi raforku í landinu, tengja betur lykilsvæði og tryggja afhendingaröryggi raforku um land allt.“

„Það eru mikil tækifæri í því að samþætta leyfisveitingarferlið sem er í einu orði sagt tætingslegt og óskilvirkt. Við eigum að skoða það að sameina skipulagsþætti, umhverfismat framkvæmda og framkvæmdaleyfi í einn og sama farveginn strax í upphafi. Ekki til að draga úr kröfum eða aðkomu almennings heldur einfaldlega til að draga úr tvíverknaði og tímasóun,“ segir ráðherra í svari til Morgunblaðsins. Í meðfylgjandi grafi má sjá hvernig ráðherra sér fyrir sér að hægt væri að einfalda leyfisveitingakerfið.

Í umræddu minnisblaði er farið yfir lykilverkefni í flutningskerfi raforku og stöðu þeirra: „Verulegar tafir hafa orðið á mikilvægum framkvæmdum í flutningskerfi raforku og er staða þeirra ekki í samræmi við vilja Alþingis eins og hann birtist í þingsályktun nr. 26/148, eða vilja ríkisstjórnar samanber framangreindar áherslur í stjórnarsáttmála. Fyrir því eru ýmsar ástæður sem m.a. má rekja til núverandi regluverks þegar kemur að leyfisveitingarferlum vegna framkvæmda, sem og málshraða innan lykilstofnana.“

Þórdís kveðst vonast til þess að veðurofsinn flýti fyrir því að hægt verði að ráðast í endurbætur á dreifikerfinu. „Landsnet hefur á síðustu árum aðeins getað framkvæmt um helminginn af framkvæmdaáætlun sinni, ekki vegna fjárskorts heldur vegna tafa í málsmeðferð. Það er því nokkuð augljóst að þar er mestur sársauki, mest þörf á úrbótum, og mestu tækifærin til að skila okkur fram á veginn. Ég bind vonir við vinnuna fram undan og að við sameinumst um mikilvægar breytingar.“