14 þúsund manns heimsóttu verslunina í Field's fyrstu helgina.
14 þúsund manns heimsóttu verslunina í Field's fyrstu helgina.
Verslun Um 100 þúsund manns munu hafa heimsótt verslun Lindex í Kaupmannahöfn, sem er til húsa í verslunarmiðstöðinni Field's, þegar árið verður um garð gengið að sögn Alberts Þórs Magnússonar, sem er leyfishafi fyrir verslunina í Danmörku og á Íslandi...

Verslun

Um 100 þúsund manns munu hafa heimsótt verslun Lindex í Kaupmannahöfn, sem er til húsa í verslunarmiðstöðinni Field's, þegar árið verður um garð gengið að sögn Alberts Þórs Magnússonar, sem er leyfishafi fyrir verslunina í Danmörku og á Íslandi ásamt Lóu Dagbjörtu Kristjánsdóttur. Þau hjónin opnuðu verslun Lindex í Danmörku í byrjun október og gera áætlanir þeirra ráð fyrir að verslunin muni skila hagnaði á fyrsta heila starfsárinu.

„Miðað við framganginn gerum við ráð fyrir að fjárfesting okkar skili sér á u.þ.b. tveimur til þremur árum sem verður að teljast nokkuð gott miðað við hvað þetta var umfangsmikið verkefni,“ segir Albert í samtali við ViðskiptaMoggann. Opnun verslunar Lindex í Field's vakti afar mikla athygli og því var ráðist fyrr en ætlað var í að opna vefverslun Lindex í Danmörku. Spurður hvort áætlanir geri ráð fyrir opnun fleiri verslana á næstunni í Danmörku segir Albert: „Sé þetta sett í samhengi við Ísland liðu næstum tvö ár milli opnunarinnar í Smáralind og í Kringlunni þannig að við erum langt á undan áætlun ef svo má að orði komast með opnun netverslunarinnar, einungis rúmum mánuði eftir opnunina í Field's. Við ætlum okkur því ekki að fara fram úr okkur og viljum velja rétt úr þeim tækifærum sem hafa birst eftir eins árangursríka opnun og raun ber vitni,“ segir Albert.

Að hans sögn verða tekjurnar í ár svipaðar og í fyrra en rekstrarniðurstaðan betri. Hagnaður Lindex nam 44,5 milljónum króna í fyrra og rekstrartekjurnar 1,4 milljörðum samkvæmt ársreikningi. peturh@mbl.is