Kommentakerfið er dæmi um íslenskt spil sem náði góðri sölu. Ný útgáfa, Kommentakerfið 2, kom út fyrir þessi jól.
Kommentakerfið er dæmi um íslenskt spil sem náði góðri sölu. Ný útgáfa, Kommentakerfið 2, kom út fyrir þessi jól. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Foreldrar, ömmur og afar kaupa í auknum mæli borðspil handa börnum og gefa þeim þannig frí frá tölvuleikjum og síma.

Í frétt í breska blaðinu Daily Telegraph á dögunum segir að uppgangur sé í útgáfu borðspila, einkum vegna þess að höfundar slíkra spila geta nú leitað til söfnunarvefsíðna eins og Kickstarter til að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd. Í sömu frétt segir að búist sé við að borðspilamarkaðurinn í Bretlandi muni vaxa um tíu prósent á næstu fimm árum, eftir því sem aðstandendur barna hvetji þau í auknum mæli til að taka sér pásu frá síma og tölvu.

Á sama við hér á landi

Svanhildur Eva Stefánsdóttir, annar eigenda spilaverslunarinnar Spilavina í Bláu húsunum í Faxafeni, segir að það sama eigi við hér á landi og í Bretlandi. Söfnunarvefsíður, eins og Karolina Fund hér á Íslandi, geri spilahönnuðum auðveldara fyrir að koma með ný spil á markaðinn. Til dæmis hafi nokkur ný spil eins og Lortur í lauginni, Talnastuð og Kommentakerfið 2 nýtt sér þá fjármögnunarleið. „Annars hefur notkun borðspila aukist heilmikið. Fólk hrífst af félagslega þættinum við þau, sem ekki fæst alltaf í sama mæli í tölvuleikjum. Það sem er vinsælast í borðspilunum eru þessi samvinnuspil. Þar má nefna spil eins og Krummaspilið, þar sem allir vinna saman að því að tína ávextina af trjánum áður en krummi nær þeim öllum.“

Svanhildur nefnir einnig partísamvinnuspilið Just One sem var valið spil ársins í Þýskalandi 2019. „Í þessum flokki spila er mest aukning í barnaspilunum, sem ég er mjög ánægð með. Borðspilin draga líka foreldrana úr símanum til að spila með börnunum.“

Svanhildur segir að margir spilahönnuðir leiti til Spilavina eftir leiðsögn og ráðgjöf í hönnunarferlinu.

Hún segir aðspurð að jólasalan gangi vel. „Við erum á góðri siglingu. Þetta eru þrettándu jólin okkar og við undirbúum okkur vel svo nóg sé til handa öllum.“

Sigursteinn J. Gunnarsson leikjahönnuður segir að sögulega séð hafi Íslendingar gjarnan farið af stað fyrir jólin til að búa til „jólaspilið í ár“ með misjöfnum árangri. „Það hefur verið jákvæð þróun undanfarið í þá átt að fólk gefur sér meiri tíma í undirbúning og leitar þá til sérfræðinga eins og mín eftir ráðgjöf,“ segir Sigursteinn.

Hann segir að áður fyrr hafi verið vinsælt að setja auglýsingar í spilin og fjármagna þau þannig. Nú noti fólk gjarnan Karolina fund. „Útvegsspilið, sem ég hef heyrt að sé söluhæsta spil Íslandssögunnar, með 30 þúsund eintök seld, var t.d. með auglýsingar í spilinu.“

Sigursteinn segir að það sé nokkuð kostnaðarsamt að gera spil. „Þetta er ekki mjög gróðavænlegt á litlum markaði eins og Ísland er.“

Hann segir að mikil þróun hafi orðið í spilum á síðustu tíu árum. „Spil eru farin að taka styttri tíma og vera fjölskylduvænni. Maður klárar flest spil núna á 15-45 mínútum.“

Spilið seldist upp

Óli Gneisti Sóleyjarson er höfundur partíspilsins Kommentakerfisins og nú Kommentakerfisins 2, sem bæði hafa notið vinsælda. „Kommentakerfið kom út fyrir fjórum árum og seldist upp. Nú er komin út ný útgáfa,“ segir Óli í samtali við ViðskiptaMoggann.

Hann segist hafa safnað fyrir fyrra spilinu á Karolina Fund, sjö þúsund evrum, en bjóði nú upp á forsölu á seinna spilinu á sama vettvangi. Fyrra spilið var prentað á Íslandi, hitt í Kína. Hann segir að þumalputtareglan fyrir íslenska markaðinn sé að búa til 1.500 eintök.

Tvö önnur spil Óla Gneista hafa einnig selst vel og fleiri eru á leiðinni að hans sögn.