[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
* Helena Sverrisdóttir , landsliðskona í körfuknattleik og lykilmaður Íslands- og bikarmeistara Vals, kveðst leika á ný með liðinu frá byrjun janúar en hún hefur misst af síðustu leikjum Valskvenna.

* Helena Sverrisdóttir , landsliðskona í körfuknattleik og lykilmaður Íslands- og bikarmeistara Vals, kveðst leika á ný með liðinu frá byrjun janúar en hún hefur misst af síðustu leikjum Valskvenna. Helena skýrði frá þessu á samfélagsmiðlum og kvaðst þar vilja „hreinsa upp málin fyrir slúðurbera, þáttastjórnendur og aðra,“ og taka fram að hún væri ekki á leið í eða úr aðgerð og sé ekki ólétt. Helena verður ekki með Val í lokaumferð ársins í Dominos-deild kvenna í kvöld þegar Hlíðarendaliðið tekur á móti hennar gamla félagi, Haukum.

*Hollenski miðjumaðurin Giorgino Wijnaldum leikur ekki með Liverpool í dag þegar liðið mætir Monterrey frá Mexíkó í undanúrslitum heimsbikars félagsliða í fótbolta í Doha í Katar. Wijnaldum glímir við meiðsli aftan í læri og tilkynnt var í gær að hann væri ekki leikfær. Vegna meiðsla í hópnum hefur Jürgen Klopp bætt þremur leikmönnum við fyrir seinni leikinn í Katar á sunnudaginn þegar liðið leikur um gull eða brons. Þeir Sepp van den Berg, Ki-Jana Hoever og Harvey Elliott léku með Liverpool gegn Aston Villa í deildabikarnum í gærkvöld en héldu síðan af stað til móts við aðalliðið í Doha.

*Ekki er ljóst hvort Gylfi Þór Sigurðsson spilar með Everton gegn Leicester í enska deildabikarnum í fótbolta í kvöld. Hann missti af leiknum við Manchester United á sunnudaginn vegna veikinda og Duncan Ferguson bráðabirgðastjóri Everton sagðist vonast eftir því að Gylfi gæti spilað en það myndi ekki skýrast fyrr en á síðustu stundu.

* Elvar Már Friðriksson hélt góðri spilamennsku sinni í sænsku úrvalsdeildinni í körfubolta áfram í gær. Hann skoraði 10 stig, gaf 9 stoðsendingar og tók 3 fráköst fyrir Borås í 83:73-útisigri á Norrköping. Borås hefur unnið fjóra leiki í röð og er í toppsætinu með 26 stig eftir 16 leiki. Elvar hefur skorað 17 stig og gefið 8 stoðsendingar að meðaltali í vetur.

* Arnari Gunnarssyni hefur verið sagt upp störfum hjá þýska handboltafélaginu Krefeld. Arnar tók við þjálfun Krefeld fyrir tímabilið, en gat aðeins einu sinni fagnað sigri í sextán leikjum í B-deildinni.

*Þýska knattspyrnufélagið RB Leipzig staðfesti við Kicker í gær að það hefði gert Erling Haaland, hinum 19 ára gamla markaskorara Salzburg í Austurríki, tilboð. Íþróttastjóri félagsins, Markus Krosche , sagði að nú vissi Haaland hvað væri í boði hjá Leipzig og hvaða hlutverk honum sé ætlað í liðinu, og boltinn sé hjá honum. Haaland hefur verið sterklega orðaður við Manchester United en hann hefur skorað 28 mörk í 22 leikjum fyrir Salzburg á árinu, átta þeirra í Meistaradeild Evrópu.