Var Eimskip gert að greiða 50 milljón króna stjórnvaldssekt vegna brotsins.

Á mánudaginn féll dómur Hæstaréttar í máli nr. 40/2019 (Eimskipafélag Íslands hf. gegn Fjármálaeftirlitinu og íslenska ríkinu). Málið varðaði kröfu Eimskips um ógildingu á ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 8. mars. 2017 um að félagið hefði brotið gegn 1. mgr. 122. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti (vvl.) með því að hafa ekki birt afkomuviðvörun í tengslum við birtingu á afkomu félagsins á fyrsta ársfjórðungi 2016. Var Eimskip gert að greiða 50 milljón króna stjórnvaldssekt vegna brotsins. Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins var staðfest bæði af héraðsdómi og Landsrétti. Þar sem talið var að dómur í málinu kynni að hafa fordæmisgildi, hvað varðar skýringu á innherjaupplýsingum og hvenær upplýsingaskylda samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti myndast, var veitt áfrýjunarleyfi fyrir Hæstarétti. Að lokum var ákvörðun Fjármálaeftirlitsins endanlega staðfest með dómi Hæstaréttar síðastliðinn mánudag.

Málsatvik voru í stuttu máli þau að árshlutauppgjör Eimskips fyrir fyrsta ársfjórðung ársins 2016 lá fyrir í meginatriðum hinn 20. maí 2016. Ljóst var að rekstrarafkoma fjórðungsins var töluvert betri en árið áður en EBITDA félagsins jókst um 66,5% á milli ára. Þó hafði komið fram í tilkynningum félagsins að fyrsti ársfjórðungur ársins áður hefði verið óvenju slæmur, m.a. vegna aðstæðna í Noregi. Þá hækkaði Eimskip EBITDA spá fyrir árið úr 46-50 milljónum evra í 49-53 milljónir evra samhliða endanlegri birtingu uppgjörsins hinn 26. maí 2016. Samkvæmt málsástæðum Eimskips í málinu má þó rekja hækkun afkomuspárinnar fyrst og fremst til afkomu aprílmánaðar og þróunar í maímánuði, sem kynnt var á stjórnarfundi félagsins hinn 26. maí 2016, fremur en til rekstrarbata á fyrsta ársfjórðungi á milli ára.

Ljóst er að sú túlkun sem fram kemur á 1. mgr. 122. gr. vvl. í dómi Hæstaréttar er nokkuð ströng og markar skráðum hlutafélögum þröngt svigrúm varðandi töku ákvarðana um það hvort birta skuli afkomuviðvörun. Almennt hefur verið talið að afkoma tiltekinna fjórðunga, samanborið við fyrra ár, gefi ekki sérstakt tilefni til afkomuviðvarana svo lengi sem endanleg afkoma ársins verði nokkurn veginn innan ramma afkomuspár sem birt hefur verið á markaði. Þá hefur jafnframt verið álitamál hversu miklar breytingar afkomuspár þurfi að vera til þess að birta þurfi afkomuviðvörun í tengslum við slíkar breytingar. Í tilviki Eimskips voru breytingar á vikmörkun útgefinnar afkomuspár 6-6,5% en oft þurfa ekki miklar breytingar í rekstri að eiga sér stað til þess að slíkar sveiflur verði á afkomu og þá sérstaklega svo snemma árs. Í dómi Hæstaréttar virðist þó einblínt á bætta rekstrarafkomu félagsins á fyrsta ársfjórðungi 2016 frekar en breytingu á afkomuspá félagsins og virðist þá hafa verið lagt til grundvallar að breyting afkomuspárinnar hafi byggt á rekstrartölum úr apríl- og maímánuði líkt og félagið hafði haldið fram við rekstur málsins.

Annað sem vekur athygli í dómi Hæstaréttar er að fram kemur að Eimskip hafi borið að birta upplýsingar um bætta rekstrarafkomu á fyrsta ársfjórðungi þegar þær lágu fyrir hinn 20. maí 2016 eða fresta birtingu þeirra. Almennt hefur ekki verið talið heimilt að fresta birtingu fjárhagsupplýsinga, sem teljast til innherjaupplýsinga, þar sem ekki hefur verið talið að skilyrði frestunar skv. 4. mgr. 122. gr. vvl. séu uppfyllt í þeim tilfellum. Þannig hafa útgefendur almennt ekki talið stætt að fresta birtingu innherjaupplýsinga í slíkum tilfellum.

Það er mikilvægt að skýrar reglur gildi um upplýsingaskyldu útgefenda fjármálagerninga til þess að tryggja jafnræði fjárfesta og virka verðmyndun á hlutabréfamarkaði. Það er samt mikilvægt að útgefendum hér á landi verði ekki of þröngur stakkur sniðinn þegar kemur að upplýsingaskyldu enda kynnu strangari reglur og strangari framkvæmd þeirra að skaða samkeppnishæfni íslensks hlutabréfamarkaðar og fækka þeim fyrirtækjum sem vilja skrá sig á markað. Mörg skráð félög hérlendis eru í alþjóðlegri samkeppni við erlend skráð félög á EES-svæðinu og væri því eðlilegt að regluverk um upplýsingagjöf og framkvæmd þess væri sem samræmdast.