Ingibjörg Guðrún Gunnlaugsdóttir fæddist í Ólafsfirði 6. september 1923. Hún lést á dvalarheimilinu Grund í Reykjavík 7. desember 2019.

Foreldrar Ingibjargar voru Gunnlaugur Friðfinnsson vélstjóri, f. 20.9. 1894, d. 19.2. 1927, og Gunnhildur Gunnlaugsdóttir húsfreyja, f. 10.5. 1902, d. 16.7. 1972. Stjúpfaðir Ingibjargar var Sigursveinn Árnason, f. 8.8. 1903, d. 13.10. 1980. Ingibjörg átti eina alsystur, Önnu, f. 15.3. 1926, d. 29.11. 2011, og einn bróður sammæðra, Gunnlaug Sigursveinsson, f. 22.12. 1929, d. 22.11. 1967.

Ingibjörg giftist 4.12. 1943 Haraldi Kr. Jóhannssyni sölustjóra, f. 16.1. 1921, d. 6.9. 2004.

Ingibjörg og Haraldur bjuggu fyrstu árin á Laugavegi 101 en frá árinu 1953 í Hólmgarði 66. Ingibjörg fluttist á Grund í byrjun árs 2018. Ingibjörg og Haraldur eignuðust þrjá syni: 1) Jóhann Ævar, f. 24.12. 1941, d. 25.8. 1958. 2) Þorvaldur Rafn tannsmið, f. 4.8. 1947, d. 27.5. 1981. Hann var kvæntur Kolbrúnu Jarlsdóttur, f. 30.1. 1955. Sonur þeirra er Ævar Jarl, smiður, f. 4.12. 1980. Ævar Jarl er kvæntur Tinnu Rós, f. 18.7. 1980, og eiga þau Diljá, f. 14.9. 2008 og Þorleif Ara, f. 10.5. 2014. Þorvaldur Rafn eignaðist áður Sunnu Björgu hugbúnaðarsérfræðing, f. 11.11. 1968 , sonur hennar er Gabríel Mikko f. 16.5. 2008. 3) Haraldur Kristófer byggingatæknifræðingur, f. 16.9. 1957. Haraldur er kvæntur Guðnýju Soffíu Marinósdóttur kennara, f. 26.3. 1961. Börn þeirra eru a) Arna endurskoðandi, f. 19.5. 1983, í sambúð með Hilmari Agli Jónssyni, f. 22.9. 1978, og eiga þau Elfu Ísold, f. 9.6. 2013, og Skírni Örn f. 26.5. 2017. b) Elfur, sölumaður, f. 8.2. 1985, hennar sonur er Ólíver Blær, f. 12.8. 2005. c) Rafn Andri verkfræðingur, f. 10.4. 1989, í sambúð með Jessicu Vanessu Sotelo, f. 27.8. 1987. d) Hlynur, f. 4.9. 1992.

Ingibjörg bjó í Ólafsfirði þar til hún fluttist suður árið 1943.

Ung starfaði Ingibjörg á símstöðinni í Ólafsfirði. Í Reykjavík vann hún utan heimilis í tæp 20 ár, fyrst í Saumaverksmiðjunni Dúki í Skeifunni og síðar á saumastofu Landakotsspítala. Eftir starfslok gætti hún meðal annars barnabarnanna á Langholtsveginum. Ingibjörg hafði mikla unun af því að prjóna og var hún enn að orðin 96 ára gömul. Prjónaskap Ingibjargar mátti meðal annars finna hjá Handprjónasambandinu. Ingibjörg og Haraldur voru lengi í framvarðasveit Eyfirðingafélagsins í Reykjavík.

Úför hennar fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 18. desember 2019, klukkan 15.

Elsku amma Inga. Í dag erum við þakklát fyrir allar góðu minningarnar sem við eigum um þig. Þú sagðir okkur margar sögur og varst alltaf svo stolt af þínu fólki. Þegar við töluðum saman fengum við fréttir af hinum og þessum og skákaðir þú okkur öllum hvað minni varðaði, orðin 96 ára gömul.

Þú varst svo myndarleg með prjónana og sást til þess að okkur öllum ásamt vinum og vandamönnum væri alltaf hlýtt á höndum og fótum. Hvert einasta smábarn í kringum okkur fékk fallega sokka með stjörnumynstri frá þér. Hlógum við mikið þegar þú rifjaðir upp nýlega að þú hafir enn verið í „bisness“ seinasta vetur þegar þú seldir sokka og vettlinga á basarnum á Grund.

Við systkinin fórum oft með þér og afa í Rjóður þegar við vorum yngri og þótti okkur gaman að fara með þér í lautarferð og upp á Skolla. Þú útbjóst nesti fyrir okkur og völdum við okkur hvert sína lautina sem við heimsóttum þegar komið var í Rjóður. Karamellukakan sem þú bakaðir er í miklu uppáhaldi og var í hverju afmæli. Þá reyndi maður iðulega að ná endasneiðinni með mestu karamellunni og svo að skafa karamelluna af hliðunum. Við bökuðum karamelluköku í dag, þér til heiðurs.

Þegar við komum til þín og afa í Hólmgarðinn varstu yfirleitt klár með pönnsur eða annað góðgæti handa okkur. Fyrir stuttu rifjuðum við það upp þegar þú komst til okkar á Langholtsveginn með kjötbollur í krukku að heiman og þú hlóst mikið þegar þá kom upp í hugann eitt skiptið þegar þú labbaðir alla leiðina til okkar með fullan súpupottinn í fanginu.

Þú hafðir svo gaman af því að hitta langömmubörnin þín og fá fréttir af þeim inn á milli. Elfa Ísold og Skírnir komu með mikið fjör inn á herbergi til þín og í matsalinn á Grund þegar við fórum með þér í kaffi. Þegar Ólíver kom í heimsókn varstu alltaf jafn hissa á hve mikið hann hefði stækkað og vissi Elfur ekki hvaðan á sig stóð veðrið þegar þú tilkynntir henni hlæjandi að hún byggi nú með manni og áttirðu þá við Ólíver.

Þú varst kletturinn hans afa og höfðuð þið upplifað mikinn missi saman.

Hlýjan frá þér leyndi sér ekki og alltaf varstu kát og glöð í samskiptum. Þú nefndir það fyrir ekki svo löngu hversu frábært þér þætti að við fjölskyldan værum dugleg að hittast og munum við halda því áfram. Að missa þig eru mikil viðbrigði fyrir pabba en við systkinin, mamma og afabörnin munum halda utan um hann og styðja.

Hvíldu í friði, elsku amma Inga, við söknum þín.

Þín ömmubörn

Arna, Elfur, Rafn Andri

og Hlynur.

Í minningu mágkonu okkar Ingibjargar G. Gunnlaugsdóttur er margs að minnast frá liðnum árum.

Glæsileg kona alla tíð. Hún giftist bróður okkar Haraldi Kr. Jóhannssyni 6. september 1943.

Ingibjörg og Haraldur hófu búskap í Reykjavík á Laugavegi 101. Heimili þeirra varð fljótlega fjölsótt af vinum og vandamönnum.

Við systkinin áttum ætið athvarf þar á bæ, er við tókum að tínast til Reykjavíkur í skóla og til annarra starfa.

Ingibjörg vann mikið að félagsmálum, var virkur félagi í Eyfirðingafélaginu í mörg ár. Stóð við hlið manns síns í Oddfellowreglunni og fleiri félögum.

Viðmót Ingibjargar var ætíð ljúft og allt vildi hún fyrir okkur gera og leiðbeina.

Við systkini Haraldar kunnum Ingibjörgu G. Gunnlaugsdóttur mágkonu okkar þakkir fyrir liðnu árin og kveðjum hana með söknuði þá ferð hennar hefst er stjörnur lýsa bláan geiminn, að grænum grundum, að vötnunum þar sem sálin hvílist.

Samúðarkveðjur til sonar og afkomenda,

Heimir Brynjúlfur Jóhannsson og fjölskyldur,

Sigríður Hafdís Jóhannsdóttir og fjölskyldur.