Hans Óttar Lindberg
Hans Óttar Lindberg — Morgunblaðið/Golli
Hinn íslenskættaði Hans Óttar Lindberg er elstur og reyndastur í 19 manna landsliðshópi Dana sem Nikolaj Jacobsen landsliðsþjálfari tilkynnti í gær fyrir Evrópukeppnina í næsta mánuði.

Hinn íslenskættaði Hans Óttar Lindberg er elstur og reyndastur í 19 manna landsliðshópi Dana sem Nikolaj Jacobsen landsliðsþjálfari tilkynnti í gær fyrir Evrópukeppnina í næsta mánuði. Heimsmeistaralið Danmerkur mætir Íslandi í fyrstu umferð riðlakeppninnar í Malmö í Svíþjóð laugardaginn 11. janúar.

Hornamaðurinn Hans Óttar, sem á íslenska foreldra, er orðinn 38 ára gamall og hefur leikið með landsliðinu í sextán ár þar sem hann hefur orðið heims- og Evrópumeistari. Hann missti hinsvegar af Ólympíuleikunum 2016 þegar Danir fengu gull undir stjórn Guðmundar Þ. Guðmundssonar. Hans er orðinn næstleikjahæsti landsliðsmaður Dana frá upphafi og sá fimmti markahæsti en hann hefur spilað 265 landsleiki og skorað í þeim 743 mörk.

Hans Óttar hefur leikið með Füchse Berlín í Þýskalandi frá 2016 og er samningsbundinn félaginu til 2021. Hann hefur spilað í Þýskalandi frá 2007 og lék fyrstu níu árin þar með Hamburg. vs@mbl.is