Ása Bjarnadóttir fæddist 10. ágúst 1927. Hún lést 30. nóvember 2019.

Útförin fór fram 13. desember 2019.

Elsku amma mín. Það er skrýtin og óraunveruleg tilfinning að sitja og skrifa kveðjuorð til þín, þú sem hefur verið risastór partur af mínu lífi síðan ég man eftir mér.

Allir sem þekkja fjölskylduna og þekktu þig vissu að ég átti hörðustu og svölustu ömmu í heiminum.

Óeigingjarnari og tryggari manneskju hef ég aldrei kynnst, fjölskyldan var alltaf númer eitt og þú varst dyggasti stuðningsmaðurinn okkar allra alveg til enda. Það kemur því engum á óvart að pabbi er alveg eins tryggur og traustur og þú en hann var eins og óhaggandi klettur þér við hlið alveg til endaloka.

Þetta hefur ekki verið auðvelt líf þegar þú varst ein með tvo stráka á sínum tíma. Lífsbaráttan var harkaleg en þú gast þetta og vel það. Þvílíkur nagli sem þú varst elsku amma mín og fyrirmynd fyrir mig í dag.

Ég er þakklát fyrir minningarnar og tilfinningarnar sem fylgja þeim. Ég fann alltaf að ég gat treyst þér og að alveg sama hvað, þá værirðu með mér í liði.

Ég man hlýjuna þegar við sátum bara tvær í Þórufellinu og vorum að horfa á sjónvarp eða spjalla saman. Ég man hvað mér leið vel með þér, við skildum hvor aðra á einhvern sérstakan hátt og það var einstök tilfinning sem ég tengi ekki við neinn annan en þig.

Það kom mér því skemmtilega á óvart (en samt ekki) þegar pabbi talaði um það hvað við værum líkar, með sama svarta húmorinn og karaktereinkenni. Ég er þakklát fyrir það því nú veit ég að þú býrð í mér alltaf.

Alzheimerinn setti strik í lífs-reikninginn eins og við var að búast. Ég viðurkenni alveg að ég hræddist stundum að hitta þig því mér fannst erfitt að þú gætir mögulega ekki munað eftir mér.

En ég man líka hvað mér hlýnaði þegar þú horfðir á mig og sagðir: „Nei, ert þetta þú, Erla mín!“

Ég elska þig og sakna mikið og þakka þér dýpst úr hjartarótum fyrir allt það sem þú gafst og kenndir mér.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi,

hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.

Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi,

og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.

(Ingibj. Sig.)

Þín

Erla Stefánsdóttir.