Ólafur Stefánsson hefur sett þetta skemmtilega og bjartsýna ljóð, Nauðþurftarhyggja og mínimalismi“, á vefinn: Aldrei framar opna flösku, ekki væti þurran góm. Heldur sit í sekk og ösku, sífrandi' yfir lekum skóm.

Ólafur Stefánsson hefur sett þetta skemmtilega og bjartsýna ljóð, Nauðþurftarhyggja og mínimalismi“, á vefinn:

Aldrei framar opna flösku,

ekki væti þurran góm.

Heldur sit í sekk og ösku,

sífrandi' yfir lekum skóm.

Iðinn ruslið áfram flokka,

ekki snæði meira kjöt,

Hjóla yfir steina' og stokka,

stoppa þægur sokkagöt.

Hætti við að horfa' á bolta,

hokinn geng ég stíft á fjöll.

Held svo munni, hvíli skolta,

hugsa' um lífsins skakkaföll.

Tóbaksnautn svo niðurtrappi,

nægja læt mér vindilstúf.

Netflix forðast, neita appi,

nóg er að hafa gamla Rúv.

Ekki fleiri eiga krakka,

alltof þröngt er hér á jörð.

Nýti snjáðan nankinsjakka,

nota ekki loðskinnsbörð.

Þannig lötra lífsins göngu,

laus við nautn og óhóf mest.

Reyni að gera allt úr öngu,

og enda dauður fyrir rest.

Pétur Stefánsson yrkir á Boðnarmiði – en er fullhógvær að minni hyggju:

Margir eru mótgangsbyrir

margt sem byrgir gleðisýn.

Aldrei verð ég frægur fyrir

ferskeytlur og ljóðin mín.

Það styttist í jólin segir Guðmundur Arnfinnsson:

Dimm er nótt í desember,

dauft er líf í sveitum,

horfin sumarsólin er,

en sárabót ég veit um:

Hátíð, eins og hún er vön,

hér er nú í vændum,

hrútar fara að fýla grön,

og fiðringur í bændum.

Á dögunum dró Gylfi Þorkelsson upp þessa vetrarmynd, sem við þekkjum mörg:

Nú er fönn á Fróni,

freðin jörð.

Klakaklárinn Skjóni

krafsar börð.

Páll Jónsson skáldi orti:

Hnossin geymum þessi þrenn

– það ríður á að muna –

frið við guð og frið við menn

og frið við samviskuna.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is