Sverrir Ólafsson
Sverrir Ólafsson
Eftir Sverri Ólafsson: "Vonandi skilja ráðamenn innan orkugeirans sem og þjóðkjörnir handhafar framkvæmdavaldsins fljótlega að ísing hleðst ekki utan á jarðstrengi."

Nú hefur enn eitt illviðrið skollið á landinu og valdið ýmiss konar usla og tjóni, jafnvel hörmulegu manntjóni. Engum ætti að koma illviðri af þessu tagi á óvart. Það er nánast árvisst.

Dreifikerfi rafmagns hefur orðið illa fyrir barðinu á þessu veðri, aðallega norðanlands þar sem veðrið var verst. Ljóst má vera að dreifikerfið, sem aðallega byggist á loftlínum, er engan veginn í stakk búið til að þola það álag, er ísing hleðst á línurnar og sligar þær. Fyrir þessu er margra ára reynsla og er óumdeilt.

Það ætti að vera hverjum heilvita manni ljóst að jarðstrengir eru mun öruggari til orkudreifingar í því veðurfari, sem ríkir á landinu. Svo einkennilegt sem það er hafa talsmenn orkugeirans verið andsnúnir jarðstrengjum aðallega með þeim rökum að jarðstrengir séu dýrari og tæknilega erfiðari í lagningu og rekstri. Sé einhver munur hér á er hann þó næsta óverulegur og eins víst að jarðstrengir séu hagstæðari ef allt er talið með svo sem umhverfiskostnaður, rekstursöryggi, óvæntur viðgerðarkostnaður, tafakostnaður og kostnaður við málaferli í því skyni að þvinga loftlínur upp á landeigendur og sveitarfélög, sem kæra sig ekkert um þær.

Dæmi hér um er Suðurnesjalína 2 þar sem Landsnet hefur farið með offorsi, slökum undirbúningi og ómældum kostnaði gegn landeigendum á Suðurnesjum, sem halda til streitu lögvörðum og stjórnarskrárvörðum eignarréttindum sínum og í krafti þeirra haft sigur yfir orkugeiranum fyrir dómstólum.

Nú heyrist úr herbúðum orkugeirans að óskilvirkt leyfisveitingakerfi tefji fyrir því að dreifingu orkunnar verði komið í lag. Þetta er auðvitað fjarri sanni og aðeins enn ein tilraunin til að afsaka og útskýra slök vinnubrögð á undanförnum árum og áratugum í þessu efni.

Væri Landsnet tilbúið að leggja Suðurnesjalínu 2 í jörð meðfram Reykjanesbrautinni væri hægt að semja um það mál á nokkrum klukkutímum. Karp um þessa línu hefur nú staðið í nokkur ár og ekkert miðað. Hver lögsóknin hefur tekið við af annarri. Hér er auðvitað fyrst og fremst furðulegri þvermóðsku og þröngsýni Landsnets um að kenna sem að því er virðist hefur gengist upp í því að berja hausnum við steininn í trássi við skynsamlegar óskir landeigenda og sveitarfélaga á svæðinu.

Reyndar hafa talsmenn orkugeirans kallað eftir víðtækari stuðningi yfirvalda við að leggja raflínur í jörð. Það hefur litlar undirtektir fengið enda ætti þess kannski ekki að þurfa því kostirnir tala fyrir sig sjálfir. Það segir sig líka sjálft, að rekstursöryggi skiptir höfuðmáli og vonandi skilja ráðamenn innan orkugeirans sem og þjóðkjörnir handhafar framkvæmdavaldsins fljótlega að ísing hleðst ekki utan á jarðstrengi. Menn virðast þó almennt vera komnir á þá skoðun að raflínur á lægri spennustigum sé hagkvæmara að hafa neðanjarðar. Enn er þumbast við um stóriðjulínur. Þær ættu auðvitað að vera neðanjarðar líka ekki sízt af umhverfis- og öryggisástæðum. Að rafmagn úr loftlínum hérlendis sé auðstýranlegra en frá jarðstrengjum er ekki sérlega trúverðugt. Sé svo þarf að finna lausn ná því. Jarðstrengir á hærri spennustigum eru reknir vítt um lönd vandræðalaust.

Furðulegar röksemdarfærslur heyrast frá talsmönnum orkugeirans sem rök gegn jarðstrengjum svo sem að jarðstrengir kalli fram meiri umhverfisáhrif en loftlínur. Hverjum heilvita og hugsandi manni ætti að vera ljóst að þetta er hin mesta fjarstæða. Það grær fljótt yfir skurðina eftir að mokað hefur verið ofan í þá og þeir hverfa ásamt ummerkjum um framkvæmdir. Dæmin sanna það. Jafnvel í hraunum er gamburmosinn fljótur að fela framkvæmdarask. Svo er heldur ekki hraun alls staðar.

Það hefur líka heyrzt, að menn vilji ekki fá jarðstrengi yfir lönd sín. Einhver slík eintök kunna að finnast en þau eru áreiðanlega fá. Með skynsamlegum fortölum ætti að mega sannfæra þverhausa um hina augljósu kosti jarðstrengja umfram loftlínur. Það er að segja ef það er talsmönnum orkugeirans þóknanlegt.

En niðurstaðan má ljós vera. Orkugeirinn hlýtur að bera ábyrgð á ástandi dreifikerfis raforku á landinu. Fram hefur komið að ekki skortir fé til þessa málaflokks heldur er ástandið slæmt vegna þvermóðsku forsvarsmanna, sem haldið hafa til streitu óraunhæfum lausnum í trássi við heilbrigða skynsemi og vilja hins almenna notanda. Talsmenn orkugeirans ættu að líta í eigin barm, breyta um vinnubrögð og áherzlur í stað þess að kenna óskilvirku leyfisveitingakerfi um óboðlegt ástand í dreifingu orku á landsbyggðinni. Þjóðkjörnir handhafar framkvæmdavaldsins ættu síðan að krefja forsvarsmenn orkugeirans um bætt og breytt vinnubrögð í þessu efni og beita síðan öllum tiltækum aðhaldsráðum til að tryggja að nauðsynlegum árangri verði náð.

Höfundur er viðskiptafræðingur. sverrirolafs@simnet.is