Norðurfjörður Þak fór af viðbyggingu en milliloftið er óskemmt.
Norðurfjörður Þak fór af viðbyggingu en milliloftið er óskemmt. — Ljósmynd/Halldór Halldórsson
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Betur virðist hafa farið en útlit var fyrir þegar þakið fauk af skála Ferðafélags Íslands á Valgeirsstöðum í Norðurfirði í Ströndum í óveðrinu í síðustu viku.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Betur virðist hafa farið en útlit var fyrir þegar þakið fauk af skála Ferðafélags Íslands á Valgeirsstöðum í Norðurfirði í Ströndum í óveðrinu í síðustu viku. Þekjan af viðbyggingu vestan við húsið fór af, en milliloft er óskemmt. Allt innandyra er óbrotið og snjór og raki hafa ekki komist inn, en óttast var í fyrstu að flest í húsinu hefði skemmst í þessari gjörningahríð.

Ágætlega tryggt

„Okkur er létt að vita að skemmdir séu ekki meiri og að milliloftið hafi ekki farið. Eigi að síður er þetta verulegt tjón og þá er bót í máli að við erum ágætlega tryggð. Núna hefur aðeins hlýnað fyrir norðan svo raki nær inn í húsið og því höfum við áhyggjur af,“ segir Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri FÍ, í samtali við Morgunblaðið.

„Viðgerðaflokkur er í startholum og er tilbúinn að fara á svæðið þegar landleiðin í Árneshrepp, sem nú er ófær, verður opnuð. Núna erum við að kanna færar leiðir í stöðunni. Meðan landleiðin er lokuð kemur til greina að fara sjóleiðina í Norðurfjörð frá Hólmavík eða taka flug. Við erum bara að meta stöðuna,“ segir Páll og ennfremur:

Í óveðrinu eyðilagðist rafmagnstaflan í húsinu á Valgeirsstöðum svo enginn straumur er á því núna. Páll segir að því þurfi að sameina krafta margra iðnaðarmanna úr ýmsum greinum þegar viðgerðarliðið nær á staðinn. Mikilvægt sé þá ef hægt er að ljúka fullnaðarviðgerð á byggingunni strax.