Tölur frá Hagstofunni benda til þess að opinberum launþegum hafi fjölgað.
Tölur frá Hagstofunni benda til þess að opinberum launþegum hafi fjölgað. — Morgunblaðið/Eggert
Pétur Hreinsson peturh@mbl.is Samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands benda gögn til þess að opinberum starfsmönnum sé að fjölga á sama tíma og einkageirinn dregst saman.

Tölur Hagstofu Íslands um fjölda launþega í landinu benda til þess að launþegum hins opinbera sé að fjölga á meðan fækkað hefur á almennum vinnumarkaði samkvæmt upplýsingum stofnunarinnar. Fjöldi launþega í öllum atvinnugreinum á landinu hefur dregist saman um 1,8% sé októbermánuður árið 2019 borinn saman við október 2018 samkvæmt tölum frá Hagstofunni en gögn stofnunarinnar byggjast á staðgreiðslukerfi ríkisskattsjóra. Sé litið á flokk Hagstofunnar, sem nær til fræðslustarfsemi og opinberrar stjórnsýslu, og þann flokk sem nær til heilbrigðis- og félagsþjónustu, sem eru báðir einkennandi fyrir opinbera geirann, sést að fjölgun launþega í þessum tveimur flokkum nemur 4,1% annars vegar og 4,2% hins vegar.

Sé litið til viðskiptahagkerfisins, sem er einn mælikvarði Hagstofunnar á heildarfjölda starfa í einkageiranum, sést að samdrátturinn nemur 4,4%, en samkvæmt skilgreiningu eru áðurnefndir tveir flokkar, auk fyrirtækja í landbúnaði, ekki taldir með í tölum um viðskiptahagkerfið. Aðrar tölur um þessi mál sem Hagstofan birtir benda einnig í sömu átt.

Ekki hagrætt með sama hætti

Að sögn Halldórs Benjamíns Þorbergssonar, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, renna áðurnefndar tölur stoðum undir þann grun sem samtökin hafa haft. „Það er mikil hagræðing að eiga sér stað í íslensku atvinnulífi sem er sársaukafull á meðan á henni stendur en á sama tíma virðist sem hið opinbera sé ekki að hagræða með sama hætti. Það er áhyggjuefni fyrir okkur öll,“ segir Halldór.

Hann segir að opinberi geirinn þurfi að endurspegla undirliggjandi gang hagkerfisins þar sem ekki sé sjálfbært að hið opinbera haldi áfram að vaxa á sama tíma og einkageirinn dregst saman. Að sama skapi sé það áhyggjuefni og veki furðu að enn sé ósamið á vinnumarkaði við meginþorra opinberra starfsmanna þar sem kjarasamningar á almennum vinnumarkaði voru undirritaðir í apríl.