Ísfell er gamalgróið og öflugt þjónustufyrirtæki við sjávarútveginn.
Ísfell er gamalgróið og öflugt þjónustufyrirtæki við sjávarútveginn. — Morgunblaðið/Eggert
Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Norska félagið Selstad Holding AS mun eignast meirihluta í Ísfelli á nýju ári. Félagið hefur verið minnihlutaeigandi um langt árabil.

Norska eignarhaldsfélagið Selstad Holding AS mun eignast meirihluta í veiðarfæraframleiðandanum Ísfelli í byrjun næsta árs. Um það hefur tekist samkomulag milli fyrirtækisins og Péturs Björnssonar sem nú fer með 57% hlut í fyrirtækinu. Selstad hefur um langt árabil verið í eigendahópi Ísfells og heldur nú á 43% hlut í fyrirtækinu. Selstad Holding AS er einnig eigandi að norska veiðarfæraframleiðandanum Selstad AS sem m.a. þróar hið byltingarkennda STREAMLINE-troll sem Ísfell hefur markaðssett hér á landi. Heimildir ViðskiptaMoggans herma að Selstad Holding AS verði ekki eini eigandi Ísfells að loknum eigendabreytingunum. Þannig mun Guðbjartur Þórarinsson, framkvæmdastjóri félagsins, einnig koma inn í eigendahópinn. Þrátt fyrir að Pétur Björgvinsson hverfi úr eigendahópi fyrirtækisins er fastlega gert ráð fyrir því að hann muni áfram gegna stjórnarformennsku í fyrirtækinu.

Ásamt Pétri sitja nú í stjórninni þau Marta Eiríksdóttir, Benedikt Sveinsson auk feðginanna Hans-Petter Selstad og Marit Selstad.

Rekstur Ísfells hefur farið versnandi á síðustu árum. Í fyrra nam hagnaður fyrirtækisins 2,9 milljónum króna samanborið við 10 milljónir árið áður. Árið 2016 nam hagnaðurinn rúmum 23 milljónum en árið 2015 var hagnaðurinn rúm 271 milljón króna. Velta félagsins hefur haldist nærri þremur milljörðum króna öll fyrrnefnd rekstrarár.