„Ef það hægir mjög á hagkerfinu, og ég óttast persónulega að áhættan sé frekar niður á við með versnandi efnahagshorfum en hitt, þá á ríkið að bregðast við með því að setja kraft í innviðafjárfestingu.“
„Ef það hægir mjög á hagkerfinu, og ég óttast persónulega að áhættan sé frekar niður á við með versnandi efnahagshorfum en hitt, þá á ríkið að bregðast við með því að setja kraft í innviðafjárfestingu.“ — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Á föstudag verða fjórir mánuðir liðnir frá því að Ásgeir Jónsson tók við lyklavöldum í Svörtuloftum. Frá þeim tíma hefur peningastefnunefnd Seðlabankans þrívegis lækkað vexti. Þeir eru nú í sögulegu lágmarki en stórar áskoranir bíða nýja bankastjórans. Hagkerfið stendur á krossgötum og Seðlabankinn mun gegna lykilhlutverki í að leiða íslenskt samfélag upp úr niðursveiflu sem nýlega hefur tekið við af sjö ára uppgangi.

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Á föstudag verða fjórir mánuðir liðnir frá því að Ásgeir Jónsson tók við lyklavöldum í Svörtuloftum. Frá þeim tíma hefur peningastefnunefnd Seðlabankans þrívegis lækkað vexti. Þeir eru nú í sögulegu lágmarki en stórar áskoranir bíða nýja bankastjórans. Hagkerfið stendur á krossgötum og Seðlabankinn mun gegna lykilhlutverki í að leiða íslenskt samfélag upp úr niðursveiflu sem nýlega hefur tekið við af sjö ára uppgangi.

Hann tekur sjálfur á móti blaðamanni í anddyri bankans. Formlegheit sem löngum hafa einkennt samskipti við stofnunina eru fokin út í veður og vind. Þau gerðu það ekki í vonskuveðri liðinnar viku. Sennilegra er að Ásgeir Jónsson sem fæddist 1970 sé farinn að setja mark sitt á bankann að þessu leyti eins og ýmsu öðru.

Eftir almennt spjall um landsins gagn og nauðsynjar setjum við okkur í stellingar enda margt sem er nauðsynlegt að bera undir nýjan bankastjóra. En fyrst er rétt að spyrja hvernig staða hagkerfisins horfir við honum nú, þegar hann er horfinn úr starfi fræðimannsins við Háskóla Íslands og orðinn æðsti maður peningamála í landinu.

„Nú hefur tekið að hægja á efnahagsumsvifum. Það hlaut að gerast á einhverjum tímapunkti, enda gengur hagsveiflan upp og niður. Ferðaþjónustan hefur leitt vöxtinn síðustu sjö ár en hefur verið að gefa eftir. Sú þróun hófst raunar áður en WOW varð gjaldþrota og Max-vélar Icelandair voru kyrrsettar. En hækkun gengis krónunnar og launa hefur gert Ísland að dýrum áfangastað sem var farinn að hafa hamlandi áhrif á fjölgun ferðafólks – nokkru áður en flugfélög landsins lentu í hremmingum.

Hins vegar hefur okkur tekist að vinna betur úr þessum breyttu aðstæðum en margir bjuggust við. Meðaleyðsla hvers ferðamanns hefur aukist mikið. Þótt ferðamennirnir séu færri þá skila þeir hver og einn meiri tekjum inn í landið. Auk þess hefur gengið ágætlega í sjávarútveginum þegar litið er til afurðaverðs.

Á sama tíma höfum við fengið heilbrigða aðlögun í efnahagslífinu. Innflutningur hefur dregist saman og það leiðir til þess að við sjáum enn afgang af vöruskiptum við útlönd. Það skiptir miklu í þeirri viðleitni að halda jafnvægi á gjaldeyrismarkaði.“

Bendir hann á að krónan hafi sýnt styrkleika sinn þegar veðrabrigði urðu í hagkerfinu.

„Seðlabankinn er núna með 800 milljarða gjaldeyrisforða. Það hefur skotið nýrri tiltrú undir krónuna. Við sáum það síðastliðinn vetur þegar kjarasamningar voru opnir og vandræði WOW komu upp að krónan gaf lítið eftir. Botninn hvarf ekki undan gjaldmiðlinum eins og oft hefur gerst hérlendis. En það er margreynt lögmál að þegar tiltrú hverfur á gjaldmiðlum þá reyna allir að hlaupa burt með peningana sína. Það hefur ekki gerst.“

Ásgeir segir einnig að það hafi stuðlað að vörslu stöðugleikans að samningar hafi tekist á almennum vinnumarkaði án þess að hleypa af stað hjaðningavígum og höfrungahlaupi.

„Þetta voru hóflegar hækkanir og þær hafa í raun lagt sitt af mörkum við að viðhalda stöðugleika. Nú sjáum við hilla undir fyrstu niðursveifluna frá seinna stríði sem mun ekki koma niður á kaupmætti almennings. Það stafar af því að við höfum náð tökum á verðbólgunni sem lét aðeins á sér kræla eftir samþykkt samninganna og hóflega gengislækkun. Krónurnar í launaumslögum hafa haldið verðmæti sínu. Það hvernig til tókst í þessu tilliti gerir okkur núna kleift að lækka vexti til að örva hagkerfið og skapa ný störf.“

Hagkerfið tekur miklum breytingum

Þótt nýr seðlabankastjóri telji hagkerfið hafa staðist áskoranir ársins 2019 segir hann ljóst að við séum ekki komin fyrir vind. Þannig sé það ekki aðeins hagsveiflan sem hafi áhrif á efnahagslífið. Stærri breytingar séu óhjákvæmilegar á uppbyggingu hagkerfisins og að þær séu nú þegar teknar að koma fram.

„Ég tala í raun um tvenns konar strúktúrvanda í kerfinu sem ég tel að við þurfum að hafa augun á þegar nýtt ár gengur í garð. Í fyrsta lagi held ég að ferðaþjónustan geti ekki haldið áfram að leiða hagvöxtinn líkt og verið hefur síðustu sjö ár. Það gengur ekki til lengdar að fjölga ferðamönnum um nokkur hundruð þúsund milli ára og að það kalli á að flytja þurfi þúsundir erlendra ríkisborgara til landsins til þess að þjónusta þá. Það er hvorki eftirsóknarvert né höfum við innviði til þess. Við þurfum að miða meira við vöxt á grundvelli menntunar og mannauðs.

Í öðru lagi erum við að sjá miklar breytingar í fjármálakerfinu. Vægi bankanna hefur minnkað verulega og mun halda áfram að gera það. Þeir eru núna háðir innlánafjármögnun. Innlánin eru hins vegar að minnka sem hlutfall af landsframleiðslu. Það sést af því að peningamagn í umferð var um 100% af landsframleiðslu fyrir 10 árum en er nú komið í rúmlega 60%. Bankakerfið hlýtur því að minnka samhliða. Jafnframt liggur fyrir að bankarnir hafa ekki í öllum tilfellum verðlagt útlánaáhættu í samhengi við þær eiginfjárkvaðir sem á þá eru lagðar. það kemur fram í endurverðlagningu á áhættu og í ákveðnum tilvikum eru þeir meðvitað að minnka útlánasöfnin hjá sér.“

Segir Ásgeir að hin breytta staða bankakerfisins komi að auki fram í því sem hann kallar styrkleikaskipti. Nú hafi lífeyrissjóðirnir mun meira vægi en áður og séu í raun orðnir ráðandi aðili á markaðnum.

„Lífeyrissjóðirnir eru að verða yfirgnæfandi á markaðnum. Venjulegur einstaklingur borgar 15 til 20 prósent af launum sínum til lífeyrissjóðanna sem síðan taka fjármagnið til ávöxtunar. Lífeyrissjóðirnir ráðstafa þessum fjármunum með allt öðrum hætti en einstaklingarnir myndu sjálfir gera ef þeir færu með sinn sparnað. Við myndum alltaf spara í gegnum bankakerfið, leggja fjármagnið inn á reikninga eða kaupa hlutabréf þar sem bankar hefðu milligöngu. Lífeyrissjóðirnir gera þetta sjálfir og nota ekki bankana sem millilið. Þetta veldur því að Ísland sem var mjög bankamiðað kerfi er það ekki lengur,“ segir Ásgeir og segir að afleiðing sömu þróunar sé að innlendir markaðir séu að þorna upp.

„Hlutabréfa- og skuldabréfamarkaðirnir eru miklu minni en þeir voru og reyndar gjaldeyrismarkaðurinn einnig. Þetta eru hliðarverkanir af því að fjárfestum hefur mjög fækkað á Íslandi og nokkrir stórir lífeyrissjóðir bera höfuð og herðar yfir fjármálakerfið.“

Harkaleg gagnrýni á vaxtaákvörðun

Í liðinni viku kynnti Seðlabankinn að hann hygðist halda stýrivöxtum óbreyttum fram á nýtt ár. Markaðurinn brást harkalega við fréttinni og greinilegt að margir vonuðust til þess að bankinn tæki vextina niður fyrir 3% fyrir árslok. Samtök atvinnulífsins gengu svo langt að segja ákvörðun nefndarinnar misráðna og neikvæð viðbrögð komu bæði fram á hlutabréfa- og skuldabréfamarkaði.

Svo virðist sem Seðlabankinn hafi ákveðið að staldra við eftir nokkuð hraðan vaxtalækkunarferil á árinu sem nemur 150 punktum. Óttast nefndin að ef lækkanir halda áfram án þess að það hafi tilætluð áhrif að þá verði Seðlabankinn innan skamms búinn að missa vaxtavopnið úr hendi?

„Á þessum tímapunkti töldum við best að bíða og sjá hvaða áhrif fyrri vaxtalækkanir muni hafa. Og þá jafnframt skoðað aðrar leiðir til þess að örva hagkerfið. Það getum við leyft okkur á meðan ekki er útlit fyrir meiri niðursveiflu en við sjáum í kortunum núna. Það er gott að hafa borð fyrir báru. Við erum búin að taka vextina niður um 150 punkta á árinu. Ég hef enga trú á því að raunvextir eigi að vera neikvæðir. Það er ekki hollt. Það sem hefur gerst ytra þar sem vextir hafa farið í 0% er að bönkunum hefur verið gert erfitt um vik að lána. Bankarnir lifa á vaxtamun. Þegar stýrivextir hafa lækkað að ákveðnu marki – og innlánavextir eru komnir í núll – þá geta bankarnir haldið uppi vaxtamun með lækkun innlánavaxta.“

Raunvextir þokast niður á við

En er það lögmál að raunvextir verði að vera 200 punktum hærri en í flestum nágrannalöndum okkar?

„Við höfum verið að færast nær nágrannalöndunum. Raunvextir stýrast hins vegar af djúpum þáttum í hagkerfunum. Þeir tengjast hagvexti, aldursskiptingu þjóðarinnar, sparnaðarstigi og framleiðni fjármagns.“

En hér er enginn hagvöxtur núna .

„Nei ekki núna sem stendur, en að jafnaði er mun meiri hagvöxtur hérlendis en í nágrannalöndunum. Við erum aukinheldur með hæstu fæðingartíðni í Evrópu og með gríðarlega margt ungt fólk. Helmingur þjóðarinnar er yngri en 34 ára. Svo er það hinn mikli flutningur fólks til landsins. Það gerir það að verkum að þetta er hraðvaxtarhagkerfi. Of lágir vextir eru sjúkdómseinkenni og koma yfirleitt fram meðal þjóða sem eru að skreppa saman og eldast og engin þörf fyrir að reisa nýtt húsnæði eða innviði. Það er merki um minnkandi veltu og má ekki vera viðmiðið. Það breytir ekki því að raunvextirnir hafa verið að lækka hjá okkur og við erum að fara að sjá vaxtastigið hér á landi fara niður á áður óþekktar slóðir. Við vorum land með stöðugan viðskiptahalla og söfnuðum skuldum erlendis. Nú er þjóðin á allt öðrum stað hvað varðar sparnað. Að einhverju leyti er það lífeyrissjóðunum að þakka en það eru fleiri atriði sem hafa þar mikil áhrif. Að fara úr því að vera land sem þarf fjármagn að utan og í það að flytja út fjármagn leiðir til þess að vaxtastigið þrýstist niður á við. Langtímavextir munu verða miklu lægri, litið til framtíðar.“

Er þá vaxtalækkunarferlinu lokið?

„Nei, það þarf alls ekki að vera. Ég held að markaðurinn hafi lesið of mikið í þessa ákvörðun peningastefnunefndar. Það að halda vöxtum óbreyttum táknar ekki að lækkunarferlinu sé lokið. Við munum halda áfram að lækka vexti – sé þess þörf. Það gæti gerst vegna þess að hagvaxtarhorfur versni eða verðbólga hjaðni verulega. Við þurfum hins vegar að sjá hvernig ákvarðanir okkar miðlast áfram – og þá að grípa til aðgerða til þess að bæta miðlunina áður en lengra er haldið.“

Yfirlýsing peningastefnunefndar í tengslum við vaxtaákvörðunina að þessu sinni var aðeins 118 orð að lengd og langsamlega efnisminnsta yfirlýsingin sem nefndin hefur sent frá sér þau ellefu ár sem hún hefur starfað. Kann að vera að nefndin hafi ekki skýrt ákvörðun sína nægilega fyrir markaðnum?

„Nei alls ekki. Það er gott að vera stuttorður. En það verður líka að horfa til þess að það hefur lítið gerst milli funda og við gáfum út Peningamál í nóvember þar sem farið var ítarlega yfir stöðuna. Svo má segja að þessi síðasti vaxtaákvörðunarfundur hafi verið næsta óþarfur í ljósi þess að það eru lítil tíðindi frá síðasta fundi og engar upplýsingar sem þurfti að koma sérstaklega á framfæri. Samkvæmt nýjum Seðlabankalögum mun vaxtaákvörðunarfundum fækka úr átta í sex á næsta ári.“

Aðhaldið aukist eða ekki?

Þið segið einmitt í hinni stuttu yfirlýsingu að aðhald peningastefnunnar hafi ekki breyst frá síðasta fundi. Samt hefur krafan á markaði, bæði í óverðtryggðu og verðtryggðu, hækkað og í mælingum kemur fram að verðbólgan er að hjaðna og jafnfram hefur dregið úr verðbólguvæntingum. Er þá ekki beinlínis rangt að halda því fram að taumhaldið hafi ekki breyst?

„Það fer eftir því hvernig á það er litið. Verðbólgan var 2,7% í nóvember – við erum næstum komin að markmiði. Það er mjög gott. Það er dálítið langur vegur frá okkar vöxtum og yfir í langtímavexti, einkum verðtryggða og krafan hefur verið sveiflukennd. Við höfum nú þegar lækkað vexti í sögulegt lágmark og þurfum að hugsa vel næstu leiki. Við erum einnig að sjá í pípunum mjög öfluga örvun í ríkisfjármálunum og við þurfum að sjá hvaða áhrif það mun hafa.

Ákvörðunin var þá í raun biðleikur að þessu sinni?

„Já, í raun.“

Í nóvemberyfirlýsingu peningastefnunefndar sagði að þess væri beðið að vaxtalækkanir myndu miðlast út í kerfið. Er nefndin ekki í of ríkum mæli að horfa á skammtímaraunstýrivextina fremur en að horfa á hvernig þeir miðlast út í markaðsvextina þar sem vextir hafa fremur verið að þokast upp á við heldur en hitt?

„Það fer eftir því hvernig þú lítur á það. Almennt held ég að bankarnir hafi lækkað kjörvextina hjá sér. Á sama tíma virðast þeir vera að hækka vextina á ákveðna aðila sem þeir eru með í viðskiptum. Það virðist eiga sér stað ákveðin endurverðlagning á áhættu.“

En er það ekki svakalegt fyrir Seðlabankann að standa hér í vaxtalækkunum trekk í trekk og á sama tíma séu bankarnir að tosa í þveröfuga átt?

„Það getur kallað á að við lækkum vextina hjá okkur meira til að bregðast við því. Þetta er að vísu erfitt fyrir Seðlabankann að stjórna verðlagningu bankanna á fjármagni. Eitt eru vextirnir sem við setjum, annað er kreditálagið sem leggst á þá. Ef vextir til heimila og fyrirtækja eru að hækka vegna hækkandi vaxtamunar þá gætum við þurft að bregðast við því.“

Fleira í starfsemi bankakerfisins virðist tosa í öfuga átt við aðgerðir Seðlabankans. Þannig eru þeir á bremsunni á útlánahlið starfseminnar sem hægir á hagkerfinu í stað þess að örva það líkt og Seðlabankinn stefnir að. Getur stofnunin brugðist við því með einhverjum hætti?

„Við viljum auðvitað að bankarnir haldi áfram að lána og miðli þannig peningastefnunni út í hagkerfið. Þeir hafa hins vegar að einhverju leyti verið veiktir, m.a. með bankaskattinum. Hann er lagður á skuldahlið bankanna og ræðst því ekki af afkomu þeirra. Hann leggst af fullum þunga á þá, hvort sem þeim gengur vel eða illa. Þessi skattur mun því lækka eiginfjárstöðu þeirra – og minnka útlánagetu – ef hagnaður þeirra fer að dragast saman sem hefur raunar þegar gerst. Bankarnir hafa auk þess verið að greiða út arð sem hefur minnkað útlánagetu þeirra verulega – bæði þegar litið er til eiginfjár og lauss fjár. Þá er lánabókin hjá Íbúðalánasjóði einnig að minnka og allt vinnur þetta gegn því að liðka fyrir fjárfestingu. Þess vegna var það eitt fyrsta verk mitt hér að leggja bann við því að aðrir en innlánastofnanir væru að leggja fjármuni inn á innlánareikninga hjá Seðlabankanum. Við litum á það sem vanda að uppgreiðslur til Íbúðalánasjóðs væru lagðar inn í Seðlabankann. Það dregur úr peningamagni í umferð og rýrir lausafjárstöðu viðskiptabankanna.“

Fleiri þættir hafa þó áhrif á ákvarðanir bankanna um að draga lappirnar í útlánum. Þeir hafa átt í basli með að ná arðsemi á eigið fé sem þeim er uppálagt að byggja starfsemina á. Nú um áramótin verða gerðar ríkari eiginfjárkröfur til bankanna og mun það gera verkefni stjórnenda þeirra enn vandasamara. Mætti endurskoða þessa nálgun, ekki síst nú þegar starfsemi Fjármálaeftirlitsins færist undir hatt Seðlabankans innan skamms?

„Það eru tvær nefndir sem koma að þessum ákvörðunum. Það er annars vegar peningastefnunefndin og hjá henni er markmiðið skýrt, þ.e. að örva hagkerfið. Hins vegar er það kerfisáhættunefnd, sem reyndar er verið að leggja af, og hún hugar að kerfisáhættu og fjármálastöðugleika. Hún telur að við núverandi aðstæður sé rétt að halda fast við þá ákvörðun sem tekin var fyrir ári að hækka eiginfjáraukann.“

Í reiptogi við sjálfan sig

Ertu sammála því mati við þessar aðstæður þar sem Seðlabankinn stefnir í að verða í reiptogi við sjálfan sig?

„Það fer eftir því við hvað er miðað. Frá fjármálastöðugleikasjónarmiði skiptir máli að bankarnir hafi nægilegt eigið fé til þess að geta brugðist við útlánatöpum. Það sjónarmið getur vel átt við þó peningapólitíkin miði að því að örva hagkerfið. Ég vil einnig nefna að eiginfjárkvaðir bankanna eru að fara að lækka á næsta ári vegna nýrra reglna frá Evrópu er varða afslátt til lítilla og meðalstórra fyrirtækja.“

En eiginfjárkröfurnar eru ein ástæðan fyrir því að menn eru að minnka lánabækur hjá sér, þeir ná ekki ávöxtun á þetta mikla eigið fé og vaxtalækkunin gerir það jafnvel enn erfiðara. Útlánamarkaðurinn minnkar. Þarf þá ekki að gera drastískar breytingar á eiginfjárkröfunum?

„Ekki núna. Að einhverju leyti tosast þetta á en verkefnin sem verið er að fást við eru ólík. Peningastefnan miðar að því að örva hagkerfið, hitt snýst um að bankarnir séu vel fjármagnaðir þegar við komum að niðursveiflunni og að öryggi þeirra sé tryggt. Þetta kann að vega gegn peningastefnunni en við verðum að finna rétt jafnvægi þarna á milli.“

Aukin áhersla á fjármálastöðugleika

Nú vinnur Seðlabankinn eftir verðbólgumarkmiði. Kann að vera að ofuráhersla hafi verið lögð á fjármálastöðugleikann í kerfinu undanfarin ár?

„Það er góð spurning. Í lögunum um Seðlabankann frá 2001 var ekki minnst á fjármálastöðugleika. Svo var ekki einn aðili sem bar ábyrgð á honum. Það var vandinn, bankinn hafði ekki raunverulegt umboð til þess að gera neitt jafnvel þótt hann hafi varað við þróun mála á sínum tíma. Fjármálastöðugleikinn hefur verið tekinn mun alvarlegar eftir hrunið. Og með sameiningu Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans verður einn aðili í ábyrgð fyrir fjármálastöðugleika. Þá leiðir það óhjákvæmilega til meiri samhæfingar milli þjóðhagsvarúðar og peningastefnunnar. Hér áður var peningastefnan framkvæmd á kostnað fjármálastöðugleika, sem hinn mikli vaxtamunur við útlönd vitnar um á árunum á eftir hrun.“

Má skilja aukna áherslu á fjármálastöðugleikann þannig að Seðlabankinn muni gera hvað sem er til þess að halda bankastofnunum á lífi, jafnvel þegar í óefni er komið?

„Nú er verið að setja í fastar skorður með lagasetningu svokallað skilavald Seðlabankans. Það gefur bankanum skýrar heimildir til að grípa inn í starfsemi bankanna. Það er alveg klárt að við munum beita þeim heimildum ef þörf krefur. Helsta vandamálið fyrir hrun voru eigendur þeirra, hin skuldsettu eignarhaldsfélög sem fengu lánað fé hjá bönkunum. Þau mistök verða aldrei gerð aftur að leyfa slíku ástandi að magnast upp. En ef ríkið selur bankana, sem er æskilegt enda óheppilegt að ríkið sé með alla þessa fjármuni bundna í bankastofnunum, þá munum við ekki sýna neina linkind. Það er lærdómur sem við höfum dregið, að miklu fyrr yrði gripið inn í en reyndin var áður.“

Í þessu sambandi rifjar Ásgeir upp að hann var aðalhagfræðingur Kaupþings á sínum tíma. Hefur það raunar verið dregið upp í umræðunni í kjölfar skipunar hans í stól seðlabankastjóra.

„Ég var 33 ára þegar þegar ég var skipaður aðalhagfræðingur Kaupþings. Það var mikill skóli. Sú reynsla herðir mig í þeirri afstöðu að nýr sameinaður Seðlabanki beiti afli sínu, sé þess þörf. Við leyfum ekki ójafnvægi að byggjast upp í kerfinu aftur. Nú erum við komin með öll tækin í Seðlabankann til þess að standa þessa vakt með viðhlítandi hætti. Ég vil þó ítreka að bankarnir hafa staðið sig vel síðustu árum. Þeir hafa mikið eigið fé og skuldsetning einstaklinga og fyrirtækja hefur verið nokkuð stöðug sem hlutfall af landsframleiðslu. Nýgerðir kjarasamningar, beiting ríkisfjármálastefnunnar og almennur verðstöðugleiki munu styðja við aukinn kaupmátt í landinu og það mun aftur styðja við efnahagsumsvifin. Því held ég að það sé ekki mikil hætta á útlánatöpum vegna heimilanna. Væntanlega þurfa bankarnir að afskrifa eitthvað vegna samdráttar í ákveðnum atvinnugeirum en það er ekkert sem bendir til þess að það verði verulegt.“

Fagnar auknum slaka í ríkisfjármálum

Forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar hafa boðað talsverða útgjaldaaukningu á komandi misserum og Alþingi hefur lagt blessun sína yfir þau áform. Ásgeir fagnar þeim áformum og telur þau síst til marks um að stjórnvöld séu að missa tökin á stöðunni í hagkerfinu.

„Það sem hefur batnað mikið á Íslandi er samhæfing ríkisfjármála og peningamála. Seðlabankinn var á árum áður sífellt að hækka vexti til að halda aftur af verðbólgu en á sama tíma jók ríkissjóður útgjöld sín, jafnvel þegar engin þörf var á. Það kynti undir verðbólgunni sem bankinn var að reyna að halda aftur af. Við fögnum því hins vegar núna þegar meiri slaki kemur á ríkisfjármálin þegar hægir á hagkerfinu. Slaki í stefnunni felur ekki í sér að allt verði keyrt um koll en það þarf vissulega að fara varlega og þess vegna höfum við hægt á vaxtalækkunarferlinu.“

Ásgeir segir að aukin áhersla á innviðauppbyggingu þjóni sem mikilvæg innspýting í kólnandi hagkerfi en að áhersla á hana hafi fleiri jákvæðar afleiðingar í för með sér.

„Innviðina þurfum við til að tryggja þjóðhagslega hagkvæmni. Ég held að það hafi verið mistök að ráðast ekki í miklar framkvæmdir af þessu tagi strax eftir hrunið. Ef það hægir mjög á hagkerfinu, og ég óttast persónulega að áhættan sé frekar niður á við með versnandi efnahagshorfum en hitt, þá á ríkið að bregðast við með því að setja kraft í innviðafjárfestingu. Samhliða því getum við í Seðlabankanum létt undir með vaxtalækkunum.“

Skatta á að lækka í niðursveiflu

En eru skattalækkanir ekki góð leið til þess að örva hagkerfið og gefa fyrirtækjum og einstaklingum frekar tækifæri til að keyra hjól efnahagslífsins í gang að nýju fremur en að fela opinberum aðilum það verkefni sí og æ?

„Tími til að lækka skatta er í niðursveiflu en Seðlabankinn hefur ekki skoðun á því hvaða farveg ríkisfjármálastefnan velur sér. Íslendingar hafa alltaf haft skilning á mikilvægi ríkisins og við höfum alltaf skilið að ekki er hægt að reka ríkissjóð með óvarlegum hætti. Við höfum því alltaf rekið ríkissjóð með skynsamlegum hætti þegar kemur að skuldsetningunni. En sögulega séð hefur skort á skilning á því hvernig ríkisfjármálin geta unnið gegn neikvæðri þróun í hagkerfinu og ýtt undir jákvæða þróun þegar þörf krefur. En núna virðist vera að verða breyting þar á.“

Og Ásgeir bendir á að vaxtastigið, bæði hér heima og erlendis, gefi einnig ástæðu fyrir ríkið til að ráðast í umfangsmiklar framkvæmdir á þessum tímapunkti.

„Aðgengi hins opinbera að fjármagni er mjög hagstætt um þessar mundir og vaxtastigið gerir það að verkum að við stöndum frammi fyrir sögulegu tækifæri til að byggja upp innviði. Það er engu líkara en við séum að fá eins konar „kreppuniðurgreiðslu“ á innviðum þar sem vextir ytra eru í sögulegu lágmarki. Og það er það sem núna þarf að gera. Vegakerfið er t.d. nokkrum númerum of lítið fyrir okkur, ekki síst þegar litið er til uppbyggingar ferðaþjónustunnar. Ef við berum gæfu til þess að hefja þessa uppbyggingu núna þá munum við njóta þess mjög á komandi árum og áratugum.“