Einu sinni var til happdrætti sem hét launamiðinn. Þar var hægt að vinna 100.000 kr. á mánuði í 15 ár eða fá aðeins lægri heildarupphæð strax.

Einu sinni var til happdrætti sem hét launamiðinn. Þar var hægt að vinna 100.000 kr. á mánuði í 15 ár eða fá aðeins lægri heildarupphæð strax. Miðað við verðbólgu, vexti, launaþróun og þess háttar þá borgaði sig að fá lægri heildarupphæð strax ef vinningurinn væri lagður í sparnað. Valmöguleikinn er þó góður því það eru alls ekki allir í þeim aðstæðum að hafa efni á að spara. Það er nefnilega oft erfitt að gera áætlanir til framtíðar, hvað þýða til dæmis 100.000 kr. eftir 15 ár? Ef 1981 hefði verið eitt af þeim 15 árum þá hefðu 100.000 kr. ekki verið mikils virði ef þær hefðu misst síðustu tvö núllin.

Það er áhugavert að skoða dæmið um launamiðann og þann valmöguleika sem fólk fær í samhengi við nýlegan samning ríkisins við kirkjuna. Þar fær kirkjan um þrjá og hálfan milljarð á ári (og tvo milljarða í viðbót í sóknargjöld) þar sem 90% af upphæðinni fylgja launaþróun. Þetta er samningur sem er gerður í staðinn fyrir kirkjujarðasamkomulagið frá 1997 sem snerist um fullnaðaruppgjör þeirra eigna sem runnu til ríkisins við það samkomulag, eða eins og segir þar: „Aðilar líta á samkomulag þetta um eignaafhendingu og skuldbindingu sem fullnaðaruppgjör þeirra vegna þeirra verðmæta sem ríkissjóður tók við árið 1907. Aðilar geta óskað eftir endurskoðun á 3. gr. samkomulagins (launagreiðslur) að liðnum 15 árum frá undirritun þess.“

Í 3. gr. samkomulagsins er fjallað um að ríkið skuli meðal annars greiða laun 138 presta í 15 ár. Svona „launamiði“ fyrir kirkjuna í staðinn fyrir jarðir sem voru samtals með fasteignamat upp á 1.072.774.128 kr. árið 1992. Uppfært verðlag á þeirri upphæð árið 2018 eru rúmir þrír milljarðar króna en á sama tíma hafa rúmlega 42 milljarðar verið greiddir vegna kirkjujarðasamkomulagsins. Allt í einu verður valmöguleikinn í launamiðanum sjálfsagður, auðvitað velur þú árlegu greiðsluna. Þú færð andvirði jarðanna, eða svo, á hverju ári. Í að minnsta kosti 15 ár. Árin eru nú orðin rúmlega 20 og nýbúið að semja um laun í skiptum fyrir þessar jarðir í að minnsta kosti 15 ár í viðbót.

Fyrir skattgreiðendur þýðir þetta ýmislegt. Sóknargjöldin eru rétt tæplega 1.000 kr. á mánuði og þjóðkirkjan fær um 80% af sóknargjöldum. Kirkjujarðasamkomulagið er upp á um þrjá og hálfan milljarð á ári. Það þýðir að hver skattgreiðandi borgar kirkjunni rétt rúmlega 2.000 kr. á mánuði í laun. 24.000 kr á ári. Önnur lífsskoðanafélög fá um 200 kr. á mánuði eða um 2.400 kr. á ári.

Launamiði kirkjujarðasamkomulagsins er, miðað við núverandi fyrirkomulag, óendanlega dýr. Að eilífu, og allt það. Andvirði kirkjujarðanna er hins vegar endanlegt. Það virðist hins vegar vera pólitísk trú á að óendanleg verðmæti séu til og er þar illa farið með skattfé. Gerum betur.

Höfundur er þingmaður Pírata. bjornlevi@althingi.is