Icelandair Afar fáir farþegar hafa nýtt sér tækifæri til kolefnisjöfnunar.
Icelandair Afar fáir farþegar hafa nýtt sér tækifæri til kolefnisjöfnunar. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Farþegar Icelandair greiddu rúmlega eina milljón króna fyrir kolefnisjöfnun í gegnum vefsíðu félagsins í október og nóvember á þessu ári. Kolefnisreiknivél Icelandair fór í loftið 27.

Farþegar Icelandair greiddu rúmlega eina milljón króna fyrir kolefnisjöfnun í gegnum vefsíðu félagsins í október og nóvember á þessu ári. Kolefnisreiknivél Icelandair fór í loftið 27. september síðastliðinn og gefur farþegum tækifæri til að kolefnisjafna flugið sitt með viðbótargreiðslu. Samtals var um rúmlega 700 færslur að ræða.

Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að eins og sakir standi séu eru öll framlög notuð til skógræktar á Íslandi í samstarfi við fyrirtækið Kolvið. Samtals var um 600 tonnum af CO2e kolefnisjafnað og þýðir það að um 6.000 trjám verður plantað hjá Kolviði. „Þar sem þetta verkefni hófst seint í haust og aðalplöntunartímabilinu því lokið, hefur þessum trjáplöntum ekki verið plantað ennþá,“ segir Ásdís Ýr. Hún segir að Icelandair muni halda áfram að þróa þetta verkefni á nýju ári. „Bæði með það í huga að gera kolefnisjöfnun flugferða enn einfaldari fyrir farþega og skoða hvort við viljum bæta við fleiri samstarfsaðilum,“ segir hún.

Í október voru farþegar með vélum Icelandair um 154 þúsund að tölu. Það er því ljóst að aðeins örlítið brot þeirra nýtir sér tækifæri sem félagið býður til að kolefnisjafna ferðalag sitt. gudmundur@mbl.is