[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is Ólafur Ólafsson, dómstjóri við Héraðsdóm Austurlands, en áður við Héraðsdóm Norðurlands eystra, var meðal 37 umsækjenda um embætti dómara við Landsrétt. Fjórir umsækjendur drógu umsóknir sínar síðan til baka.

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Ólafur Ólafsson, dómstjóri við Héraðsdóm Austurlands, en áður við Héraðsdóm Norðurlands eystra, var meðal 37 umsækjenda um embætti dómara við Landsrétt. Fjórir umsækjendur drógu umsóknir sínar síðan til baka.

Skipað var í dómarastöðurnar fyrir lok vorþings 2017 en rétturinn tók til starfa 1. janúar 2018. Tillaga dómsmálaráðherra um dómara var samþykkt á Alþingi. Dómaravalið varð síðar umdeilt.

Horfið frá skorblöðum

Í Morgunblaðinu í gær var fjallað um nýja umsögn dómnefndar um stöðu eins dómara við Hæstarétt og hvernig þar sé horfið frá fyrri aðferðafræði. Vísuðu nefndarmenn m.a. til gagnrýni umboðsmanns Alþingis á notkun skorblaða við hæfnismatið vegna Landsréttar. Þá voru 15 umsækjendur af 33 valdir í Landsrétt á grundvelli 12 matsþátta og munaði aðeins 0,03 á þeim sem voru númer 15 og 16 í hæfnisröðinni.

Ólafur kveðst aðspurður fagna þessara stefnubreytingu.

„Efnislega fagna ég henni. Ég sótti um stöðu dómara við Landsrétt á sínum tíma, ásamt mörgum öðrum. Í umsóknarferlinu var í mínu tilfelli óskað eftir dómum sem ég hafði kveðið upp, að mig minnir síðastliðna tólf mánuði. Ég varð auðvitað við þessu og sendi því nokkurn fjölda dóma, m.a. í sakamálum og í einkamálum. Gat svo sem sent dóma langt aftur í tímann enda hef ég haft dómarastarfið að aðalstarfi alllengi eða frá hausti 1984, fyrst sem dómarafulltrúi, en síðan sem settur dómari og skipaður dómari frá árinu 1990,“ segir Ólafur um umsóknarferlið.

Það hafi því verið honum nokkur vonbrigði að uppgötva að þessi gögn og dómar hafi aðeins fengið takmarkaða eða alls enga skoðun hjá þáverandi nefndarmönnum. Það sama hafi væntanlega gilt um aðra umsækjendur og þá á öðrum sviðum, til dæmis fræðimennsku eða lögmennsku.

„Þannig að ég fagna því að breytt hafi verið um vinnubrögð og þannig m.a. farið eftir áliti umboðsmanns Alþingis,“ segir Ólafur.

Samkvæmt stjórnsýslulögum ber stjórnvöldum að gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti við úrlausn mála. Spurður hvort sjálfstæðri stjórnsýslunefnd, í þessu tilviki dómnefndinni, sé heimilt að viðhafa annan rökstuðning fyrir vali sínu en til dæmis dómnefndin sem valdi dómaraefni í Landsrétt segir Ólafur ósamræmið óheppilegt. Þannig sé „óheppilegt að slík kúvending verði frá valinu 2017 eins og nú virðist verða“. Það sama megi segja um umsögn nefndarinnar vegna Héraðsdóms Reykjavíkur í fyrra. Þar sé líka horfið frá Landsréttaraðferðinni.

Rétt að líta á málið heildstætt

„Mér detta í hug orð Stephans G. Stephanssonar skálds um sundurlyndisfjandann. Hin fyrri vinnubrögð nefndarinnar geta valdið því að umsækjendur, og aðrir sem láta málefnið sig varða, verði tæpast sáttir. Þess vegna held ég að best sé að hafa sömu regluna og vinnubrögð, og þá sem nú virðist hafa verið tekin upp, þ.e. að líta á málið heildstætt,“ segir Ólafur.

„Þá má velta fyrir sér hvort ekki sé rétt að Dómarafélag Íslands tilnefni einn nefndarmann og þá í stað dómstólasýslunnar. Að mínu viti skiptir miklu að allgóður friður ríki um skipan dómara við Hæstarétt og velti ég því einnig fyrir mér hvort rétt sé að ráðherra leggi tillögu sína fyrir Alþingi, en að síðan þurfi aukinn meirihluti alþingismanna að samþykkja tilnefninguna, en það er önnur saga,“ segir Ólafur.