Guðni Einarsson gudni@mbl.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Umhverfisstofnun (UST) telur að svo mikil efnistaka sem ráðgerð er úr námu við Brúarhlöð [E71] vegna vegagerðar „gæti haft verulega neikvæð sjónræn áhrif í för með sér á svæði sem er fallegt og landþröng mikil þannig að allt rask verður mjög sýnilegt og þar með haft neikvæð áhrif á verndargildi svæðisins“.

Þá telur UST að þarna ætti alfarið að hætta efnistöku eða draga verulega úr því magni sem ráðgert er að taka. Einnig ætti að leggja að landeiganda að hætta efnistöku til eigin nota á þessum stað.

Þetta kemur fram í „frekari umsögn“ UST vegna mats á umhverfisáhrifum Skeiða- og Hrunamannavegar – Gígjarhólskots. Ráðgert er að taka allt að 40 þúsund rúmmetra úr námunni. Efnistakan er innan svæðis nr. 737 á náttúruminjaskrá. Verndargildi svæðisins er talið vera: Tilkomumikið gljúfur með kjarri- og skógivöxnum bökkum.

Umsögnin kom á óvart

Svanur Bjarnason, svæðisstjóri Vegagerðarinnar á Suðurlandi, sagði að umsögn UST hefði komið þeim á óvart miðað við það sem kom fram í vettvangsferð. Náma E71 er í landi Gígjarhólskots nálægt vesturbakka Hvítár við þjóðveg 30, Skeiða- og Hrunamannaveg, og rétt ofan við brúna yfir Hvítá. Svanur sagði að efni hefði lengi verið sótt í námuna.

Svanur sagði að náman við Hvítá væri á verndarsvæði sem er alltaf meðfram ám. Þess vegna þurfi að spyrja um matsskyldu framkvæmdarinnar. Skipulagsstofnun óskaði eftir umsögn UST sem hér var vitnað í. Vegagerðin mun svo gefa umsögn um hana áður en Skipulagsstofnun gefur álit sitt. Efnið á að nota til að byggja upp veginn frá Einholtsvegi upp að Biskupstungnabraut og setja á hann bundið slitlag.

„Þetta er eini malarkaflinn sem er eftir á Skeiða- og Hrunamannavegi,“ sagði Svanur. Þá á að sækja allt að 20 þúsund rúmmetra í námu E72 við Einholtsveg.

UST segir að hún hafi talið í fyrri umsögn að leggja ætti meiri metnað í áætlun um efnistöku og umgengni á þessu svæði. Í stað þess að vísa til samráðs við landeiganda ætti Vegagerðin að leggja fram „metnaðarfulla áætlun um efnistökuna og hvernig viðskilnaði við svæðið verður háttað.“

Þá segir UST að ekki hafi borist ný áform um að draga úr áhrifum efnistökunnar, hvorki með vandaðri hönnun námunnar né með því að minnka það efnismagn sem ráðgert er að taka.

Meiri kostnaður og óvissa

Svanur telur að hægt sé að ganga þannig frá námunni eftir efnistöku að hún verði ekki til lýta.

Ekki er ljóst hvert þyrfti að sækja efni megi ekki taka það úr námu E71. Hann sagði að það verði kostnaðarsamara að sækja efnið lengra.

Þá skapi það óvissu um hvenær verður hægt að hefja verkefnið megi ekki nýta námuna auk þess að valda óvissu um kostnaðaráætlun.

Í fundargerð skipulagsnefndar Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita (UTU) frá 13. nóvember að er fjallað um umsókn Vegagerðarinnar um framkvæmdaleyfi vegna framkvæmdanna við Skeiða- og Hrunamannaveg ásamt efnistöku úr umræddum námum.

Nefndin mæltist til þess að sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkti að gefa út framkvæmdaleyfið.