Guðmundur Viggó Sverrisson fæddist á Setbergi á Skógarströnd 4. október 1938. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 13. desember 2019.

Foreldrar hans voru Sverrir Guðmundsson, f. 1910, d. 1986, og Ólöf Guðrún Guðbjörnsdóttir, f. 1915, d. 2003. Systkini Guðmundar eru: Jón Ingiberg, f. 1934, d. 2000. Ólafur, f. 1940. Gunnar Guðbjörn, f. 1943, d. 2002. Hulda, f. 1945. Þórdís Ingibjörg, f. 1946, d. 2011. Bjarnfríður, f. 1952.

Guðmundur giftist 9. júní 1973 eftirlifandi eiginkonu sinni Ástu Angelu Grímsdóttur, f. 25. nóvember 1950. Foreldrar hennar voru Grímur Hallgrímsson, f. 1919, d. 1984, og Elínrós Eiðsdóttir, f. 1919, d. 1957. Saman eiga þau fjögur börn, þau eru: 1. Matthildur Ólöf, f. 1974, gift Skúla Péturssyni, f. 1971. Þau eiga þrjú börn og eitt barnabarn. 2. Fanney Elínrós, f. 1976, gift Gunnari Ellertssyni, f. 1974, þau eiga sex börn, þar af eitt látið, og tvö barnabörn. 3. Pálmi Grímur, f. 1977, í sambúð með Bjarneyju Katrínu, f. 1980, eiga þau tvær dætur og á Pálmi tvö börn af fyrra sambandi, þar af eitt látið. 4. Guðmundur Eiður, f. 1982, d. 2006. Guðmundur átti einn son, Sverri, f. 1968, af fyrra sambandi með Sigríði Jóhannsdóttur.

Guðmundur og Ásta bjuggu í Stóra-Langadal til ársins 1978, síðan í Hrísey til ársins 1981. Fluttu þá í Stykkishólm og voru þar til ársins 1986. Fluttu þá til Hafnarfjarðar þar sem þau hafa búið síðan.

Útför Guðmundar verður gerð frá Víðistaðakirkju í dag, 18. desember 2019, klukkan 15.

Elsku pabbi minn, hvað get ég sagt? 13. desember fékkstu hvíldina sem þú varst búinn að bíða eftir lengi miðað við þín veikindi. Varst löngu búinn að fá nóg og varst hvíldinni feginn og þvílíkur friður yfir þér. Ég veit að þér líður betur núna en eftir sitjum við hin með sorgina. Takk fyrir öll 43 árin sem þú gafst mér, elsku pabbi, án þín væri ég ekki hér. Nú kveð ég að sinni sjáumst síðar, pabbi minn.

Elska þig endalaust

Lát opnast himins hlið,

þá héðan burt ég fer,

mitt andlát vertu við

og veit mér frið hjá þér.

Þá augun ekkert sjá

og eyrun heyra' ei meir

og tungan mæla' ei má,

þá mitt þú andvarp heyr.

(V. Briem )

Þín dóttir

Fanney Elínrós.

Englar Guðs þér yfir vaki og verndi pabbi minn

vegir okkar skiljast núna, við sjáumst ekki um sinn.

En minning þín hún lifir í hjörtum okkar hér

því hamingjuna áttum við með þér.

Þökkum kærleika og elsku, þökkum virðingu og trú

þökkum allt sem af þér gafstu, okkar ástir áttir þú.

Því viðmót þitt svo glaðlegt var og góðl eg var þín lund

og gaman var að koma á þinn fund.

Með englum Guðs nú leikur þú og lítur okkar til

nú laus úr viðjum þjáninga, að fara það ég skil.

Og þegar geislar sólar um gluggann skína inn

þá gleður okkur minning þín, elsku pabbi minn.

Vertu góðum Guði falinn er hverfur þú á braut

gleði og gæfa okkur fylgdi með þig sem förunaut.

Og ferðirnar sem fórum við um landið út og inn

er fjársjóðurinn okkar pabbi minn.

(Guðrún Sigurbjörnsdóttir)

Hvíl þú í friði, elsku pabbi minn, og takk fyrir allt.

Þín dóttir,

Matthildur Ólöf.