Washington, AFP. | Þingmenn stóru flokkanna beggja í Bandaríkjunum bjuggu sig undir hörð átök í fulltrúadeildinni í dag, þegar ákæra til embættismissis á hendur Donald Trump Bandaríkjaforseta verður lögð fyrir deildina.

Washington, AFP. | Þingmenn stóru flokkanna beggja í Bandaríkjunum bjuggu sig undir hörð átök í fulltrúadeildinni í dag, þegar ákæra til embættismissis á hendur Donald Trump Bandaríkjaforseta verður lögð fyrir deildina.

Talið er nær öruggt að ákæran, sem er í tveimur liðum, verði samþykkt í deildinni, sér í lagi eftir að nokkrir demókratar, sem sitja í þingsætum sem hallast til hægri, lýstu yfir stuðningi við ákæruferlið, þrátt fyrir að þeir eigi á hættu að missa þingsæti sín í kosningunum á næsta ári. Demókratar eru með 233 þingsæti af 435 í deildinni, en einungis þarf einfaldan meirihluta á þessu stigi, eða 218 atkvæði, til þess að Trump verði þriðji forsetinn í sögunni til að vera ákærður til embættismissis. Aðeins tveir demókratar eru taldir íhuga að greiða atkvæði gegn ákærunum.

Afar ólíklegt er talið að öldungadeildin muni sakfella Trump, þó að hann verði ákærður í dag, en til þess þarf aukinn meirihluta þingmanna efri deildar, eða 67 manns. Til þess að svo megi verða þurfa 20 af 53 repúblíkönum að styðja sakfellinguna, ásamt öllum 45 þingmönnum demókrata og tveimur óháðum. Nokkrir þingmenn repúblíkana í efri deildinni hafa þegar lýst því yfir að þeir muni sýkna forsetann, og segja ákærurnar uppspuna frá rótum.