Dr. Ásgeir Jónsson hefur nú setið í embætti í fjóra mánuði.
Dr. Ásgeir Jónsson hefur nú setið í embætti í fjóra mánuði. — Morgunblaðið/Hari
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nýr seðlabankastjóri segir skattalækkanir eina leið af mörgum til að bregðast við versnandi hagvaxtarhorfum.

„Tími til að lækka skatta er í niðursveiflu,“ segir Ásgeir Jónsson, nýr seðlabankastjóri, í viðtali á miðopnu í dag en bætir við: „en Seðlabankinn hefur ekki skoðun á því hvaða farveg ríkisfjármálastefnan velur sér.“ Hann segir fagnaðarefni að á síðustu árum hafi skilningur aukist á því með hvaða hætti ríkisfjármálin geti unnið gegn neikvæðri þróun í hagkerfinu og með því ýtt undir jákvæða þróun þegar þörf krefur. Hann fagnar því auknum slaka í ríkisfjármálunum og segir þjóðina í raun standa frammi fyrir sögulegu tækifæri.

„Aðgengi hins opinbera að fjármagni er mjög hagstætt um þessar mundir og vaxtastigið gerir það að verkum að við stöndum frammi fyrir sögulegu tækifæri til að byggja upp innviði. Það er engu líkara en við séum að fá eins konar „kreppuniðurgreiðslu“ á innviðum þar sem vextir ytra eru í sögulegu lágmarki.“ Hann telur því að nú eigi að ráðast í viðamiklar framkvæmdir, m.a. á vegakerfinu sem fyrir löngu sé sprungið.

„Ef við berum gæfu til þess að hefja þessa uppbyggingu núna munum við njóta þess mjög á komandi árum og áratugum.“ Í viðtalinu bendir Ásgeir á að meiri líkur séu á því en minni að horfurnar í hagkerfinu muni versna frekar en hitt. Hann telur þó að ríkisvaldið og Seðlabankinn hafi ýmis verkfæri til að bregðast við þeirri stöðu ef hún kemur upp. Þar skipti ekki síst máli að stýrivextir eru enn með því móti að þá megi lækka, ólíkt því sem gerist í mörgum nágrannaríkjum okkar.