Alþingi Þingmenn kvöddust fyrir jólafrí í gær.
Alþingi Þingmenn kvöddust fyrir jólafrí í gær. — Morgunblaðið/Eggert
Jólahlé var gert á fundum Alþingis í gær og var þingfundum frestað til 20. janúar 2010. Þingið samþykkti í gær að lengja fæðingarorlof úr níu mánuðum í tólf. Það verður gert í tveimur skrefum.

Jólahlé var gert á fundum Alþingis í gær og var þingfundum frestað til 20. janúar 2010. Þingið samþykkti í gær að lengja fæðingarorlof úr níu mánuðum í tólf. Það verður gert í tveimur skrefum. Það fyrra vegna barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á næsta ári og það síðara vegna barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í fóstur 1. janúar 2021 eða síðar. Alþingi samþykkti m.a. lög um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, lög um sviðslistir, lög um skráningu raunverulegra eigenda, lög um landlækni og lýðheilsu, lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar o.fl. og lög um kynrænt sjálfræði. Einnig veitti Alþingi 24 einstaklingum íslenskan ríkisborgararétt.

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, fór yfir gang mála á haustþinginu í ávarpi í gær.

Hann sagði að þingið hefði verið starfsamt. Nú hefði verið afgreiddur mesti fjöldi mála fyrir áramót frá 120. þingi árið 1995. Framlögð stjórnarfrumvörp voru 64 og stjórnartillögur 19 talsins. Fjöldi þingmannamála var lagður fram eða 93 frumvörp og 99 tillögur. Auk þess lögðu nefndir fram níu mál. Af þessum fjölda urðu 30 stjórnarfrumvörp að lögum og 15 stjórnartillögur voru samþykktar. Þá urðu tvö þingmannafrumvörp og níu nefndafrumvörp að lögum. Fimm þingmannatillögur voru samþykktar.

„Það er sérstakt ánægjuefni og er til fyrirmyndar hversu tímanlega Alþingi tókst að afgreiða fjárlög og var afgreiðsla þeirra að fullu í samræmi við starfsáætlun. Sama gildir um flest fjárlagatengd mál. Samþykkt fjárlaga 27. nóvember sl. var í reynd tímamótaviðburður því fjárlög komandi árs hafa ekki áður verið samþykkt svo snemma,“ sagði forseti Alþingis. Hann sagði það hafa verið nokkur vonbrigði hvað mörg frumvörp frá ríkisstjórn komu seint fram og seinna en þingmálaskrá gerði ráð fyrir. gudni@mbl.is