Það hefur reynst rétt mat að kosningarnar á fimmtudag yrðu mjög mikilvægar

Boris Johnson baðaði sig í sigurljóma við þingsetningu í gær. Eitt hundrað nýir þingmenn réðu sér ekki fyrir kæti. Rúmur þriðjungur þeirra kemur úr kjördæmum þar sem Íhaldsflokkurinn hefur löngum haft góða stöðu. Þar losnuðu sæti af tveimur ástæðum. Sumir fráfarandi þingmenn vildu hætta, oftast fyrir aldurs sakir. Allmörg sæti losnuðu þegar Boris Johnson rak þingmenn úr Íhaldsflokknum sem farið höfðu gegn honum á ögurstundu baráttunnar um brexit. Meðal hinna burtreknu voru menn sem gegnt höfðu veigamiklum ráðherraembættum og tóku brottvísuninni úr flokknum þunglega. Þeir buðu sig því fram sem „óháðir“ í gömlu kjördæmunum gegn þingmannsefnum flokksforystunnar. Sumir fengu bærilegt fylgi því að hefðbundnir andstæðingar Íhaldsflokksins kusu „uppreisnarmennina“ að þessu sinni. En það dugði ekki til. Hinir burtreknu töpuðu allir sem einn.

Þetta þýðir að Boris Johnson kemur ekki aðeins með fjölmennan þingflokk til þings, heldur má ganga út frá því að langflestir verði mjög fylgispakir honum, að minnsta kosti fyrst um sinn.

Boris er einnig laus við þingforsetann, John Bercow, sem ekki er umdeilt lengur að hafi misnotað stöðu sína herfilega í þágu ESB-sinna á þingi. Bercow getur á hinn bóginn gengið glaður og reifur að bólgnandi bankareikningum sínum vísum. Hann mætti sem fréttaskýrandi í settið til Sky-stöðvarinnar á kosninganótt og fékk að sögn um 60.000 pund (tæpar 10 millj. ísl. kr.) fyrir viðveruna. Þá er hann nú sagður eftirsóttur tækifærisræðumaður í kvöldverðum og fái, þegar best lætur, allt að 25.000 pund fyrir ræðustubbinn (fjórar millj. ísl. kr.). Ekki er þó endilega víst að frægðin verði Bercow endingargóð.

Boris var hinn sanni sigurvegari kosninganna, þótt fylgi flokksins yxi ekki um nein ósköp. Frjálslynda flokknum hafði í byrjun verið spáð framgangi, en klaufaspörk formannsins urðu of mörg og svo fór að þingmönnum fækkaði úr 12 í 11 og formaður flokksins féll út af þingi. En það var Jeremy Corbyn sem dró stysta stráið. Flokkur hans missti 60 þingmenn og það jafnvel í kjördæmum þar sem hann var talinn ósigrandi. Mjög er nú að Corbyn þrengt. Hann segist ekki ætla að leiða flokkinn í næstu þingkosningum. Í því gæti falist að hann héngi í formannssætinu næstu árin! Hljóðið í helstu samherjum hans í flokknum er annað. Þeir segjast á förum úr forystu og bæta sumir við: Við erum allir á leið úr forystunni. Hugmynd þeirra, sem gráta útkomu Verkamannaflokksins, er sú að færa flokkinn í átt að miðju ella verði þrautaganga hans löng. En vandinn er sá að skipulagi flokksins var breytt á sínum tíma. Það eru almennir félagar sem ráða því hverjir leiða flokkinn. Mikill meirihluti þess liðs hefur svipaðar hugsjónir og Jeremy Corbyn. Staðan er því þannig, að þótt Corbyn nái ekki að þráast lengi við er ekki víst að nýr leiðtogi verði eitthvað nær miðju en sá gamli.

Nicola Sturgeon, leiðtogi Skoska þjóðarflokksins, hamast við að minna á að hún sé annar af tveimur sigurvegurum kosninganna. Hún fékk vissulega 48 þingmenn og bætti við þig 13. Enginn flokkur mjólkar kosningakerfið jafn vel og SNP. Frjálslyndir fengu 11,6% atkvæða á landsvísu en náðu aðeins 11 mönnum á þing. SNP fékk 3,9% fylgi á landsvísu en fær 48 þingsæti á þjóðþinginu!

Í krafti þessa „sigurs“ krefst Sturgeon nýs þjóðaratkvæðis um sjálfstæði Skotlands. Það er holur hljómur í þeirri kröfu. Sturgeon viðurkennir að ekki nærri allir þeirra sem kusu SNP styðji útgöngu Skota. Skoðanakannanir sem birtar voru eftir kosningar sýna að góður meirihluti Skota sé andvígur útgöngu.

En það er annað sem er athyglisvert. Sturgeon er andvíg útgöngu Breta úr ESB og flokkur hennar á þingi gerði allt sem hann mátti til að eyðileggja úrslitin um það. Og í rauninni eru sömu óheilindi hjá leiðtoganum gagnvart þjóðaratkvæðinu um Skotland. Þar var kosið 2014 og SNP hamaðist í sínum yfirlýsingum þá að kysu Skotar ekki útgöngu myndu „núlifandi kynslóðir“ aldrei fá annað tækifæri! Útkoman var afgerandi. Skotar höfnuðu skilnaði. Og nú vilja leiðtogar SNP, þeir sömu og sögðu að bíða yrði í margar kynslóðir áður en kosið yrði aftur um sömu spurningu, eyðileggja niðurstöðuna frá 2014! Aðeins niðurstaða sem þeir sjálfir viðurkenna skal standa.

Hvernig er svona fólk eiginlega innréttað?