Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Það mátti heyra saumnál detta í Berlaymont í Brussel þegar útgönguspá fyrir bresku þingkosningarnar var birt að kvöldi fimmtudagsins síðasta.

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Það mátti heyra saumnál detta í Berlaymont í Brussel þegar útgönguspá fyrir bresku þingkosningarnar var birt að kvöldi fimmtudagsins síðasta. Gat verið að ófétið Boris Johnson sem hafði leitt Brexit yfir bresku þjóðina væri kominn með 368 sæti og hreinan meirihluta? Gat verið að hann hefði nælt sér í hinn eftirsótta pálma sem allir vilja hafa í höndunum og gæti nú fullkomnað óhæfuverkið?

Reyndar urðu þingsætin ekki nema 365 en meirihlutinn reyndist öruggur og nú stefnir þingið að því að setja gaffalinn á yfirvöld í Brussel. Þann sama og búrókratarnir og andlýðræðisöflin í breska þinginu hafa otað að almenningi þar í landi allt frá því að úrsögn úr ESB varð ofan á í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2016.

Þessi atburðarás var það versta sem Juncker og herdeildir hans í skrifræðisbákni ESB gátu hugsað sér að myndi nokkru sinni gerast. Þess vegna var allt gert til þess að þvæla málin og gera Bretum eins örðugt um vik og hægt var að standa við stóru orðin. En það tókst.

En martröðin er bara rétt að byrja fyrir ESB og þá sem þar sitja að kjötkötlunum. Nú munu Bretar afla sér nýrra bandamanna og endurnýja kynni við þá gömlu. Með minna skrifræði og sveigjanlegra hagkerfi um leið munu þeir eiga auðveldara með að tryggja hagvöxt til framtíðar og um leið aukin og betri lífskjör landsmanna. Það verður enn ný martröð fyrir von der Leyen og hirðina í kringum hana.