Uppfræðari „Þetta eru bækur fyrir þá sem hafa áhuga á myndlist, ekki bara fyrir innvígða,“ segir Jón B.K. Ransu.
Uppfræðari „Þetta eru bækur fyrir þá sem hafa áhuga á myndlist, ekki bara fyrir innvígða,“ segir Jón B.K. Ransu. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is Þetta eru bækur fyrir þá sem hafa áhuga á myndlist, ekki bara fyrir innvígða í heimi samtímamyndlistar,“ segir Jón B.K. Ransu, myndlistarmaður, myndlistarkennari og rithöfundur, um bækurnar þrjár sem hann hefur skrifað með það að markmiði að „efla þekkingu á listgildi samtímans,“ eins og hann segir.

Einar Falur Ingólfsson

efi@mbl.is

Þetta eru bækur fyrir þá sem hafa áhuga á myndlist, ekki bara fyrir innvígða í heimi samtímamyndlistar,“ segir Jón B.K. Ransu, myndlistarmaður, myndlistarkennari og rithöfundur, um bækurnar þrjár sem hann hefur skrifað með það að markmiði að „efla þekkingu á listgildi samtímans,“ eins og hann segir.

Þetta eru meðfærilegar bækur í litlu broti og sú nýjasta kom út í liðinni viku; Hreinn hryllingur: Form og formleysur í samtímalist, nefnist hún og fjallar um formgerð sem Ransu segir vera áberandi, jafnvel ríkjandi, í listum samtímans. Hann segir að við stöndum í auknum mæli frammi fyrir þeirri undarlegu þversögn að laðast að listaverkum sem virka í senn óþægileg, andstyggileg og jafnvel ógnandi.

Í kynningu á bókinni segist hann skoða formfræðileg einkenni slíkra listaverka í tengslum við ótal kvikmyndaminni og kenningar um eðli hryllings. Leiðarstefið í bókinni er hið kunna málverk Ópið eftir norska listmálarann Edvard Munch, en Ransu segir það snerta „merkilega marga þætti hryllingsins, til dæmis skynvillur, blendingsform, formleysur, úrkast, óhugnaðarkennd og líkamshrylling.“

„Ég hugsa þetta sem upplýsingarit. Það er lítið skrifað af bókum um samtímalist og ég reyni að hafa bækurnar aðgengilegar. Ég ákvað markvisst að bera saman formfræði myndlistar og kvikmynda, en fólk þekkir þann miðil betur. Þegar fjallað er um myrkur, til að mynda í verki eftir Harald Jónsson, þá skilur lesendinn vel hvað átt er við þegar það er borið saman við myrkuratriði í kvikmyndinni The Silence of the Lambs .“

Áhugi á hryllingstaugunum

Ransu segir að eins og í fyrri bókum raðarinnar, Listgildi samtímans – handbók um samtímalist á Íslandi og Málverkið sem slapp út úr rammanum , þá tengist skrifin í senn hans eigin listsköpun og því að hann hafi mikið fengist við að kenna, bæði fræðileg námskeið og handverk.

„Þegar ég var að kenna fræðilegan áfanga um samtímalist í Listaháskólanum, þá hjó ég eftir því en nemendur voru iðulega áhugasamastir í umræðu sem snerti á hryllingstaugunum. Það tengdist þáttum sem ég fór um svipað leyti að skoða í minni eigin myndlist en bækurnar þrjár hafa allar tengst því sem ég hef verið að fást við í myndlistinni. Bókin á undan þessari, Málverkið sem slapp út úr rammanum , er þannig tengd pælingum um eigin málverk sem ég kallaði „Tómt“. Þar vann ég flötinn út úr rammanum og tæmdi hreinlega miðjuflötinn; lét málverkið vera rammann. Út frá þeim verkum gerði ég tilraun sem snerist um tilfinningaleg áhrif þess að horfa á það sem kalla má tómt. Ég bjóst við að útkoman yrði andleg ró en þess í stað hallaðist það að hryllingstilfinningu yfir því að hafa ekkert að horfa á.“

Skissar með skrifum

Ransu segir nýju bókina hafa tekið að mótast þegar hann fór að velta fyrir sér hugmyndum um hryllinginn í eigin list. „Í raun skissa ég fyrir málverk með því að lesa og skrifa,“ segir hann. „Ég sanka að mér upplýsingum og fer þannig að móta hvað ég geri í myndlistinni. Upplýsingarnar hafa síðan orðið það yfirgripsmiklar að ég hef unnið bækurnar út frá þeim.“ Og Ransu hefur sett upp sýningar út frá hryllingspælingunum. Hann kallaði þær Óp og mátti meðal annars sjá í Listasafninu á Akureyri og í Gerðarsafni.

„Mikilvægur útgangspunktur var þegar ég fór til Noregs að sjá sýningu sem sett var upp á verkum Munchs í tilefni af 150 ára afmæli málarans. Út frá því ákvað ég að vinna verk verk í tengslum við Ópið. Ég fór að skoða hvað væri óp og ýmislegt dróst inn í þær pælingar.“

Óp Munchs, það erkióp, varð því að leiðarstefi í skrifunum.

„Málverkið Ópið leiddi mig í ýmsar pælingar um hrylling. Ég tek fyrir þætti í málverkum á borð við líkamshrylling sem er nátengdur mannlingnum skrítna sem stendur fremst í málverki Munchs. Í mannlingnum í Ópinu má sjá kvíða, ótta og örvæntingu en sjálf ógnin sem Munch birtir okkur er blóðrauður og bylgjandi himinninn. Í tengslum við hana kviknar kaflinn í bókinni sem helgaður er þeim óþægindum sem við köllum skynvillu. Sem dæmi um það má nefna op-list, sem spilar á það hvernig við vinnum úr upplýsingum lita og forma.“

Þá segir Ransu að fólk laðist iðulega að verkum sem virka andstyggileg og jafnvel ógnandi og fjallar hann um það í einum kaflanum. Það er einmitt þverstæða hryllingsins að fólk sæki til dæmis í hrollvekjumyndir „Þá skiptir ímyndunaraflið miklu máli; hluti af hryllingslist er skrímslaformunin og þar fær ímyndunaraflið að leika lausum hala. Okkur finnst frjótt ímyndunarafl aðlaðandi, þótt það geti verið óþægilegt og ógnandi.“

Líkamlegt úrkast

Stundum heyrist sagt að almenningur hreinlega óttist samtímamyndlist en eigi mun auðveldara með að tengja sig við kvikmyndir. „Samtímamyndlist í heild er gríðarlga vítt fyrirbæri, á meðan kvikmyndaformið er innan ákveðnari ramma, sem auðveldara er að skilgreina. Formfræðilegur bakgrunnurinn er samt áþekkur en engu að síður setjum við okkur í aðrar stellingar fyrir samtímalist,“ segir Ransu. Hann bætir við að þó sé tungumál myndlistar alls ekki jafn flókið og það kannski virðist vera, eins og fólk sé fljótt að átta sig á sem byrji að skoða og tileinka sér myndmálið. „Þessi nýja bók mín fjallar þannig mikið um formfræði sem er raðandi í samtímalist. Það er til að mynda blendingsform, sem er tengt hryllingsmyndinni. Skrímsli, vélverur og varúlfar eru allt blendingsform, og sú formfræðihugsun er mjög sterk í myndlist í dag. Endurspeglast í formrænni samsetningu en líka í því hvernig til dæmis málverk og skúlptúr getur verið blendingsform þar sem mörkin þeirra á milli eru orðin óskýr. Blendingsform er bara samruni ólíkra forma.

Ég skrifa líka um fyrirbæri eins og formleysur og úrkast, þar sem í listsköpun er fjallað um það sem er inni í líkamanum, blóðið og allt ógeðið, og það dregið út á yfirborðið“ segir hann og glottir. „Fólk sér kannski myndlistarverk þar sem listamaður vinnur með vessa og blóð og það þykir ógeðsleg, en svo fer þetta sama fólk í bíó á splattermynd þar sem persónur eru afhausaðar og vessar og blóð flæðir. Þá er það ekki lengur óskiljanleg list heldur skemmtun - í báðum tilvikum er þó unnið með líkamlegt úrkast og hryllinginn sem því fylgir.“